Lagði lykkju á starfsferilinn og batt endahnút á atvinnuleysið

Jibbíjeii, mín er loksins búin að fá vinnu! Reyndar á ólíklegasta stað sem ég hefði getað ímyndað mér en öll vinna er vel þegin vinna, á þessum síðustu og verstu, og ég er barasta full tilhlökkunar yfir að takast á við prjónavörubransann, sléttan sem brugðinn! En aldrei hefði mig rennt í grun um hversu blómstrandi bissness þetta er, fyrr en ég sá með eigin augum hversu bandbrjálað er að gera í þessari litlu prjónabúð í hjarta miðborgarinnar.

 

Er búin að þrauka fyrsta daginn innan um fjöll af lopapeysum, sæg af innlendum prjónakonum og hjörðum af túrhestum og líst bara rosa vel á. Er algjörlega að upplifa æskudrauminn um að verða búðardama og held jafnvel að það gæti leynst smá sölutalent inni í minni. Náði til dæmis að selja Kana jakkapeysu með því að segja henni hversu vel hún færi við augnlitinn hennar. Og komst að því að ég er lúmsk smjaðurskjóða.Wink

Andrúmsloftið er líka alveg einstakt þarna inni, mjög kósí og gamaldags með fornaldarvigt til að vigta plötulopann sem selst nánast í tonnatali. Meira að segja búðakassinn er stækkuð útgáfa af leikfangakassa sem ég átti sem krakki. Svona kassi þar sem maður þarf að stimpla inn verðin á gamla mátann (engin strikamerki þar á bæ) og það klingir í honum þegar hann opnast.

Nú er bara að sjá hvort lopapeysulyktin eigi eftir að smita út frá sér og fá mig til að læra að prjóna og hversu langan tíma það tekur þar til ég næ að fatta handavinnuhúmor samstarfsfélaganna.

 


Tilraun til að æfa spontanítetrið

Þetta er víst alveg rétt hjá ykkur, gott fólk, mín er ekkert á leiðinni að bjarga heiminum frekar en nokkur annar. Nema ef vera skyldi Obama, sem er nú aldeilis búinn að fá hvatningarverðlaun til þess. En þegar jafnvel stjörnuspáin er hætt að gefa manni hvatningarspark í rassinn hlýtur botninum að vera náð, ekki satt? Frown

Eins og þið flest vitið hefur lítið dregið á daga mína undanfarið og því hefur líka lítið farið fyrir bloggþörfinni. Mín ákvað því að leita uppi innblástur eins og alvöru rithöfundar og gera eitthvað algjörlega spontant. Er nefnilega þeirrar skoðunar að of mikil skipulagning sé hamlandi frekar en hitt. Í gær gafst svo hið kjörna tækifæri til þess að sannreyna þetta. Ég var bara í mestu makindum að horfa á föstudagskastljósið þar sem tveir Höfuð-Hjálmar (höfuðpaurarnir í Hjálmum) voru að spjalla og spila til að plögga útgáfutónleikana sína síðar um kvöldið. Svo held ég bara áfram að glápa á sjónvarpið eða þar til ca. klukkan 23 þegar mín ákveður svona sérdeilis óundirbúið að drífa sig barasta á tónleikana sem áttu að hefjast um miðnættið.

Þar sem klukkan var orðin þetta margt var ég ekkert að suða í vinum um að koma með mér enda sorglega fáir þeirra sem kunna að meta íslenskar Reggae-rímur. Auk þess var það bara partur af hinu nýuppgötvaða spontaníteti mínu að láta slag standa og fara ein.

Þeir sem til þekkja vita náttúrulega að ekki er nauðsynlegt að hafa sig mikið til fyrir Hjálma-tónleika, svo mín skellti bara á sig smá púðri, varasalva og tréperlum og var þá orðin gúdd-tú-gó. Skildi lopapeysuna eftir heima að þessu sinni, vissi af gamalli reynslu að það yrði svitabað á Nasa. Brást þó ekki sem mig grunaði, að ég sá bregða fyrir allnokkrum síðskegglingum í lopapeysum, og það meira að segja niðri í hitakösinni á dansgólfinu.

Milli þess sem ég naut tónlistarinnar, sem var algjör snilld og hverrar krónu virði, spjallaði ég við hörundsdökkan Ísfirðing og sköllóttan Norðmann. Spjallaði er kannski fullmikið sagt, skiptist á eyrnaöskrum við Ísfirðinginn og tók nokkur létt dansspor með honum. Varð þó ekki meira úr því enda dró áfengisleysið verulega úr spontanitetrinu hjá minni. En það held ég að hún föðursystir mín á Ísó hefði verið ánægð með mig ef ég hefði náð mér í Ísfirðing, jafnvel þótt hann væri upprunalega ættleiddur utan úr heimi.

Rakst svo á eldhressan Norsarann fyrir utan en átti ennþá erfiðara með að skilja hann en Ísfirðinginn. Ástæðan var sambland af vindhviðum, þvoglumælgi hans og þeirri staðreynd að hann talaði eingöngu norsku. Ég náði því þó að hann hefði flogið frá Tromsö til Gardemoen og þaðan til Íslands fyrr um daginn til að taka þátt í „helgarráðstefnu" ásamt 60 vinnufélögum sínum. Veðrið kvað hann vera skítt heima í Norge líka og verðlagið sömuleiðis.

Ég svaraði sem best ég gat á minni vanþróuðu Skandi-blandísku, enda er spjall við ókunnuga mjög mikilvægur þáttur í því að þjálfa spontanítetrið. En þegar hann bauðst til að láta giftingarhringinn sinn hverfa niðrí bukselommen sinn ef ég kæmi með honum heim á hótel, var spontanitetið mitt allt í einu fokið út í veður og vind. Svo ég hélt bara heim á leið, ein en nokkuð sátt með þessa tilraun mína.


Bíddu bara heimur!

Stjörnuspá

Tvíburar: Þú ert nú ekki heppilegasti maðurinn til þess að bjarga heiminum á meðan þú getur ekki einu sinni skipulagt þitt eigið líf.


Eftir-helgar-ergelsi

 

ARRRG!!! Dulúð er komin með algert ógeð á karlmönnum sem halda að þeir séu Guðsgjöf til kvenna, hugsa aðeins um eitt og halda að allar konur taki á rás upp í rúm með sér innan við kortéri eftir fyrstu kynni. Og hvort sem þær geri það eða ekki, sé það hreinlega ekki ómaksins vert að púkka upp á þær meir!

URRR...mér er skapi næst að skrifa þessa bók sem ég talaði um hérna síðast. Ég held ég hljóti að vera komin með efni í þó nokkra kafla bara eftir eigin ömurlegu reynslu úr viðreynsluheiminum.Angry


Smásögustund

Eins og þið flest vitið skellti mín sér á námskeið í skapandi skrifum nú nýlega. Þar sem fátt annað bloggvert hefur borið á daga Dulúðar, hef ég ákveðið að skella inn svosem einu eða tveimur verkefnum úr námskeiðinu. Hér kemur eitt sem samnemendur mínir virtust hafa lítið gagn en meira gaman af. Verkefnið snerist um að ímynda sér að maður væri að gefa út smásagnasafn og við áttum að skrifa umsögn eftir útgefandann aftan á kápuna, gera efnisyfirlit og stutt brot úr hverri sögu.

Vinsamlegast athugið að þrátt fyrir að rithöfundar séu óskammfeilnasta fólk sem um getur og stela óspart hugmyndum úr sínu nánasta umhverfi, er rétt að taka fram að engar persónur eða atburðir hér á eftir eiga sér fyrirmyndir í raunveruleikanum. Hugmyndirnar eru hins vegar samsettar úr mörgum ólíkum áttum og því líklegt að einhverjar stallsystra minna kannist við brotabrot úr eigin lífi.   

Titill: Leitin - Að hinum eina rétta

Umsögn útgefanda á kápu: Í Leitinni að hinum eina rétta segir frá stefnumótaraunum fimm ólíkra kvenna á spaugilegan hátt. En þær eiga það sameiginlegt að vera í örvæntingarfullri leit að framtíðarmaka. Sú leit reynist æði vandasöm og leiðir til ýmissa kynlegra uppákoma. Hver saga er sjálfstæð frásögn og gerist á mismunandi stöðum þar sem samskipti kynjanna eiga sér stað í hinu daglega lífi og lýsa misrómantískum tilburðum sem þar fara fram.

Leitin er bæði í senn raunsönn og kaldhæðin lýsing á heimi einhleypra kvenna á þrítugsaldri. Smásögurnar gerast í alíslenskum raunveruleika en sverja sig í ætt við þættina Beðmál í borginni og Dagbækur Bridget Jones, þar sem undirliggjandi er stóra spurningin um það hvort söguhetjurnar finni ástina að lokum.

Leitin er frumraun höfundarins sem stekkur nú ferskur inn á íslenskan bókamarkað, sem hingað til hefur sárlega vantað svokallaðar chick-lit sögur.

Brot úr smásögunum:

Brúðkaupið

Góði Guð, láttu mig ekki grípa brúðarvöndinn svo ég neyðist til að dansa við feita gaurinn í hvítu sportsokkunum sem fékk sokkabandið í augað. Bað Emma í hljóði þegar harðgiftar vinkonur hennar ýttu henni aðeins of ákveðið, að henni fannst, inn í fámennan hóp bólugrafinna unglingsstelpna og fráskildra frænkna á fimmtugsaldri, í þessari 4. brúðkaupsveislu sumarsins.

Djammið

Frumskógur sveittra armkrika og illa þefjandi fóta. Villt dýrahjörðin hreyfist í takt við dúndrandi teknótónlistina. Við drykkjarlind hjarðarinnar er barist um besta stæðið, þar sem mestar líkur eru á að ná augnsambandi við barþjóninn. Hún kemur auga á aðalkarldýrið á dansgólfinu, setur á sig gloss, lagar brjóstaskoruna og brýst í gegnum þvöguna af kvendýrum í misjöfnu ásigkomulagi sem hefur umkringt hann. Hún er á veiðum.

Fésbókin

Hmm...hvaða lúser skyldi nú hafa potað í mig, hugsaði Þóra þegar hún renndi yfir nýjustu feisbúkk statusana, nýkomin heim af djamminu. Nei sko, Danni boy bara dúkkaður upp aftur, hvað skyldi drullusokkurinn sá nú vilja? Hugsaði Þóra með sér, vel þess minnug hve sambandslit þeirra höfðu farið illa með hana. Best að tékka aðeins á prófílnum hans á meðan ég læt renna aðeins af mér. Nei, kommon ég trúi 'essu ekki, hrópaði hún upp yfir sig þegar hún rak augun í myndina af Danna og nýju sambýliskonunni. Druslan er nákvæmlega eins og ég, sumir eru greinilega ekki komnir yfir mann!

Ræktin

Hvað er eiginlega málið með þessar þvengmjóu gelgjur sem fara stífmálaðar í ræktina og svitna ekki einu sinni á rassinum? spurði Signý systur sína andstutt þar sem þær púluðu á stigavélunum í Laugum og gjóuðu augunum á nokkrar menntaskólastelpur sem notuðu hlaupabrettin eins og þær væru að spássera niður Laugarveginn. Til hvers í ósköpunum að borga morðfjár fyrir þetta, hélt Signý áfram í hneykslunartón, en þagnaði snarlega þegar myndarlegur maður með þvottabretti og tannkremsbros gekk framhjá þeim, staðnæmdist hjá menntaskólagelgjunum og gaf sig á tal við þær. Signý strauk svitastokkið hárið frá andlitinu og sneri sér að systur sinni. Heyrðu systa, varstu ekki annars með svitalyktareyði og maskara inni í klefa til að lána mér?

Vinnan

Eigum við að fá okkur drykk saman eftir vinnu, hafði hann spurt. Hún hafði verið í skýjunum allan föstudaginn og ekki komið neinu í verk á skrifstofunni. Loksins hafði hann sýnt henni áhuga þessi álitlegi piparsveinn og vinnufélagi sem hún hafði haft augastað á, síðasta hálfa árið. Henni hafði orðið svo mikið um spurninguna að hún gleymdi að borða hádegismat og lét sig dreyma um sameiginlega framtíð þeirra fyrir framan tölvuskjáinn allt síðdegið þar til hann kom að ná í hana. Nú var kominn laugardagur og hún rumskaði heima hjá sér með svæsna ógleðistilfinningu og höfuðverk frá helvíti. Hún mundi óljóst eftir fyrstu þremur kokteilunum á Vínbarnum og rámaði í niðurlægjandi heimfylgd þar sem hann hafði þurft að halda henni uppréttri á meðan hún jós yfir hann ástarjátningum. Ónei, þvílíkt klúður, hún gæti ekki litið framan í hann í vinnunni á mánudaginn, né nokkurn tímann aftur.


Flotið sofandi að diplómatískum feigðarósi

Fór í bíó um daginn á Brüno og hló mig máttlausa milli þess sem ég reyndi að kyngja ósjálfráðum hneykslunargusum sem hvelfdust yfir mig í nokkrum atriðum. Þá er ég ekki að tala um hin ófáu klámfengnu atriði, heldur atriðin þar sem skoðanir nokkurra viðmælenda Brünos komu tæpitungulaust fram. Nægir þar að nefna sem dæmi afhommunarpredikarana og viðbrögð glímuáhorfendanna í Suðurríkjum Bandaríkjanna.

Í hléinu kom til tals á léttu nótunum hvað sumir, sem þetta rita, geta oft verið skoðanalausir og bara látið sig berast með fjöldanum. Vissulega réttmæt gagnrýni enda ekki oft sem mín blandar sér í rökræður um eitt né neitt, hvort sem það eru umræður um aðild að ESB eða hvaða skyndibitastaður verði fyrir valinu það kvöldið.

Þetta fékk mína til að hugsa að sem betur fer lenti hún ekki í röngum félagsskap á sínum yngri árum, eins áhrifagjörn og hún var, og er enn. Betra að vinahópurinn geri góðlátlegt grín að manni fyrir skoðanaleysið en að tilheyra e-m fordómafullum ofstækishópi sem fer ekki í neinar grafgötur með sínar skoðanir.   

Magnað samt hvað útlenskur hreimur getur verið bráðsmitandi, stóð mig nefnilega að því að svara manni á bílaþvottastöð: „Ach, nein... er ryksugan biluð!" Eða er það kannski bara ég sem er svona móttækileg fyrir bíómyndum?


Skiptir ekki máli hvort sölumaðurinn er sex eða sextugur, ég fell alltaf fyrir þeim!

Bjallan í íbúðinni hringdi og heimasætan opnaði. Í fyrstu virtist enginn vera fyrir utan en svo heyrðist áköf barnsrödd: „Áttu dót á tombólu?" Heimasætan leit niður og beint í heiðblá augun á sölukonu framtíðarinnar. „Njahh...nei ég held það nú varla." Sölukona framtíðarinnar greip hikið í máli heimasætunnar á lofti, brosti breitt og spurði eldsnögg upp á lagið: „Ertu alveg viss? Er ekkert inni í geymslu hjá þér sem þú þarft að losna við?" Heimasætan ákvað nú að snúa vörn í sókn og sagði vingjarnlega en ákveðið: „Nei, veistu ég er bara nýbúin að fara í Sorpu með allt gamla draslið mitt." Sölukona framtíðarinnar lét sér hvergi bregða, skellti sólbrúnum höndum á skærbleika Gucci-beltið sitt og afgreiddi málið: „En við tökum sko við öllu." Þegar heimasætan horfði á eftir litlu merkjavörudrósinni rogast með fullan kassa af dóti, þar sem efst tróndu kerti úr geymslu heimasætunnar, fann hún á sér að þótt hún hefði í rauninni ekki selt sér neitt, færi þarna sölukona framtíðarinnar.

Bjallan í búðinni hringdi þegar heimasætan gekk inn um þær. Í fyrstu virtist enginn vera fyrir innan en svo heyrðist áköf karlmannsrödd: „Get ég aðstoðað?" Heimasætan leit upp frá því að skoða buxur og beint í súkkulaðibrún augun á sölumanni ársins. „Njahh...nei ég held það nú varla." Sölumaður ársins greip hikið í máli heimasætunnar á lofti, brosti breitt og sagði, eldsnöggur upp á lagið: „Þú ættir að máta þessar, þær eru voða vinsælar og akkúrat fyrir þinn vöxt. Þær koma frá Svíþjóð, rosa góð gæði í þeim og ég get fullyrt að þær kosta minnst tíuþúsund krónum meira annars staðar í Evrópu." Heimasætan ákvað að láta smjaðrið og þvaðrið ekki fara í taugarnar á sér heldur máta buxurnar sem henni leist þegar vel á áður en söluræðan hófst.

„Ég hef nú verið í þessum bransa í 24 ár og veit hvenær föt fara vel á fólki og þessar bara smellpassa þér," hélt sölumaðurinn slyngi áfram þegar heimasætan kom út úr mátunarklefanum til að skoða sig betur í baksýnisspegli búðarinnar. „Ehh...ég veit nú ekki hvort ég geti nokkuð notað þetta í sumar eins og veðrið er búið að vera," reyndi heimasætan að malda í móinn, ennþá hálf sjokkeruð eftir að hafa rekið augun í verðmiðann á hnébuxunum margrómuðu. „Elskan mín góða, þessar geturðu notað hvenær sem er. Flottar við stígvél í vetur," svaraði sölumaður ársins að bragði, studdi sólbrúnum og vel snyrtum höndum á svarta Cavalli beltið sitt og innsiglaði þar með söluna. Þegar heimasætan kvaddi merkjavörugúrúinn fannst henni einhvern veginn eins og hún væri ekki með fisléttar, hágæða sænskar stuttbuxur í plastpoka heldur rogaðist með níðþungan kött í sekki.


Sumarið er tíminn (smá blús innblásinn af Bubba)

Sumarið er tíminn

þegar atvinna er skert

og mótmæli verða

mikið hert

- ójáá.

 

Sumarið er tíminn

þegar ráðherrar fara á stjá

og leggja á skatta

heilan slatta

- ójáá.

 

Mér finnst það ekki í lagi

mér finnst það ekki í lagi

mér finnst það ekki í lagi

- óneei.

 

Sumarið er tíminn

þegar verðlag sprengist upp

og landsmenn ragna

en túristarnir fagna

- ójáá.

 

Sumarið er tíminn

þegar mér líður verst

með skuldinni minni

upp á Vinnumálastofnun

- ójáá.

 

 

 

 


Dalai Lama og hið daglega drama

Þá er hrifnæm hvítasunnuhelgi hjá mér að baki og hversdagsleikinn tekinn við. Fór á samtrúarlega friðarstund í Hallgrímskirkju og upplifði einhvers konar hugvekju þar sem ég hlýddi á hans Heilagleika Dalai Lama. Það var ekki beinlínis það sem hann sagði sem hreyfði við mér heldur frekar framkoma hans og áhrifin sem hann hafði á fólkið. Hélt barasta ekki að okkar lokaða þjóð gæti smitast svona hressilega af brosmildum öldungi í litríkum tógaklæðum. En raunin varð önnur. Þvílíka eftirvæntingu, andakt, virðingu og aðdáun hef ég ekki séð í andlitum samlanda minna eins og þegar lágvaxni munkurinn fikraði sig inn kirkjugólfið undir vökulu augnaráði íslenskra beljaka í starfi lífvarða og eigin lítilláta föruneytis. Hér og hvar mátti sjá glitta í tár á hvarmi þegar krúnurakaður kollurinn kom fyrst í ljós og hrifningin tvíefldist þegar hans Heilagleiki staðnæmdist hér og þar til að hrista nokkra spaða og teygja munnvikin framan í furðulostin börn. Mútta mín varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að heilsa honum með handabandi en fingur hans voru víst kaldir sem samræmist allri hlýjunni í hans stóra hjarta.

Hrifning mín var engu minni en hrifnæmisdagurinn var aðeins hálfnaður því um kvöldið tóku tárakirtlarnir gjörsamlega völdin af minni yfir jafn hallærislegu sjónvarpsefni og Extreme Makeover-Home Edition. Að þessu sinni var um að ræða einstæða móður með hóp af ættleiddum strákum og þar af voru tveir HIV-jákvæðir. Semsagt næg ástæða til að skrúfa frá músabrunnunum. Eftir að hafa séð hinn ofvirka Ty Pennington faðma, geifla sig og gretta framan í fjölda barna í sumarbúðum fyrir eyðnismitaða krakka og uppskera bæði bros og hlátur, varð mér ljóst að þessir mjög svo ólíku menn, Ty og Lama, beita sömu aðferðum til að boða umhyggju og umburðarlyndi fyrir öðrum manneskjum. Jákvæðni þeirra og glaðværð er bráðsmitandi og báðir eru þeir boðberar vonar fyrir framtíðina, hvar sem þeir koma.


Inni er ævintýri

Alveg er það nú stórmerkilegt hvað það er miklu skemmtilegra að blogga þegar maður á að vera að gera e-ð annað og þarf að stelast til þess. Eftir að mín fékk fullt frelsi frá skylduskrifum og ótakmarkaðan tíma aflögu, hvarf bara blogglöngunin eins og fataplögg landans fyrir smá sólu. En nú finnst minni semsagt mál til komið að leggja aftur orð í þennan litla bloggbelg. Þessi frjálsi tími hefur samt ekki farið algjörlega til spillis því hann hefur verið vel nýttur við að fjörga upp á félagslífið, endurnýja kynnin við ráðningarskrifstofur og lappa upp á heimilið og garðinn. Semsagt tími til að rækta allt það sem hafði verið vanrækt alltof lengi. Auðvitað hefur þessum tíma líka verið eytt með misvitrænum hætti og alltof mörg kvöldstundin hefur til dæmis farið í að horfa á misgáfulegar tónlistarkeppnir.

Eftir nokkurra vikna samfellt ágláp á Ædol Æsland, Júróvisjón og Ameríkan Ædol sátu þessar pælingar helst eftir í tónsýrðum kollinum mínum: „Vá, ég myndi líka þurfa að fá mér kók í nös ef ég þyrfti að sitja og hlusta á þetta", „Æm inn lov viþþa feríteil...eins og gjörvöll Evrópa greinilega", og „Hvað ætla þessir yfirborðslegu Kanar að kjósa blinda, laglausa gaurinn lengi?" En það sem stóð upp úr eftir allar þessar söngkeppnir voru úrslitin sem í tveimur tilfellum af þremur voru vægast sagt stórfurðuleg. Í íslensku útgáfunni af Idol var það feimni krummatemjarinn frá Kongó (eða rokkstjarnan í dulbúningi barnapíu eins og Björn Jö hélt fram) sem nappaði óvænt sigrinum af sjálfsöruggu söngdívunni úr Mosó. Í ameríska Æ-gólinu var það svo hlédrægi strákurinn úr næsta húsi sem sigraði über-hýra djammgaurinn af næsta bar, öllum að óvörum.

Þessi óvæntu úrslit segja allt sem segja þarf um breytt viðhorf í kjölfar heimskreppunnar. Nú gildir ekki lengur sú taktík að vera sem mest áberandi og sá metnaðarfullasti heldur sá sem heldur sig til hlés og gerir sitt af einlægni og hógværð. Það er ekki einu sinni gerð krafa um að maður sé besti söngfákurinn í hæfileikastóðinu eins og sannaðist í þessum keppnum. Fólk vill bara sjá ekta ævintýri rætast á skjánum eins og þegar öskubuskan frá Djúpavogi gerði sér lítið fyrir, steig stórglæsileg úr stónni, upp á svið og skaut söngsystrum sínum ref fyrir rass í þriggja manna úrslitum. Eða þegar litlausi sveitapilturinn frá Arkansas sigraði farðaða riddarann frá Kaliforníu. Að ógleymdum hógværa draumaprinsinum Alexander Rybak sem lækkaði rostann í gríska forystufolanum (sjálfskipaða).

Nú er bara að vona að íslenskir atvinnurekendur séu á svipaðri bylgjulengd og aðdáendur söngvakeppna. Að þeir kjósi umsækjanda sem er ekki endilega sá besti í bunkanum eða með flottustu framkomuna heldur einhvern sem lætur lítið fyrir sér fara en leynir á sér.Wink

 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband