Skiptir ekki máli hvort sölumaðurinn er sex eða sextugur, ég fell alltaf fyrir þeim!

Bjallan í íbúðinni hringdi og heimasætan opnaði. Í fyrstu virtist enginn vera fyrir utan en svo heyrðist áköf barnsrödd: „Áttu dót á tombólu?" Heimasætan leit niður og beint í heiðblá augun á sölukonu framtíðarinnar. „Njahh...nei ég held það nú varla." Sölukona framtíðarinnar greip hikið í máli heimasætunnar á lofti, brosti breitt og spurði eldsnögg upp á lagið: „Ertu alveg viss? Er ekkert inni í geymslu hjá þér sem þú þarft að losna við?" Heimasætan ákvað nú að snúa vörn í sókn og sagði vingjarnlega en ákveðið: „Nei, veistu ég er bara nýbúin að fara í Sorpu með allt gamla draslið mitt." Sölukona framtíðarinnar lét sér hvergi bregða, skellti sólbrúnum höndum á skærbleika Gucci-beltið sitt og afgreiddi málið: „En við tökum sko við öllu." Þegar heimasætan horfði á eftir litlu merkjavörudrósinni rogast með fullan kassa af dóti, þar sem efst tróndu kerti úr geymslu heimasætunnar, fann hún á sér að þótt hún hefði í rauninni ekki selt sér neitt, færi þarna sölukona framtíðarinnar.

Bjallan í búðinni hringdi þegar heimasætan gekk inn um þær. Í fyrstu virtist enginn vera fyrir innan en svo heyrðist áköf karlmannsrödd: „Get ég aðstoðað?" Heimasætan leit upp frá því að skoða buxur og beint í súkkulaðibrún augun á sölumanni ársins. „Njahh...nei ég held það nú varla." Sölumaður ársins greip hikið í máli heimasætunnar á lofti, brosti breitt og sagði, eldsnöggur upp á lagið: „Þú ættir að máta þessar, þær eru voða vinsælar og akkúrat fyrir þinn vöxt. Þær koma frá Svíþjóð, rosa góð gæði í þeim og ég get fullyrt að þær kosta minnst tíuþúsund krónum meira annars staðar í Evrópu." Heimasætan ákvað að láta smjaðrið og þvaðrið ekki fara í taugarnar á sér heldur máta buxurnar sem henni leist þegar vel á áður en söluræðan hófst.

„Ég hef nú verið í þessum bransa í 24 ár og veit hvenær föt fara vel á fólki og þessar bara smellpassa þér," hélt sölumaðurinn slyngi áfram þegar heimasætan kom út úr mátunarklefanum til að skoða sig betur í baksýnisspegli búðarinnar. „Ehh...ég veit nú ekki hvort ég geti nokkuð notað þetta í sumar eins og veðrið er búið að vera," reyndi heimasætan að malda í móinn, ennþá hálf sjokkeruð eftir að hafa rekið augun í verðmiðann á hnébuxunum margrómuðu. „Elskan mín góða, þessar geturðu notað hvenær sem er. Flottar við stígvél í vetur," svaraði sölumaður ársins að bragði, studdi sólbrúnum og vel snyrtum höndum á svarta Cavalli beltið sitt og innsiglaði þar með söluna. Þegar heimasætan kvaddi merkjavörugúrúinn fannst henni einhvern veginn eins og hún væri ekki með fisléttar, hágæða sænskar stuttbuxur í plastpoka heldur rogaðist með níðþungan kött í sekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hehe..

það vantar svona "líkar við" takka eins og er á Feis.

góðir sölumenn gætu selt manni skrattann :)

veit ekki hvort sé verra, að lenda í sölumanni sem nennir ekki að afgreiða eða sölumanni sem gæti talið mann á það að ná í kortið upp úr veskinu og klárað söluna áður en manni snýst hugur :)

hanna (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 19:32

2 identicon

Hahaha, tókst skýrt fram að þú hefðir verið búin að taka eftir þessum sænsku, og líkað vel við, áður en kaupmaðurinn benti þér á þær. Fæ á tilfinninguna að verið sé að reyna að draga aðeins úr högginu ;)

Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 17:00

3 Smámynd: Dulúð Jóns

Haha, ég vissi að þú myndir skilja mig Hanna mín, og jú þetta er skarplega athugað hjá þér Guðrún mín, ég var líklega að reyna að réttlæta kaupin fyrir mér og öðrum

Dulúð Jóns, 14.7.2009 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband