Færsluflokkur: Bloggar

Spáð í stjörnurnar (ekki Hollywood slúður)

Til er fólk sem afneitar æðri máttarvöldum, hvaða nöfnum sem þau kallast. Til er fólk sem afneitar andaheiminum. Til er fólk sem afneitar tilvist forlaganna. Til er fólk sem afneitar stjörnuspám.  

Ég er ekki eins og þetta fólk. 

Ég er ekki strangtrúuð, hef aldrei farið á miðilsfund og sjaldan notað örlögin sem afsökun fyrir því sem miður fer í mínu lífi en ég afneita ekki. Sérstaklega ekki stjörnuspánni.

Hér koma nokkrar spár sem ég hef sankað að mér undanfarnar vikur og finnst eiga sérlega vel við (já, já ég skal viðurkenna að ég sleppti þeim sem pössuðu síður við mig)!

Tvíburar: Peningarnir sem þú hefur lengi vænst streyma inn þegar þú hættir að bíða. Krabbi hjálpar þér að taka til hendinni þegar þú veist ekki hvað gera skal næst. (Mamma er sko krabbi. Stóra spurningin er hins vegar, hvenær er tímabært að hætta að bíða???)

Tvíburar: Þú ert skapandi, metnaðarsamur og tilbúinn til að kanna hvert þú kemst á þessum kostum. Þú virðist geta gert allt nema það sem þú átt að gera. (Svo satt!!!)

Tvíburar: Þú ert kannski ekki að leita að nýjum verkefnum, en þau þefa þig uppi. Sköpunarþrá þín þarfnast útrásar og sættu þig við það. Í kvöld færðu verðlaun. (hmm...man nú ekki eftir að hafa fengið verðlaun þetta sama kvöld, en Spádómssveinki þarf nú líka að sinna svo mörgum tvíburum í heiminum að honum getur hafa seinkað!) 

Tvíburar: Reyndu að komast hjá því að kaupa hluti í stað þess að búa þá til. Alheimurinn styður allar frumlegar hugsanir. Hæfileikar þínir blómstra við sköpun ekki eignarétt. (ég túlka þetta þannig að allar mínar jólagjafir í ár eigi að vera home made Happy)

Tvíburar: Viltu verja málstað? Hvernig væri að bera mótmælaspjald gegn vanmati á duttlungum? Þú er óskabarn málstaðar ímyndunarafls og undra. (já, hvernig væri það? ég ætti kannski bara að stilla mér upp með skilti við hliðina á Helga Hóseassyni fram að jólum, svona fyrst ég er í fríi hvort eð er!)

Tvíburar: Varaðu þig á að vera ekki svo hagsýnn að það geri bara illt verra. Framkvæmdu af glæsibrag í stað þess að fylgja áætlunum eins og vélmenni. (skal gert...robot over and out!)

Tvíburar: Ekkert jafnast á við það að eiga samskipti við fólk sem er jafn hnyttið - eða næstum jafn hnyttið - og þú. Farðu þangað sem klára fólkið safnast saman. (á nú ekki í vandræðum með það, á bara hnyttna og klára vini!)

Tvíburar: Ofur farsælir vinir geta hjálpað þér með allt sem vefst fyrir þér. Að biðja um hjálp styrkir böndin sem sem halda þér inni í tengslaneti annara. (ójá, þarna fékk ég loks góða afsökun fyrir að betla alltaf hjálp hjá mínum OFUR FARSÆLU vinum, ég er bara að treysta tengslin Wink)

Öðruvísi stjörnuspá: Þú ert eirðarlaus og yfirborðslegur, alltaf á hlaupum frá einu tilgangslausu verkefni í annað, með hundrað ókláruð járn í eldinum. Þú ert síljúgandi, enda sérfræðingur í að gefa loforð sem þú getur ekki staðið við. Vissulega ertu vel gefinn, en þú sóar hæfileikum þínum í blaður og óþarfa. (Þessi er í uppáhaldi, hreinskilnin hristir upp í manni!)


Allt er þá fernt er (vonandi!)

Ég er komin með fernu. Biluð tönn. Tvær réttara sagt. Viðgerð svarar kostnaði...miklum kostnaði. Ein tönn fixuð og straujuð á debet í dag, hin fer á janúarvísareikninginn sem betur fer. En ljósi punkturinn þessa stundina er sá að hinir dimmu sjónvarpslausu dagar eru liðnir! Þakka þeim hugulsömu stúlkum sem sendu samúðarkveðjur og buðu fram aðstoð sína á þessum erfiðu tímum. Tímum í bókstaflegri merkingu því þetta voru nú ekki nema tveir sólarhringar ca. Verð þó að fá að leiðrétta þann misskilning að hægt sé að fá ágætis sjónvörp undir mánaðarlaunum ríkisstarfsmanns því viðkomandi álitsgjafi vinnur augljóslega í öðru þrepi innan ríkisgeirans en sú sem hér skrifar. Auk þess er fátt um ódýra LCD drætti á sjónvarpsmörkuðum landsins nema maður vilji 20 tommu sjónvarp frá óþekktu fyrirtæki í Asíu sem maður kann ekki að bera fram nafnið á. En vilji maður hins vegar eyða tvöföldum mánaðarlaunum í plasmaflatskjá, getur maður valið sér úr stórum hópi föngulegra gripa og farið svo heim með sætasta skjáinn úr búðinni. 

En nú er semsagt kominn þessi fíni Philips breiðskjár sem sómir sér mun betur sem stofustáss en ryksjúgandi Sharp breiðboxið, blessuð sé minning þess. Annars get ég nú ekki kvartað mikið yfir þessum stutta tíma sem ég var án imbans. Iðjuleysið sem oft hrjáir mig fyrir framan skjáinn vék um stund fyrir mikilli verkgleði. Ég náði m.a. að klára 7 síðna lokaverkefni, hlustaði á útvarpið eftir langt hlé og samræðurnar við hinn fjölskyldumeðliminn snerust um málefni alls ótengd sjónvarps-dagskránni. Semsagt kærkomin tilbreyting. Ég ætti kannski bara að hugleiða að stofna baráttusamtök um endurupptöku sjónvarpslausra fimmtudaga. Hver vill vera með?


Þeir segja að allt sé þá þrennt er

Þrír er bölvuð ólánstala. Þetta er engin hjátrú heldur staðreynd. Hvers kyns áföll virðast oft koma í þrennum. Meira að segja dauðsföll koma í þrennum. Á elliheimilunum deyja oftar en ekki þrjú gamalmenni með stuttu millibili. Kannski ekki öll á sömu deildinni en allavega í þrennum. Sama gildir um fjárhagsleg áföll. Fyrst gaf þvottavélin upp öndina eftir höktandi sársaukakvein sem glumdu hæða á milli. Eftir vikuþjáningar hennar og íbúanna var hún lögð til hinstu hvílu í kirkjugarði úrsérgenginna heimilistækja, Sorpu. Viðgerð á vindu svaraði ekki kostnaði svo fjárfest var í nýrri og hljóðfrárri vél. Kostnaður ca. hálfsmánaðarlaun óbreytts ríkisstarfsmanns. Næst var það átómóvíll í andarslitrunum. Haft var samband við óhefðbundinn bílalækni sem gaf þá greiningu að viðgerð svaraði ekki kostnaði, betra væri að kaupa nýjan.

Eigendur vildu ekki hlusta á ráðleggingar skottulæknisins, þrjóskuðust við og sendu bílinn á einkasjúkrahúsið á Bíldshöfða. Lífgunartilraunir báru árangur og mótorinn hrökk aftur í gang í það sinnið. Útlagður sjúkrahússkostnaður slagaði upp í mánaðarlaunin. Að lokum kvaddi sjónvarpið þennan heim með hvelli. Náði þó að blikka eigendur sína í kveðjuskyni með stuttum svörtum skjátruflunum dagana fyrir andlátið. Ef þeir hefðu áttað sig fyrr á þessum sjúkdómseinkennum hefði kannski verið hægt að bjarga einhverju með bráðaaðgerð...hver veit? Í staðinn var úrskurður dánardómstjórans þessi: „Viðgerð svarar ekki kostnaði." Kostnaður við kaup á nýju tæki: Á eftir að koma í ljós, erum enn að syrgja.


ViðskiptaVINUR Vörutorgs nr.1

Enn eitt bullverkefnið...

sem gæti þó gerst í raunveruleikanum (eða ekki)!

Hér var málið að hafa persónu/r með sérstakan karakter og málfar:

Ø     Vörutorg, góðan dag. Get ég aðstoðað?

Ø     Já, góðan daginn vinan. Get ég fengið að tala við aðalmanninn?

Ø     Ha, hvern?

Ø     Myndarlega manninn með skemmtilega talsmátann.

Ø     Áttu við Daníel Ben?

Ø     Já, vina einmitt hann.

Ø     Bíddu augnablik, ég skal gefa þér samband.

Ø     Þakka þér fyrir væna.

Sefandi melódísk biðtónlist heyrist spiluð í 45 sekúndur 

Ø     Daníel.

Ø     Já, komdu sæll vinur. Gunnhildur Örlygsdóttir heiti ég en kallaðu mig bara Gunnu. Ég er afskaplega mikill aðdáandi þáttarins þíns og mig langaði bara að þakka þér kærlega fyrir vasklega framkomu. Þú virkar svo fagmannlegur í sölumannshlutverkinu.

Ø     Eh...já, þakka þér fyrir. Alltaf gaman að fá svona kompliment.

Ø     Já, og þú hefur líka skánað heilmikið síðan þú byrjaðir. Þá varstu dulítið stressaður sem er nú alveg skiljanlegt en núna ertu orðinn svo eðlilegur. Við hjónin höfum nefnilega fylgst með þér alveg frá upphafi. Við horfum alltaf á þáttinn nema þegar við förum í dagvistina á miðvikudögum að spila vist en þá látum við taka hann upp fyrir okkur.

Ø     Umm...já, gott að heyra að ykkur líkar þátturinn.

Ø     Já og svo horfum við líka oft með barnabörnunum þegar þau eru í heimsókn og þau hlæja og hlæja á meðan. Það er svo gott að heyra þau skemmta sér svona vel því þau hafa verið dálítið leið undanfarið, eftir skilnaðinn og svona.

Ø     Umm...já, ég skil.

Ø     Annars hef ég nú aldrei skilið hvað þeim finnst svona agalega skondið hróunum en þau eru náttúrulega skilnaðarbörn og hver veit svosem hvað þau hugsa. Þú tekur það ekkert nærri þér vinur þó þau hlæi að þér, er það nokkuð? En þú mátt líka vita það Daníel minn að við hjónin erum alveg hætt að horfa á Spaugstofuna eftir að þeir gerðu gys að þér um daginn, aldeilis óforskammanlegt! 

Ø     Hehe...við tókum þessu nú ekki svo alvarlega hérna, okkur fannst nú bara húmor í þessu. En vildirðu ekki panta eitthvað hjá mér?

Ø     Elskan mín, ég er löngu búin að panta allar jólagjafirnar hjá þér. Sonur okkar fær bumbubeltið, gæskurinn er búinn að bæta svolítið á sig síðan hann fór til München á Októberfest í fyrra. Já og fyrrverandi tengdadóttir okkar fær svo fína pönnusettið, henni hættir nefnilega til að brenna stundum matinn. Ég gaf henni líka gufumoppuna í afmælisgjöf um daginn því hún er nú heldur ekki mjög liðtæk í húsþrifum þessi elska. Já, og svo fá krakkarnir þessi fínu fæðubótarefni og snyrtivörur því þau eru svo dugleg í íþróttunum og maður á svo óskaplega erfitt með að velja eitthvað handa þessum unglingum.

Ø     Jæja já, en hvað með ykkur hjónin, eitthvað sem ykkur vantar?

Ø     Nei, nei biddu fyrir þér væni! Við hjónin erum fyrir löngu búin að fylla íbúðina okkar hérna á Hrafnistu með vörunum þínum. Ég er meira að segja með tvo súkkulaðigosbrunna, einn á stofuborðinu og einn í eldhúsglugganum. En við setjum þá helst ekki í gang nema við sérstök tækifæri. Súkkulaðið fer svo illa með hvítu löberana mína, þú skilur...

Ø     Og svo förum við hjónin helst aldrei úr Tempur-inniskónum okkar, þeir eru svo þægilegir. Eiginlega allt of þægilegir því einu sinni fór hann Dóri minn á þeim alla leið í rútunni þegar við fórum í hópferð að versla í Bónus, án þess að verða þess var. Hugsaðu þér bara!

Ø     Umm...já, en ef það er ekkert sem ég get aðstoðað þig með...

Ø     Jú, vinur það er reyndar eitt sem mig langaði að biðja þig um. Við Dóri minn eigum gullbrúðkaup bráðum og mig langar að koma honum á óvart í tilefni dagsins. Gætirðu ekki sent okkur kveðju í þættinum?

Ø     Öhh...þetta er nú ekki þannig þáttur, við erum ekki vön að senda kveðjur í honum.

Ø     Nei, ég veit vinur en ég var að lesa viðtalið við þig um daginn í nýja Morgunblaðinu um þetta skemmtilega bónorð þitt í fréttunum á Stöð2. Afskaplega er hún nú annars hugguleg konan þín, fyrirsæta var það ekki? Ég klippti út myndina af ykkur og setti í albúmið okkar. Drengirnir ykkar hljóta að vera myndarlegir líka.

Ø     Já, takk, jú þeir eru það. En það var nú reyndar ég sem var fyrirsætan og bónorðið var nú bara sýnt á árshátíð 365 en ekki í beinni.

Ø     Jæja, góði. En þú hugsar kannski bara málið, þetta er ekki fyrr en 18. desember.

Ø     Umm, já en ég get engu lofað um það...

Ø     Allt í lagi vinur en það var gaman að heyra loksins í þér röddina svona persónulega, mér finnst ég þekkja þig svo vel. Vertu þá sæll, Daníel minn og farðu vel með þig.

Ø     Já, takk sömuleiðis. Vertu blessuð.

18. desember á Skjá einum klukkan 16:45 

Ø     Hver man ekki eftir hjónunum Gunnu og Dóra í íbúð 303 á Hrafnistu í Hafnarfirði? Það gerum við hjá Vörutorgi og við viljum óska þeim hjartanlega til hamingju með gullbrúðkaupið í dag. Þau fá svo sendan óvæntan glaðning í tilefni dagsins. Sitt hvorn heilsukoddann sem er á kostatilboði fram að jólum og kostar aðeins 8.990 kr.


Kaþólikkar kunna líka að hlæja

Kaþólikkar, líkt og aðrir trúflokkar, hafa fengið sinn skerf af miskómískum athugasemdum og bröndurum í gegnum tíðina. Þeir hafa líka löngum verið vændir um alvarleika og að hafa lítinn sem engan húmor. Sem gildur og gegn kaþólikki hef ég tekið mér það bessaleyfi að sýna fram á hið gagnstæða og birti því hér litla dæmisögu sem birtist í nýjasta hefti Kaþólska kirkjublaðsins:

Rómarferð

Kona nokkur fór að venju í hárgreiðslu til að fá klippingu áður en hún lagði af stað í ferðalag til Rómar ásamt eiginmanni sínum. Þegar hún sagði hárskera sínum stuttlega frá ferðaáætlun sinni svaraði hann um leið: „Róm? Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum manni í hug að fara þangað? Það úir og grúir af fólki þar og í þokkabót er allt skítugt. Það er fullkomin vitleysa hjá þér að ferðast til Rómar. En hvað um það, hvernig kemst þú þangað?"

„Við ferðumst með Continental flugfélaginu," ansaði konan. „Við fengum góðan afslátt."

„Continental?" hrópaði hárskerinn. „Það er ömurlegt flugfélag. Flugvélarnar eru gamlar og flugþjónarnir ljótir og seinkun í hverju einasta flugi. En hvað um það, hvar ætlið þið að gista í Róm?"

„Við gistum á frábærum litlum stað rétt við ána Tíber sem kallast Hótel Teste."

„Þú þarft ekki að segja meira. Ég kannast við þennan stað. Allir halda að þeir fái gistingu í sérstöku, fyrsta flokks gistihúsi en í raun og veru er þetta fremur sorphaugur, versti staður í borginni. Herbergin eru pínulítil og þjónustan er léleg og fokdýr. En hvað um það, hvað ætlið þið svo að gera í Róm?"

„Við ætlum að skoða Páfagarð og vonumst til að geta séð páfann í áheyrn á Péturstorginu."

„Því trúir þú nú ekki sjálf," sagði hárskerinn. „Þú í hópi tugþúsunda sem langar alla að sjá páfann. Hann verður eins og maur fyrir ykkur í þessari fjarlægð. En hvað um það, ég óska ykkur fararheilla fyrir þessa heimskulegu ferð. Þið þurfið á því að halda."

Eftir mánuð kom konan aftur í hárgreiðslu. Hárskerinn forvitnaðist um Rómarferðina. „Þetta var afskaplega indælt," sagði konan. „Við lögðum ekki aðeins á réttum tíma af stað í einni af nýjustu vélum Continental flugfélagsins heldur vorum við líka færð í Business Class af því að flugið var yfirbókað. Maturinn og vínið voru fyrsta flokks. Og flugþjónn sem sá um mig var fjallmyndarlegur 28 ára gamall maður. Hótelið var stórkostlegt! Þeir voru nýbúnir að gera við það fyrir meira en 5 milljónir dollara og nú er það eins og gimsteinn í borginni, allra gistihúsa glæsilegast. Vegna fjölda gistinga baðst hótelstjórinn afsökunar og bauð okkur að gista í svítu án aukagjalds."

„Jæja," muldraði hárskerinn, „þetta hljómar þokkalega, en ég veit að ykkur tókst alls ekki að sjá páfann."

„Þvert á móti, við duttum í lukkupottinn. Þegar við vorum að skoða Páfagarð kom svissneskur vörður til mín og sagði að páfann langaði að hitta nokkra ferðamenn, og hvort ég vildi ekki vera svo góð að fylgja sér og fara inn í einkaherbergi páfa og bíða þar uns hann kæmi og heilsaði mér persónulega. Og eftir fimm mínútur kom sjálfur páfi og heilsaði mér með handabandi. Ég beygði kné og hann talaði stuttlega við mig."

„Er það satt? Og hvað sagði hann?"

„Páfi sagði: Hvar í ósköpunum fékkst þú þessa lélegu hárgreiðslu?"

 

Og segiði svo að kaþólikkar hafi ekki ískaldan, rjómalagaðan húmor þó hann sé hjúpaður í dæmisöguídýfu!


Leiðtogablús

Af því að ég er svo tom i hovedet þessa dagana ætla ég bara að henda hérna inn smá smásögu sem ég samdi fyrir hinn magnaða kúrs Skapandi textar og viðtalstækni sem kenndur er af Karli Ágústi atvinnuspaugara (hmm...ætli spaugsemin sé tengd nafninu eða hvað segir þú um það Karl Ágúst?).

Við erum sko að tala um kúrs sem er kenndur klukkan átta á mánudagsmorgnum og samt er full mæting þar! Við áttum semsagt að skrifa undir fyrirsögninni Leiðtoginn lætur af störfum en annars voru efnistök frjáls. Hið merkilega er að þetta verkefni var sett fyrir um það leyti sem leiðtogar borgarinnar voru að láta af störfum og nýir að taka við en samt valdi enginn að skrifa um það. Segir það ekki ýmislegt um hyllina sem leiðtogarnir okkar njóta eða njóta ekki, öllu heldur!?!

 

Leiðtoginn lætur af störfum

 

Það er bankað létt en ákveðið á dyrnar og áður en honum gefst færi á að rymja: „vertu úti", trítlar lágvaxin kona í snjóhvítum kjól með kappa á höfðinu inn til hans. Hún er dökk á hár og hörund og virkar yngri eftir því sem hún kemur nær rúminu hans. Hann reisir sig upp við dogg og hreitir út úr sér um leið: „Ég hélt ég hefði gert það fullkomlega ljóst að ég vil ekki vera truflaður í siestunni minni." „Ég þarf að mæla hjá þér blóðþrýstinginn herra," segir hún og fipast ekki þrátt fyrir ólundartóninn í honum.

„Nú, jæja góða fyrst þú ert hvort eð er búin að trufla mig, geturðu reddað fyrir mig einum stórum og vænum. Hlauptu út á horn og náðu í hann fyrir mig." Hann bandar henni frá sér með æðaberri hendinni sem ber þess þó engin merki að hafa tekið í ófáan gikkinn og hrist spaðann á fjölda frægra manna. Í stað þess að snúast samstundis á hæli og halda rakleiðis í átt til dyranna, fikrar hún sig óhrædd nær honum og brettir upp vinstri ermina á röndótta náttjakkanum hans. „Það er stranglega bannað að reykja hérna inni og auk þess hafið þér ekki gott af því herra," svarar hún grafalvarleg en lyftir öðru munnvikinu kankvíslega.

Nú fýkur í hann og orðin frussast út um sítt skeggið: „Ég hef nú bara aldrei vitað annað eins...en sú ósvífni, veistu ekki hver ég er, chica?" „Jú, auðvitað herra, hver þekkir ekki leiðtoga sinn og landsföður?" segir hún ofur rólega og byrjar að pumpa. Við þetta sljákkar aðeins í honum og hann horfir forviða á þessa stúlku sem stendur svona uppi í stríðu hárinu á honum og svarar honum fullum hálsi, nokkuð sem enginn hefur vogað sér í áraraðir. Alveg síðan hann afsalaði sér nauðbeygður völdum, hefur honum fundist hann einskis nýtur og fullur vanmáttar. Vissulega tóku veikindin sinn toll líka en það að fela Raúl stjórnina var dropinn sem dró úr honum allan mátt.

Og svo kemur þessi stelpuskjáta full af þrákelkni æskunnar sem minnir hann á löngu liðna tíð og allt í einu fyllist hann eldmóði á ný. „Efri mörkin eru 175 á móti 82 neðri og púlsinn 76...fullhár herra," segir hún og setur í brýrnar sem eru bleksvartar og bogadregnar. „Enginn tími til að fást um það, ég ætla fram úr. Náðu í jogging-gallann minn inn í skáp, ég þarf að hringja í Chavéz og panta hjá honum óskalag fyrir þig."


Bara að lífið væri jafn einfalt og sápa! Part II

 

Ef lífið væri S-amerísk sápuópera...

...væru allar konur með sítt hár og sílíkon á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum

 

...væru allir karlmenn vaxaðir með gelað hár og six-pack

 

...væru allir alltaf á háa C-inu

 

...væri grátur og gnístran tanna eins algengur og fótsveppur (semsagt mjög algengur, ógeðslegt en satt!)

 

...væru hárreitingar og hálskyrkingar milli kynsystra daglegt brauð

 

...myndi eina alvöru hættan fyrir ungar stúlkur vera fólgin í uppátækjum tengdamæðra þeirra

 

...væru vondu karlarnir sérlega uppátækjasamir og hugmyndaríkir í afbrotum sínum

 

...væri sárlega þörf á leiklistarkúrsum

 

 

 

 

 


Bara að lífið væri jafn einfalt og sápa!

 

Ef lífið væri sápuópera...

...fengju blindir sýn

...fengju minnislausir minnið aftur

...myndu lamaðir ganga á ný

...myndu látnir vakna til lífsins

...myndu öll kynmök fara fram við ballöðuundirleik í slow motion

...myndu allir sofa hjá öllum, líka innan fjölskyldna því allir væru ættleiddir, getnir með tækni-frjóvgun eða víxlað við fæðingu

...væri enginn skilgetinn

...myndi níu mánaða meðganga styttast í tvær vikur

...væru allar fæðingardeildir tómar því öll börn kæmu í heiminn í bílum á leiðinni þangað

...myndu öll börn fæðast um eins árs aldurinn

...myndu öll börn stækka um 5 cm í hverri viku og skipta um augn- og hárlit reglulega

...myndu allir unglingar sem fengju bólur eða færu í mútur vera sendir burt í heimavist og kæmu aftur nokkrum árum seinna sem "nýjar manneskjur"

...myndu öll fjölskyldurifrildi og ósættir jafna sig um jólin en hefjast aftur eftir nýárið

...myndu allar veislur vera haldnar með engum fyrirvara

...myndi flugferðin Ameríka - Evrópa taka tíu mínútur, fram og til baka

...myndu öll hús rísa á einum degi

...myndu öll fyrirtæki reka sig sjálf

...myndu öll fyrirtæki skipta um eigendur oftar en leikararnir um bólfélaga

 

Ef lífið væri sápa væri lífið litríkara og froðukenndara!

 


Aftur til fortíðar með aðstoð rafrænnar tækni (gömul andlit á nýjum stað...og þó)

Á föstudaginn var ákvað ég að láta slag standa og skella mér á hádegisnámskeið í leit í rafrænum gagnabönkum. Tók þessa stóru ákvörðun með það í huga að þetta væri nú allra síðasti séns fyrir mig að læra á þessa gagnlegu tækni þar eð síðasta önnin mín nálgast mig nú eins og óð fluga. Mér til mikillar furðu og mæðu, reyndist námskeiðshaldarinn vera gamall þýskukennari minn úr menntó. Þar sem ég sit þarna hokin og reyni að skýla mér bak við tölvuskjáinn svo hann taki ekki eftir mér, fæ ég þetta líka þvílíka flashback aftur í tímann. Ég minnist þess að hafa setið einmitt svona fyrir allnokkrum árum nema bara með der/die/das - glósubókina fyrir framan mig (í þá daga voru tölvustofur aðeins brúkaðar einu sinni í viku og fartölvur voru sjaldgæfari en fjögurra-laufa-smárar) í þeirri veiku von að verða ekki spurð út úr námsefninu.

Þegar svo kennarinn/námskeiðshaldarinn fer að fikta í stjórnkerfinu til að reyna að setja í gang glærusjóvið en tekst í staðinn, óafvitandi, að slökkva á öllum tölvunum í stofunni og það tvisvar sinnum, langar mig helst að sökkva ofan í gólf eða sogast inn í skjáinn af vorkunnsemi í hans garð. Ég veit ekki af hverju mér fannst þetta svona pínlegt fyrir okkar beggja hönd því það var nú ekki eins og aðrir námskeiðsgestir vissu af þessum fortíðartengslum okkar. Einhvern veginn rifjaði þetta bara upp gamlar tilfinningar og það hvernig ég fann alltaf til samúðar með kennurum sem urðu oftar en ekki aðhlátursefni illkvittinna samnemenda minna.

Loks þegar námskeiðið hefst og ég er farin að jafna mig á þessu óþægilega endurliti (e. flashback!) þá er mér aftur kippt óþyrmilega til baka í veröld menntskælingsins þegar fólkið í kringum mig fer að spyrja kennarann/námskeiðshaldarann spurninga á borð við: Hvar ertu eiginlega núna? Hvernig komstu þangað? Geturðu hægt aðeins á þér? Það eina sem vantar upp á að ég sé lent aftur í tíma í þýsku 203 er að ónefndur, fyrrum bekkjarfélagi minn rífi gluggann í stofunni upp á gátt til að vinna bug á þessu þrúgandi andrúmslofti!

 

 


Get ég feikað hnakka???

Eins og þið mörg hver vitið, hef ég lúmskt gaman af að sletta í ræðu og riti. Ég kýs reyndar að líta á slangurnotkun mína sem tilraun eða sem lið í eins konar þátttökurannsókn: könnun á málkima unga fólksins. Í því skyni að þróa þessa tilraun mína, skelli ég hérna inn verkefni sem ég vann fyrir tíma í Skapandi textum nú nýlega. Einu fyrirmælin voru að velja sér málshátt og spinna e-ð í kringum hann. Ef einhver skyldi ekki vilja trúa því að svona texti fyrirfinnist í raunveruleikanum, bendi ég viðkomandi á að prófa að gúggla orði eins og t.d. hellaður en með því móti má finna fjöldan allan af bloggsíðum til samanburðar!  

Hér er svo textinn minn: 

Margur heldur mig sig. Ég hef verið að pæla doldið massívt í essum málshætti síðustu vikuna og hef komist aðí að ég fatta bara ekki rassgat í onum. Verð samt að redda eikerri dellu umidda fyrir tímann á morgunn. Er alveg að skíta á mig í íslensku og kennarinn sagði að ég þyrfti að taka mig hellað mikið á til að ná samræmdu í vor. Tékkaði á essu í eikkerri drullugamalli bók sem afi dáni átti. Hún heitir eikkað sona íslenskir málshættir eða eikkað og það meira segja skrifað með setu, pæliði íði!

Ókei, svo fór ég að reyna að fletta essu upp og eikkað en fann ekki jack shit umidda. So gúgglaði ég essu en það var bara algjört krapp sem kom út úr því. Fokk, ég verð þvílíkt grillaður á morgun! Rólegur kallinn, aðeins að tjilla bara. Hey, kannski mar ætti bara að spyrja þau gömlu. Nei, vó mar nenni þokkalega ekki að hlusta á tuðið í ma þegar hún kemst aðí að ég er ekki enn búinn að ryksjúga fokking stigaganginn. Kjellíngin var alveg tjúlluð í gær þegar ég gleymdi að taka úr vélinni.

Fokk, mar! essi málsháttur sökkar feitt mar, þessi kennaradúddi verður bara að djöflast til að hætta að bögga mann. Hva heldur ann eigilega aðann sé, eikkað betri en ég? Hann er ekki einu sinni neitt skorinn heldur með ógisslegt skvap og sveittan skalla. Ég gæti sko fokking tekið hann í bekkpressu. Heldur ann að ann sé eikkað massa important gaur aþí hann er kennari í gaggó. Hey, NEWS FLASH, DUDE!... NOT!!!

Bloggmeistarinn í Efra-Breiðholti

Hér kemur svo smá könnun:

Vinsamlegast látið mig vita hvort ég geti "feikað hnakka" eða hvað ég geri rangt. Er slangrið of úrelt, er því ofaukið, hvað þá helst og hvað gæti ég notað í staðinn?

Hleypið nú ykkar innri hnakka lausum og hjálpið mér að betrumbæta mig í slangrinu!

Og ef einhverjir ekta hnakkar skyldu slysast til að lesa þetta, endilega leiðréttið og aðstoðið mig í þessari slangurtilraun minni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband