Færsluflokkur: Bloggar

Smá guðlast á sunnudegi

Faðir vor, þú sem ert hjá Símanum.                 

Tengist þitt net, til komi þinn gemsi,      

verði þinn vilji, svo í sæstreng sem í lofti.                    

Gef oss í dag vort daglegt píp.                             

Fyrirgef oss vorar skuldir,                               

svo sem vér og fyrirgefum                                     

vorum lánadrottnum.                           

Og eigi leið þú oss í neyslu,                                 

heldur Frelsa oss frá tómri inneign.

Því að þitt er valdið, markaðurinn og dýru verðin

að eilífu,                                                             

Síminn.

 

Ákvað að birta þennan útúrsnúning eftir samráð við lögfróða vini sem segja mér að það sé ólíklegt að ég verði lögsótt fyrir guðlast. Versta er að ég er minnst hrædd um lögsókn af hendi Kirkjunnar manna og refsingu æðri máttarvalda sem gætu meinað mér Gullna Hliðs - innganginn, heldur ber ég mestan beyg í brjósti gagnvart viðbrögðum Símans manna, þeir gætu meinað mér um ADSL-aðganginn! 


Capacent Gallup, góðan daginn! Já, halló má ég taka þátt í könnun?

 

Sat í áhugaverðum tíma í morgun þar sem kona nokkur var að plögga fyrir okkur Capacent Gallup. Komst að því að nafnið er samsett úr orðunum capability og center sem hefði nú barasta aldrei hvarflað að mér. Hélt kannski að það væri capacity + cent sem meikar náttúrulega engan sens þar sem fyrirtæki af þessari stærðargráðu færi nú varla að púkka upp á einn skitinn aur!

En hvað um það, þessi fróða kona (félagsfræðingur að sjálfsögðu), tjáir okkur það í óspurðum fréttum að verið sé að fara af stað með nýja tegund kannana á fjölmiðlanotkun. Þetta er sumsé tæki sem fest er við þátttakendur (við erum sko nánast að tala um Lindsey Lohan rehab-ökklaband) sem nemur upplýsingar þegar viðkomandi er nálægt útvarpi eða sjónvarpi og skráir hversu oft og lengi maður kemst í námunda við slíka fjölmiðla.

Ég var reyndar búin að heyra af þessu áður en vissi ekki að þetta væri komið svona langt á veg hérlendis. Guð má vita hvernig Capability-centerinn ætlar að fara að því að lesa úr þessum upplýsingum sem berast. Ég meina, það er nú ekki sama að vera nálægt viðtæki og taka við skilaboðum úr því. Tökum sem dæmi: Ég gæti verið með kveikt á imbanum heima en verið að einbeita mér að því að prjóna á meðan. Ókei, þetta var óraunhæft dæmi...allir vita að ég er með tíu þumalputta þegar kemur að handavinnu! En setjum sem svo að maður hlaupi inn í sjoppu þar sem síbyljan er í gangi og stoppar inni í fimm mínútur...er maður þá að verða fyrir áhrifum fjölmiðils???

Nei, nei maður bara spyr sig en ég verð nú samt að segja; Á sturlun minni átti ég von, áður en ég fengi löngun til að slá á þráðinn til Gallup og beinlínis bjóða mig fram í könnun!


Valkvíði af verstu sort

Lenti aldeilis illa í því þegar ég opnaði óvart valmöguleikann Meginefni bloggs við nýskráninguna. Vildi svo sannarlega óska að ég hefði ekki slysast til að sjá alla rununa sem kom á eftir möguleikanum Bloggar! Því eftir að ég hafði opnað þessa ormagryfju neyddist ég til að kryfja, vega og meta hvern einasta orm/flokk:
  • Bloggar: Virkar en varla nógu frumlegt.  
  • Bækur: Ætti nú að hafa eitthvert vit á þeim svona með tilliti til gráðunnar í bókmenntafræðinni...verst að ég hef ekki opnað bók síðan hún var í höfn.
  • Dægurmál: Úff...alltof vítt.
  • Enski boltinn: Úff...alltof einhæft.
  • Ferðalög: Jú, það er nú minn tebolli en ég held að fantasíuferðir teljist ekki með.
  • Formúla 1: Sunnudagar eru til að sofa út.
  • Íþróttir: Anti-sportisti dauðans með daglega pistla úr heimi íþróttanna, ég er ekki alveg að sjá það fyrir mér.
  • Kvikmyndir: Þar eð Skjár Símans er mitt hvíta tjald þessa dagana, tel ég mig ekki vera nægilega up to date fyrir kvikmyndarýni.
  • Lífstíll: Hvort sem það er veiklyndi fyrir rándýrri hönnun, kræsin kynhneigð eða ást á hráfæði...upplýsingar sem koma engum við að mínu mati.
  • Ljóð: Hef ekki ort síðan í grunnskóla þegar ég samdi ódauðlegan rímnabálk um fuglinn í fjörunni sem festist í tjörunni.
  • Matur og drykkur: Já, hérna erum við loksins að ná saman ég og mbl.is! Æi, nei annars...gleymdi að ég er víst byrjuð á danska kúrnum aftur og á nú nógu erfitt með að torga grænmeti þó ég fari nú ekki að skrifa um það líka.
  • Menning og listir: Er búin að vera í svokölluðum menningarklúbbi í rúman hálfan áratug og það eina sem ég hef haft upp úr því er aukin þekking á matarmenningu og listinni að drekka. Sama gerðist reyndar í saumaklúbbnum mínum...skrítið.
  • Sjónvarp: Þar er ég nú heldur betur á heimavelli, en ætti maður nokkuð að vera að opinbera sjónvarpsgláp sem sinn helsta löst á Alheimsvefnum?
  • Spil og leikir: Aftur eitthvað sem ég hef óeðlilegan áhuga á miðað við aldur og fyrri störf. En ég held að öll sú spilamennska og leikir sem ég stunda sé löngu dottin úr tísku þar sem hún fer ekki fram í neinum sýndarheimi heldur við forláta borðstofuborð með alvöru vinum.
  • Stjórnmál og samfélag: Boooring...má ég þá heldur biðja um sýndarsamfélagið!
  • Tónlist: Alls ekki minn tebolli, hef ekki hundsvit á hljómsveitum hvorki innlendum né erlendum...punktur.
  • Trúarbrögð: Hmm...kitlandi að prédika soldið og fá harðorð comment frá mismunandi trúfélögum eða jafnvel hótunarbréf frá Biskupsstofu ef heppnin er með manni! Held samt að ég hafi ekki eldmóðinn í það.
  • Tölvur og tækni: Haha...góður þessi!
  • Vefurinn: Bíddu...ég hef nú ekki ótakmarkaðan tíma til þess að vafra um vefinn og leita að efni, viltu vera aðeins nákvæmari.
  • Vinir og fjölskylda: Þar sem þetta blogg verður skrifað undir dulnefni (að svo litlu leyti sem mbl. leyfir) sé ég enga ástæðu til að uppdigta friends and family, látum nægja að segja að ég komi ekki frá broken home né sé ég vinalaus. Svona rétt til að fyrirbyggja þann algenga misskilning að bloggarar séu upp til hópa einmana lúserar.
  • Vísindi og fræði: Úbbosí...þarna kom moggabloggið að galtómum kofanum hjá mér og það í blálokin!
Að vandlega athuguðu máli hef ég því komist að þeirri niðurstöðu að valmöguleikinn Bloggar sé skásti kosturinn í þessari valkvíðaormasúpu! Orðið bloggar segir í rauninni allt og ekkert um það sem koma skal. Auk þess er ekkert því til fyrirstöðu að ég geti ekki fjallað um efni allra hinna flokkanna undir aðalflokknum Bloggar.Takk moggablogg fyrir að velja fyrir mig!

« Fyrri síða

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband