Færsluflokkur: Bloggar

Háskólahorror!

Vindurinn þýtur fyrir utan og hviðurnar skella af og til harkalega í regnvotar rúðurnar. Langdregið baulið í niðurfallsrörinu berst inn til mín í gegnum lokaðan svefnherbergisgluggann. Ég ligg andvaka í myrkrinu og hlusta. Þá finn ég allt í einu hvernig óttinn nær tökum á mér eins og ósýnileg krumla sem grípur þéttingsfast í stórutána á mér og fikrar sig fimlega upp eftir sköflunginum. Ég stirðna upp af skelfingu og get mig hvergi hrært. Krumlan læðist nú með ógnarhraða upp eftir síðunni og lömunin berst út í báða handleggi. Ég ligg stjörf sem freðin ýsa en blóðið ólgar í æðum mér eins og á humri sem skellt er í sjóðandi pott. Krumlan færist nær og nær og allt í einu nær óttinn hálstaki á mér og herðir að svo mér finnst ég vera að kafna... Ég kippist til eins og efsta loðnan í löndunarnetinu og reyni að ná andanum en svo losnar takið skyndilega og krumlan hverfur inn í skuggann. Í gegnum hóstann og dynjandi hjartsláttinn í eyrunum heyrist mér vindurinn hvæsa orðum sem fá hárin til að rísa á höfðinu á mér; Aðeins tveir mánuðir eftir...

Nokkurn veginn svona er líðanin þessa dagana. Tek það fram að þessi kvíðaröskun hefur ekkert með síðustu færslu að gera. Þetta er ekki lýsing á ótta mínum yfir því að pipra vegna þess að ég hef brotið Reglurnar. Nei, þetta er einfaldlega ofurvenjulegur námskvíði sem ásækir mig um nætur. Skiladagur lokaritgerðarinnar nálgast nú með hraðbyri, óumflýjanlegur, eins og geðsjúkur morðingi í hryllingsmynd.

Af gefnu tilefni hef ég því tekið þá óttablöndnu ákvörðun að loka mig inni og forðast umheiminn eins og ég mögulega get. Ég mun takmarka símtöl, sjónvarp og msn og loka mig af inni í litla leynibyrginu mínu. Ég veit vel að morðingjakrumlan mun finna mig á endanum og höggva mig í spað eins og í öllum góðum hrollvekjum en ég get allavega reynt að slá því á frest að hún nái að kæfa mig.

Semsagt, héreftir mun ég skera allt, sem kallast getur félagslegt samneyti, við nögl og skammta mér ákveðinn tíma utan byrgisins. Hef ákveðið að einskorða þær stundir við einn vikudag eða eitt kvöld í viku. Ég er þegar búin að bóka mig eitthvað fram í mars; júróvisjónkvöld á morgun, matarboð í næstu viku og leikhúsferð þar næstu. Þannig að, endilega pantið tímanlega ef þið viljið hitta mig um og eftir páska! Þetta er alls ekkert persónulegt, þið vitið vonandi hvað mér finnst gaman að gera e-ð skemmtó saman, þetta er einfaldlega lífróður hins fyrirfram dauðadæmda fórnarlambs.


MAJOR MEYJARMELTDOWN - Þegar Rauðsokka fer eftir Reglunum

Fyrir stuttu fékk ég bók til baka sem ég hafði lánað góðri vinkonu fyrir allnokkrum misserum síðan. Þetta var bókin Reglurnar, þýðing á amerískri sjálfshjálparbók fyrir konur í makaleit. Bók sem ég fékk allsendis óumbeðna í jólagjöf fyrir u.þ.b. 10 árum, las síðast á tvítugsaldri, hneykslaðist yfir og rakkaði niður í svaðið í kvenréttindafyrirlestri í Kvennó. Nú er ég semsagt komin hátt á þrítugsaldur og ákvað að gaman væri að glugga í hana aftur og athuga hvort álit mitt á henni hefði breyst e-ð. Og hvað gæti verið meira viðeigandi fyrir einhleypu á Valentínusardegi en að leita sér ráðlegginga um hvernig höndla eigi stefnumót, hjá tveimur hamingjusamlega giftum rithöfundum í henni ástríku Amríku?

Hér koma nokkrar reglur ásamt dæmisögum og gullkornum þeirra stallsystra sem ættu vel heima í þætti hjá Dr. Phil, já eða Agli Helga:

Regla 4 - Ekki mæta honum á miðri leið eða skipta reikningnum „Jafnræði er ágætt á vinnustað en ekki á leikvelli ástarinnar. Ástin kemur svo eðlilega þegar karlinn stígur í vænginn við konuna og borgar reikningana."

Regla 5 - Hringdu ekki í hann að fyrra bragði og sjaldan þótt hann biðji þig að hafa samband „Mundu líka að reglurnar hlífa þér við að særast og forða þér frá að vera sagt upp. Við viljum ekki að þú þurfir að þjást að óþörfu. Lífið er nógu erfitt þótt ekki bætist ástarsorg við. Þú ræður ekki hvort þú færð krabbamein eða verður fórnarlamb drukkins ökumanns en þú getur ráðið því hvort þú hringir í hann."

Regla 12 - Slíttu sambandinu ef hann gefur þér ekki rómantíska gjöf á afmælinu þínu eða á Valentínusardeginum „Engin þekkir þessa reglu betur en Susan. Á Valentínusardeginum gaf Brian henni Sergio Tacchini-íþróttagalla en þau höfðu þá verið saman í þrjá mánuði. Þegar við sögðum henni að sambandið væri að renna sitt skeið á enda mótmælti hún og benti á að gallinn væri dýr, auk þess að vera nýjasta tíska í öllum betri íþróttaklúbbum. Við vissum samt sem áður að það hefði verið betra fyrir hana að fá konfektkassa eða blómvönd. Hvers vegna? Vegna þess að þótt gjöfin frá Brian væri dýr var hún ekki rómantísk. ...Raunin varð sú að Brian sleit sambandinu við Susan nokkrum mánuðum seinna."

Regla 14 - Aðeins kossar á fyrsta stefnumótinu „Mundu að aðrar konur hafa spillt körlum með því að sofa hjá þeim strax á fyrsta stefnumóti en þú ert stúlka sem fylgir reglunum og gefur þér því nægan tíma. Gleymdu öllu því sem þú hefur heyrt um frjálsar ástir á sjöunda áratugnum."

Regla 16 - Segðu honum ekki fyrir verkum „Síðast en ekki síst skaltu ekki reyna að breyta lífsháttum hans á nokkurn hátt...Ekki þröngva áhugamálum þínum og skoðunum upp á hann... Reyndu ekki að laga hann. Með því móti bælirðu hann og hann fer að líta á þig sem ráðríkt kvenskass."

Regla 17 - Láttu hann ráða ferðinni „Mundu að láta hann ráða ferðinni. Hann á að verða fyrri til að lýsa yfir ást sinni, rétt eins og það er hann sem velur kvikmyndirnar sem þið sjáið og veitingahúsin og tónleikana sem þið farið á. Það getur verið að hann spyrji þig einhvern tíma álits og í þeim tilfellum máttu segja honum hvað þú kýst."

Og lokahnykkurinn: „Ef þér finnst þú yfir það hafin að beita reglunum skaltu spyrja þig að einu. Ertu gift? Hver er ástæðan ef svarið er neitandi? Gæti verið að þú farir ekki alveg rétt að hlutunum?"

Ókei, álit mitt hefur ekkert breyst. Reglurnar fara ennþá óendanlega í taugarnar á mér og ég get enn hneykslast yfir þessu fornaldarviðhorfi kynsystra minna í henni Amríku. Gott og vel, að því sögðu/rituðu verð ég samt að setja eftirfarandi neðanmálsklausu:

Hin afar sjálfstæða en einhleypa vinkona mín afsakaði seinlætið á skilunum með flutningum en ég hef hana sterklega grunaða um að hafa notað tímann til að leggja Reglurnar á minnið GetLost(Glætan- broskall)!

Hvað mig varðar þá er ég ansi hrædd um að eins fari fyrir mér og henni Pam „...sem vingaðist við Robert í tannlæknaskólanum með því að bjóða honum í mat. Hún átti frumkvæðið. Þótt þau yrðu síðan elskendur og byggju jafnvel saman um tíma virtist hann aldrei raunverulega ástfanginn og hún var aldrei fullkomlega örugg í sambandinu. Auðvitað ekki. Hún átti frumkvæðið. Nýlega sleit hann svo sambandinu út af einhverjum smámunum. Sannleikurinn var sá að hann elskaði hana ekki. Ef Pam hefði fylgt reglunum hefði hún aldrei ávarpað Robert að fyrra bragði eða átt frumkvæði að neinu. Ef hún hefði fylgt reglunum hefði hún ef til vill hitt einhvern annan sem elskaði hana í raun og veru. Hún hefði ekki sóað tímanum. Stúlkur sem fylgja reglunum sóa ekki tíma sínum."

En hvað skyldi valda því að sjálfstæðar nútímakonur á þrítugsaldri taka að glugga í and-femíníska bók eins og Reglurnar og fara að efast um að þær hafi haft rétt fyrir sér á tvítugsaldri? Eina skýringin mín er sú að svona fari þegar þær nálgast næsta tugsaldur og byrja að fyllast örvæntingu. Í heila þeirra og hjarta takast á róttæka hamhleypan (sem vill ekkert frekar en brenna brjóstahaldara í tíma) og rómantíska einhleypan (sem vill ekkert frekar en kúra upp við karlmann). Átökin þeirra í milli eru svo gífurleg að þau valda því að það verður MAJOR MEYJARMELTDOWN!

 

 


Hin ráma rödd skynseminnar

Bílastæðaplan Háskóla Íslands 6. febrúar 2008

Syndarinn veiðir upp líkkistunagla úr pakkanum og kveikir í.

Þá birtist skyndilega dúðaður engill á sextugsaldri sem kallar til hans rámri röddu:

„Fyrirgefðu, má ég aðeins trufla þig eða ertu nokkuð að verða of sein í tíma?"

„Nei, nei, þetta er allt í lagi, get ég eitthvað aðstoðað?" segir syndarinn, blæs frá sér og hugsar með sér að nú verði hann örugglega spurður til vegar.

„Mætti ég nokkuð biðja þig að kíkja aðeins á hálsinn á mér," segir engillinn og togar þykkan trefilinn frá hálsinum svo að í ljós kemur langt og ljótt ör.

„Nú...já, einn af þessum gömlu rugludöllum sem hanga uppi á kaffistofunni í Odda, hugsar syndarinn með sér, jæja, best að gera honum þetta til geðs."

Syndarinn lítur sem snöggvast á örið og spyr svo góðlátlega (eins og alltaf þegar hann talar við veikt fólk): „Og hvernig fékkstu þetta?"

Engillinn svarar ekki, heldur biður kurteislega um að fá að sjá hálsinn á syndaranum.

Syndarinn hikar örlítið en dregur svo niður trefilinn sinn til hálfs, meðvitaður um að yfirleitt séu þessir gömlu karlar meinleysisgrey.

„Þetta er alltof fallegur háls til að fá svona ör," segir engillinn með rámu röddina, „ég fékk mitt þegar ég var skorinn upp á æð í hálsi vegna reykinga."

„Ó, þaa..annig," hikstar syndarinn og roðnar upp í hársrætur þrátt fyrir kuldann úti.

„É...ég er sko alveg að fara að hætta," stamar syndarinn.

„Já, ég vildi að ég hefði hætt nógu snemma," svarar engillinn,

„en afsakaðu annars afskiptasemina."

„Þa..þakka þér fyrir, þetta er gott framtak hjá þér," segir syndarinn og snýr sér við á eftir dúðaða englinum. En hann er horfinn sjónum inn á milli bílanna á planinu, jafn skjótt og hann hafði birst þar.

Syndarinn fær sér hugsi annan smók.

Stuttu síðar endar líkkistunaglinn, hálfkláraður, á kafi í snjónum.

 

Ég tek þessu semsagt sem tákni, ekki frá Guði, heldur sem tákni skynseminnar.

Ég er hætt.


Sú var tíðin að snjór var snilld (heimasætan fyrr og nú)!

Það hefur verið mikil gúrkuuppskera hér á bæ, síðustu vikurnar. Engar fréttir að segja, hvað þá skrifa um. Heimasætan hefur bara verið föst í viðjum vanans sem snýst aðallega um að sinna bæjarverkunum, sofa, borða, sækja stöku tíma og lesa femínískar, drepleiðinlegar heimildir (no pun intended - þetta er bara bláköld staðreynd!) fyrir væntanlegan sauðburð (útskrift) í vor. En þá fæðist sko lambið mitt litla (ritgerðin) eftir langa og stranga meðgöngu því rollan mín er tvílembd (þarf að bera bæði fræðilegan og verklegan hluta). 

Gúrkutíðin var semsagt svo slæm orðin að heimasætan velti jafnvel fyrir sér hvort hún ætti að byrja að blogga um þjóðmálin. En hún komst að þeirri niðurstöðu að það væri algjörlega andstætt öllum reglum og gildum blogghatarans mikla að leggjast niður á hið lága plan stjórnmálaumræðunnar. Heimasætan ákvað því að fúlsa við skrifum um skítahauginn í Ráðhúsinu og Spaugstofuútreiðina, rétt eins og hún fúlsar við súrum hrútspungum og sviðakjömmum. Í staðinn ætlar hún að segja ykkur litla sögu úr æsku sem gerðist á þorranum fyrir einum 18 árum (svona sirkabát).

Einn dimman dag í janúar 1990, vaknaði heimasætan á Vífilsstöðum upp af værum svefni. Hún teygði vel úr sér og skrollaði upp hvítu plastrimlagluggatjöldunum. Hún leit út um gluggann og sá sér til mikillar gleði að skaflarnir af hvítri, þéttri mjöllinni náðu alla leið upp fyrir gluggakistuna og að snjóbreiðurnar teygðu úr sér svo langt sem augað eygði, alla sjö metrana að næsta bæ. Eftirvæntingin var svo mikil að hún mátti varla vera að því að sturta ofan í sig kókópöffsinu, heldur flýtti hún sér að klæða sig í skræpótta kuldagallann, rauðu moonbootsin og neongrænu grifflurnar. Mamma hennar stoppaði hana á leiðinni út úr dyrunum og spurði hvort hún ætlaði virkilega út svona. Svo skellti hún á hana skærbleikri húfu með mynd af Kærleiksbjörnunum, trefli í stíl og klæjandi ullarvettlingum utanyfir grifflurnar. Heimasætan andvarpaði af ánægju þegar hún kom út undir stjörnubjartan himininn og andaði að sér frostköldu vetrarloftinu. Hún öslaði snjóinn sem náði henni upp að skólatösku, full tilhlökkunar. Hún óð, móð og másandi yfir skaflana í átt að strætóstoppistöðinni. Í dag skyldu sko gerðir snjóenglar, byggðir snjókarlar og jafnvel snjóhús eftir skóla, hún gat varla beðið eftir meiri snjó!

Einn dimman dag í janúar 2008, vaknaði heimasætan í hinum enda bæjarins upp af óværum blundi. Hún teygði vel úr sér, rak sig í vegginn og bölvaði í hljóði. Hún kíkti með öðru auganu út á milli mahóní rimlanna og lokaði aftur, snjórinn huldi skrjóðinn hennar upp fyrir topp, hún bölvaði aftur. Nú þyrfti hún að skafa áður en hún legði af stað og hún mátti varla vera að því að sturta ofan í sig Kellogs K-inu, heldur flýtti hún sér að klæða sig í háu leðurstígvélin, ullarkápuna og svörtu Soniu Reikel hanskana. Mamma hennar stoppaði hana á leiðinni út úr dyrunum og spurði hvort hún ætlaði virkilega út svona. Svo dró hún fram svörtu húfuna og trefilinn í stíl við hanskana og neyddi hana til að klæða sig betur (já, sumt breytist aldrei!). Heimasætan andvarpaði af óánægju þegar hún kom út undir stjörnubjartan himininn og andaði að sér frostköldu vetrarloftinu. Hún öslaði snjóinn sem náði henni upp að hnjám, full geðvonsku. Hún óð, móð og másandi yfir skaflana í átt að bílnum. Í dag skyldi sko skafað, saltað og mokað eftir skóla, hún gat varla beðið eftir næstu rigningu!


Ár var alda...en það er komin ný öld og tími á ný nöfn!

Nýtt ár - nýtt hár! Mín er bara orðin brunette með töts af kopar. Ákvað að vara ykkur við svo þið mynduð ekki strunsa fram hjá mér næst þegar við hittumst á förnum vegi eða í skipulögðum hittingi (sem er mun líklegra). Einnig til að gefa ykkur góðfúslega færi á að undirbúa viðeigandi hrós til að hafa á takteinunum þegar þið hittið mig svo þið standið ekki gapandi og orðlaus af undrun, já eða hryllingi ef út í það fer! Ég tek fram að þessi róttæka breyting er ekki statement af neinu tagi heldur gerði ég þetta nú bara svona í tilefni af því að janúardrunginn var farinn að hafa gránandi áhrif á annars ljósu strýin mín.

Annars er mest lítið að frétta, nema að ég komst að því núna nýverið (mér til mikilla vonbrigða) að nýja, fína háskólabyggingin hlaut nafngiftina Gimli. Hvað er þetta eiginlega með okkur Íslendinga og goðsagnasnobbið? Það er eins og allar „merkilegar" byggingar, ýmis samtök, félög og fyrirtæki þurfi að bera slík nöfn. Einungis örfá dæmi um þetta eru Valhöll, Röskva, Heimdallur, Glitnir, Týr, Þór, Frigg og Freyja. Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því að halda í hefðirnar og er hlynnt öllu sem færir okkur fjær áhrifavaldi engilsaxneskunnar. En það sem fer í taugarnar á mér, böggar mig heavy mikið, við þessa aftur-til-upprunans þróun er þetta snobb sem er ríkjandi. Það þykir voða fínt og flott að slá um sig í samfélaginu með þessum goðlegu nöfnum en svo eru ásatrúariðkendur álitnir furðufuglar fyrir að halda í sömu, gömlu hefðirnar. Ég meina, er ekki dáldið mikill hippókratismi fólginn í því? Eða hvað finnst ykkur, kæru Miðgarðsbúar?


Kvart og kvein og Blunt-vein

Nú er mín barasta búin að letibykkjast alltof lengi og löngu kominn tími til að taka nýja árið með trompi ellegar svíkja lit. Ég er algerlega búin að snúa sólarhringnum við undanfarnar vikur og sofa fram yfir miðdegi milli þess sem ég skrepp í vinnu. Reyndar hefur heilinn unnið yfirvinnu á næturnar í staðinn og hindrað sjö-stunda skyldusvefninn. Það eru aðallega stór plön í námi og starfi sem halda vöku fyrir mínu litla heilabúi (sem mér skilst af metsölubókalistanum að sé eina ástæðan fyrir óhamingju kvenna) en líka partýhald hjá nýju nágrönnunum á aðfaranótt Þrettándans. Ó-svo-grandalausu foreldrarnir höfðu víst gefið táningunum sínum leyfi til að kveðja jólasveinana áður en þeir héldu aftur til fjalla. Það var ekki að því að spyrja, bílaplanið breyttist í Bhagdad bombing zone um eittleytið.

Til að hljóma ekki alveg eins og eldgömul nöldurkerling (sem ég er á góðri leið með að verða), verð ég að gefa þeim kredit fyrir að hafa sungið lagið Beautiful trekk í trekk á lágu nótunum og fyrir að hafa yfirgefið húsið á skikkanlegum tíma til að halda djamminu áfram í bænum. Sömu tillitssemi er því miður ekki að finna hjá fjölda eldri kynslóða þegar þær smitast af partýflensunni sem er hvað illskæðust um nýárið. Þeim hættir nefnilega til að hækka í botn með afgömlum, arfaslökum slögurum og sitja sem fastast fram á rauðan morgun. En nóg af rausi og tuði, ég á örugglega eftir að sitja hinum megin við hljóðbæran vegginn eftir nokkur nýár og syngja manna hæst með Bó Halldórs!


Nýársheitin sem ég ætla ekki að efna

Fram til þessa hefur mér ekki auðnast að halda hvers kyns áramótaheitstrengingar út árið á enda. Guð má vita að ég hef reynt, oftar en ég hef tölu á. Oftast hafa heitin verið strengd í öðru hvoru heilahvelinu (var aldrei nógu klár í líffræði til að muna hvaða starfsemi fer fram í hægri og hvaða í vinstra) og millifærð í þartilgerðan minnisbanka. En eitthvað virðist sá heimabanki vera lokaður vegna mistalningar árið um kring hjá mér! Stundum hafa heitin verið skrásett á blöð, servíettur, jafnvel handarbökin en ekkert virðist virka. Blöð og servíettur hafa þann undarlega eiginleika að lenda "óvart" í ruslinu og handarbaksheitin mást af skinni, og þar með úr sinni, við þriðja þvott.

Þið megið kalla þessi misheppnuðu heit mín skort á sjálfsaga, einbeitingarleysi, leti, snert af ADHD eða hvað annað sem ykkur dettur í hug en ég er allavega hætt að reyna að blekkja sjálfa mig með slíkum afsökunum. Mér er bara ekki ætlað að betrumbæta mig á ársbasis, þótt ekki sé vanþörf á. Mér er nær að sættast við sjálfa mig með öllum mínum göllum, agnúum, vanköntum og akkilesarhælum. Því er mér sönn (sjálfs-)ánægja að kynna Ekki - Nýársheitin mín sem hér birtast í fyrsta sinn á rafrænu formi (já, maður var doldið lengi að taka tæknina í gagnið en maður er nú allur að koma til svona ca. tíu árum of seint).

Árið 2008 ætla ég EKKI að:

1) Taka mig á í skipulagningu (Þetta göfuga markmið var kæft í fæðingu fyrir rúmum 20 árum þegar skólaganga mín hófst og verður ekki bætt héðan af. Allra síst á síðustu námsönninni minni, krosslegg fingur fyrir þessu síðasta!)

2) Hætta að reykja (Ef það gerist á þessu ári, þá gerist það ekki í þynnkunni 1. janúar og í allra fyrsta lagi eftir taugastrekkjandi vökunæturnar fyrir skil á lokaverkefninu í maí.)

3) Fara í megrun (Hver er hræddur við Vigtpínu Úlfs? Ekki ég! Ef ég þyngist, þá það. Ef ég léttist, þá verður það afleiðing fyrrnefnds skipulagsleysis og stresshlaðinna, reykmettaðra vökunátta.)

4) Hætta að drekka kaffi (Sjá heit nr. 2)

5) Hætta að drekka áfengi (Hvernig ætti ég annars að geta drekkt sorgum mínum þegar öll mín plön um útskrift í maí fara í vaskinn?)

6) Hreyfa mig meira og stunda heilsusamlegt líferni (Búin að vera þar, búin að gera það! Veit það gengur vel hjá mér í tvær vikur þar til ég fell aftur í sukkið af tvöföldum krafti. Svo til hvers að eyða tveimur vikum til einskis?)

7) Hætta að djamma (Það er nú algjör óþarfi að gangast undir munklífi þó það renni upp nýtt ár!)

8) Hætta að eyða peningum í óþarfa (Hvað annað ætti ég svosem að eyða þeim í? Nógu lítið er það nú sem ég þéna svo það tekur því ekki að leggja þá inn!)

9) Hætta að kvarta yfir lágu laununum mínum (Ef ég held því tuði áfram, eru meiri líkur á að ég reyni að bæta úr því með því að skipta um starf.)

10) Hætta að blogga (Fyrst ég er loks orðinn þræll tækninnar, get ég eins nýtt mér hana. Einhvers staðar verð ég líka að fá útrás fyrir gleði og sorgir ársins 2008!)

Dulúð óskar dyggum lesendum sínum (en soldið lötum álitsgjöfum) gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna! Ekki ómaka ykkur við heitstrengingar og loforð um betrumbætur þessi áramótin, þið eruð fullkomlega frábær eins og þið eruð!


10 Varúðarráðstafanir til að tryggja gleðileg jól

Varúð Jóns vill koma hér á framfæri nokkrum ráðleggingum fyrir hátíðarnar:

Aðgát skal höfð...

...þegar jólakortin eru skrifuð (í hröðu nútímasamfélagi er allt breytingum háð, líka sambönd. Margir skipta um maka örar en þú veist af. Ekki gera þau mistök að nafngreina fyrrverandi í korti hjá fólki sem þú hittir sjaldan.)

...við jólagjafainnkaupin (ekki halda að nýtt kortatímabil sé jólagjöf til þín frá Valitor fyrir viðskiptin á árinu. Farðu varlega í að strauja kortið í desember.)

...þegar jólatréð er skreytt (ekki gera þau mistök að setja seríuna upp frá toppi til fótar án þess að stinga henni í samband fyrst og komast svo að því að hún virkar ekki.)

...þegar farið er í friðargöngu á Þorláksmessu (farðu í gamla larfa sem þola vax og fuðra ekki auðveldlega upp. Haltu þig frá ofvirkum börnum og óvirkum gamalmennum.)

...þegar ættinni er raðað í sæti við matarborðið (enginn vill heyra smjattið í smákrökkum og glamrið í gervitönnunum hans afa yfir jólasteikinni. Setjið gamlingjana og krakkana hlið við hlið.)

...í nærveru nálar (ekki halda að þú komist upp með að laga saumsprettuna á sparifötunum fimm mín. fyrir kl. sex á Aðfangadagskvöld án þess að stinga þig í stressinu.)

...þegar jólamáltíðin er matreidd (enga tilraunastarfsemi á Aðfangadag! Jólin eru hátíð hefða og engin kengúrusteik getur komið í stað hamborgarahryggs eða lynghæna í stað rjúpu.)

...þegar blanda á malti og appelsíni (sættu þig við það, þú getur aldrei blandað það í réttum hlutföllum svo að allir séu sáttir. Betra að hafa drykkina í aðskildum könnum á jólaborðinu.)

...þegar pakkarnir eru teknir upp (þú ert ekki barn lengur! Lesa skal kortin fyrst, opna pakkana án þess að rífa gat á umbúðirnar, brjóta þær saman og geyma, skrá hjá sér hver gaf hvað og ávallt halda brosinu, sama hvað kemur upp úr þeim.)

...þegar dansa skal í kringum jólatréð (ekki taka upp þennan skemmtilega en úrelta sið, nema þú búir í 120 fm, mínimalískt innréttaðri íbúð.)

Dulúð óskar ykkur öllum gleðilegra jóla og farið endilega varlega yfir hátíðarnar!


C'est la Vie - La Vie de une Femme non-petite!

Mademoisellan moi er búin að finna sér nýja uppáhaldsboutique til að forðast! Búð þessi selur hámóðins klæðnað ættaðan frá landi baguettunnar, Signu og Sigurbogans. Hún heitir Kaki og er best geymda leyndarmálið á Champs - Élysées þeirra Gaflara, Strandgötunni. Þar inni kennir ýmissa franskra grasa og verðlagið eftir því...hátt eins og grasið í uppsveitum Bordeux. Í Kaki eru nefnilega seldar vörur á spottprís í merkingunni; varan spottar út grandalausa og ginnkeypta kúnna, lokkar þá til sín, tæmir veskin þeirra og hlær svo að þeim alla leið inn í fataskáp.

En í þessari hættulegu búð (við erum sko að tala um La femme fatale í smásölubransanum) má finna mergjaðar prjónapeysur, töskur, skó og alls kyns glamúr accessoires fyrir maddömur á öllum aldri. Gallinn er bara sá að Fransmenn virðast halda að konur komi bara í 3 gerðum; petite, meira petite og ofur-petite. Afgreiðsludaman, sem var öll af vilja gerð að pranga upp á mig peysum, kjólum og glingri á þessu hátískuverðlagi, leitaði dyrum og dyngjum að stærð nr. 5 sem hún var viss um að leyndist þarna inn á milli fyrrnefndra stærða 1-3.

Nú jæja, það skyldu þó aldrei leynast tröllskessur í Lyon, hugsaði ég með mér þegar henni tókst loks að finna stærðina sem í augum franskra kvenna sem fitna ekki og borða bara 1 dökkan súkkulaðimola á dag, hefur án efa litið út énorme. En í augum íslenskra valkyrja af víkingakyni sem kjósa heldur allan rjómasúkkulaðipakkann, leit út eins og e-ð sem dúkkulísur myndu klæðast. Merde! Af hverju þurfti ég að fá franska nefvöxtinn en ekki líkamsvöxtinn? Það þarf vart að taka fram að þrautseigja afgreiðsludömunnar bar tilætlaðan árangur og mademoisellan moi gekk út með peysu, kjól, bol, belti og tóma buddu. Oui, oui c'est la vie de une femme!

Úlfúð Jóns

skrifar frá ParÍS norðursins


Desemberdoði

Síðustu dagana hefur blogghatarinn mikli í mér átt í gífurlegri innri baráttu. Á ég að blogga eða á ég ekki að blogga, það er stóra spurningin. En þar sem yfirskriftin á þessu bloggi er víst í blíðu og stríðu, þýðir lítið að gefast upp strax. Niðurstaðan varð því sú að Dulúð ætlar að taka sér pásu það sem eftir lifir desembermánuði til að sinna krefjandi verkefnum eins og ritgerðarskrifum, jólastússi og almennu djammi og djúsi sem tilheyrir jólamánuðinum. En systir hennar, Samúð (lengi búsett í Hróarskeldu ef e-r skyldi undrast dönskusletturnar), ætlar að fá að hripa hér nokkur orð:

Ég brá mér í búðarráp í byen í dag og verð bara að segja að ég finn sárt til með afgreiðslufólki sem er rétt að byrja að taka á móti taugastrekktri jólaösinni. Eftir að hafa skotist inn í búð í útjaðri miðborgarinnar þar sem allar vonir um innrömmun á jólagjöf í tæka tíð fyrir upptætitíma á kveldi Aðfanga voru kveðnar í kút, gekk mín beint í flasið á mørkblåklæddum hrokagikki með plasthúðað hefti.

Manden neitaði að viðurkenna að skilti nokkurt sem merkt var með stóru Péi, hefði verið í felum bak við tré og hélt bara áfram að fylla út sektina. Krabbinn sem tekur alltaf til eftir mig (sjá síðustu bloggfærslu), ønskaði manninum glædelig jul og fýrinn vogaði sér að svara í sömu mynt. Ég verð nú bara að segja að hjarta mitt kremst með öllu því ólánsfólki sem ætlar að beina viðskiptum sínum frá stóru verslanagámunum tveimur og reyna að gleðja litlu kaupmennina á Laugarveginum en fær bara stöðumælasektir í staðinn með jólapóstinum.

Þvínæst lá leið mín framhjá austurevrópskum vegavinnumönnum (pólskum, mjög líklega, af stærð og þykkt hormottanna að dæma), moldugum upp fyrir motturnar, við skurðmokstur í rigningarsudda og þónokkrum vindstigum. Þar sem ég sat þarna inni í vel kyntum kagganum mínum (AKA "grænu hættunni" eins og góð bloggvinkona kýs að kalla hann) tænkte ég með mér; þessir menn eiga alla mína samúð.

Að lokum lagði ég leið mína inn á Hlöðu nokkra kennda við bækur og upp á hlöðuloftið, nánar tiltekið í ljósritunarkompuna. Þegar sjálfrennidyrnar á þessu mikla menntamekka opnuðust fyrir mér, tók á móti mér þrúgandi lyktin af heilasveittum stúdentum sem sátu þarna í lange rækker með opnar bækur og tútnaða tappa í ørerne. Allir þessir sveittu og langþreyttu námsmenn eiga mína dýpstu og innilegustu samúð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband