Færsluflokkur: Bloggar

Þegar góða samfélagsköku gjöra skal

Ég átti erindi í súpermarkað um daginn sem er nú ekki í frásögur færandi. Nema hvað ég staldraði aðeins við í bökunarvörudeildinni þar sem bakarinn á heimilinu (onei, ekki láta ykkur detta í hug að það sé ég!), fjárfesti í okur-poka af kartöflumjöli.

Hmm... kartöflumjöl, það hlýtur nú bara að vera eitt minnst aðlaðandi bökunarvöruheitið sem um getur. Kókosmjöl, súkkulaðispænir, vanilludropar, sýróp, kanill, döðlur, möndlur, rúsínur, suðusúkkulaði og kakó hafa miklu exótískari hljóm og setja svip sinn og keim á innkaupalistann, svo ekki sé nú minnst á deigið sjálft. Sama er hins vegar ekki hægt að segja um öll þau þurrefni sem heita bæði óspennandi og þurrum nöfnum eins og hveiti, spelt, matarsódi, lyftiduft og ger.

En jæja, þessi búðarferð fékk mig semsagt til að hugsa um það að kannski er þjóðfélagið okkar ekki svo ósvipað tertubotni þar sem meginþorri þjóðarinnar eða verkalýðurinn eru þurrefnin sem gera lítið gagn ein og sér í skál. En sé þeim blandað í réttum hlutföllum og bleytt upp í þeim með mjólk, smjöri eða eggjum og allt saman bakað við hæfilegt hitastig, verður blandan að fullkomnum botni.

Svo eru það hinar, "exótísku" bökunarvörurnar eða einstaklingarnir sem skera sig úr, sem setja lit og bragð á samfélagskökuna svo hún sker sig úr hópi margra girnilegra á heimshlaðborðinu. Ég held reyndar að mín kynslóð hljóti að vera smjörið, límið sem heldur botninum saman og ég get alveg sætt mig við það að vera bragð- og litlaus smjörklípa. En rosalega væri nú samt gaman að vera kardimomma. Einn dropi af mér myndi þá nægja til þess að setja mark mitt á kökuna svo eftir yrði tekið.

En ég býst þó við að allt sé betra en að vera gramm af kartöflumjöli því afar fátítt er að heyra svona setningu í 1. maí kaffi- og kökuboðum: "Svakalega er þetta góð terta! Settirðu kannski kartöflumjöl í hana?" En einstöku sinnum gerist það að þessi heyrist: "Mmm...rosalega er botninn mjúkur, er ekta smjör í henni?"

Gleðilegan bökunar- og baráttudag!

 


Blessuð burðarstoðin hún móðir mín

Ég geri mér grein fyrir að síðasta færsla var fullþunglyndisleg svona í sumarbyrjun þegar maður ætti frekar að vera eitt sólskinsbros með eintóma sól og gleði í huga og hjarta. En hún var skrifuð í tilefni af skiladegi lokaritgerða í HÍ og þar sem ég var ekki meðal skilenda þann dag þurfti ég nauðsynlega að leggjast í smá sjálfsskoðun/-aumkun. Ég er samt ekki alveg af baki dottin því ég stefni á að halda áfram að skrifa, klára og skila ritgerðarlufsunni í maí þó svo að útskriftin frestist fram á haust. Annars langaði mig nú bara að deila með ykkur smá texta sem stuðningsaðili minn nr. 1, 2 og 3 gaf mér á Sumardaginn fyrsta og fékk mig til að vökna um augun (já, ég er manneskja sem get grenjað yfir Leiðarljósi og stundum jafnvel fellt tár yfir Kastljósi, þannig að ég fer létt með að gegnumvæta eitt tækifæriskort). Vonandi getur þetta orðið fleirum hvatning þegar e-ð mistekst eða þegar framtíðin virðist dimm og án allrar sólarglætu.

Hvatning

Þegar eitthvað fer úrskeiðis

eins og stundum gerist,

þegar vegurinn sem þú ferð eftir

virðist allur upp í móti.

Þegar afraksturinn er lítill

en væntingarnar miklar,

þegar þig langar til að brosa,

en neyðist til að andvarpa.

Þegar áhyggjurnar verða þrúgandi.

Þá hvíldu þig

en gefstu ekki upp!

 

Erfiðleikarnir eru bara

hin hliðin á velgengninni.

Markið getur verið nærri

þó það virðist langt í burtu.

Haltu áfram að berjast

þó þú verðir fyrir

alvarlegum áföllum.

Það er einmitt þegar útlitið

er sem dekkst

sem alls ekki má gefast upp.

Já, það þarf ekki að því að spyrja að þýska stálið hún móðir mín stendur með mér í blíðu og stríðu jafnvel þótt ég geri sífellt sömu mistökin aftur og aftur. Hún er burðarbitinn sem bognar aldrei, hefur óbilandi trú á mér og stappar alltaf í mig stálinu þegar á þarf að halda. Mikið vildi ég óska þess að ég hefði erft meira af styrkleika hennar og þjóðareinkennum en minna af þetta-reddast-bara-einhvern-veginn þjóðarveikleika föður míns. Snökt, snökt!


Seinfær er ekki sama og vanfær, eða hvað?

Sumir þroskast seint en þroskast þó...

...og þó, ekki hún égCrying

Allt mitt líf hef ég verið eftir á og seinni til en flestir. Þá á ég ekki við í andlegum eða líkamlegum þroska, heldur viljanum til að þroskast. Fyrsti dúkkulausi dagurinn minn, fyrsti sopinn, fyrsti smókurinn, fyrsti kossinn, fyrsta skiptið sem þið-vitið-hvað, gerðist allt saman mjög seint (en þó alls ekki allt í einu!). Allt frá því að ég man fyrst eftir mér hef ég þrjóskast við að vaxa úr grasi á sama kjörhraða og jafnaldrar mínir. Ég hef alltaf afsakað mig með því að ég sé bara að varðveita barnið í sjálfri mér en nú er svo komið að ég er farin að efast alvarlega um getu mína til að fullorðnast nokkurn tímann.

Þetta hófst allt saman um 1 árs aldurinn þegar ég hélt upp á 1. afmælisdaginn minn í Þýskalandi ásamt maíbornum frænda mínum sem hljóp bleyjulaus um í garðinum hennar ömmu, öllum viðstöddum ættingjum til ómældrar ánægju. Á meðan sat ég kyrr á mínum bleyjubossa í barnastólnum og slefaði yfir afmæliskökuna, móður minni til ómældrar armæðu. Skemmst er frá að segja, að ég fór auðvitað að ganga upprétt fljótlega eftir lendinguna á Íslandi í lok sumarsins.

Og þetta var bara byrjunin, ég átti eftir að valda móður minni vandræðum vegna þroskatregðu og seinlætis ansi oft eftir þetta. Þegar sömu ættingjarnir hringja í dag og spyrja frétta af mér; hvort ég sé nú loks að útskrifast, sé búin að fá almennilega vinnu, sé komin í samband eða flutt að heiman, verður fátt um jákvæð svör. Að sjálfsögðu fær hún að vita í óspurðum fréttum að hinn maíborni frændi minn sé nú löngu fluttur að heiman, nýtrúlofaður og búinn að fá merkilega stöðu sem læknir á virtu sjúkrahúsi í þýskri stórborg.

Og það eru ekki bara fjarlægir ofur-frændur sem bruna fram úr mér, heldur líka jafnaldrar mínir og vinir hér heima og heiman sem flestir eru komnir í eigið húsnæði, í sín framtíðarstörf með sína framtíðarmaka og sumir með börn. Á meðan ég get ekki einu sinni klárað lokaritgerðina mína á réttum tíma (sem by the way er ekki á áætlun, sé miðað við samanlagðan líf- og skólaaldur minn), verð líklega atvinnulaus aumingi í sumar og sé fram á að eignast mitt fyrsta barn um fertugt með þessu áframhaldi (og hér er ég að gefa mér þá forsendu að ég pipri ekki sem er nú mun líklegra).

Svo nú spyr ég bara, er von fyrir mig eða verð ég ofvaxið barn að eilífu? Getur einhver ykkar fullorðnu og fullþroskuðu jafnaldra sem ég lít svo mjög upp til, gefið mér svosem einn sprautuskammt af drifkrafti, vænan slurk af þroskalýsi og fulla skeið af Hætt'essum-barnaskap-mixtúru?


Í partýi með fræga fólkinu!

Hvað eiga Bob Dylan, Kleópatra, Janis Joplin, Sweeney Todd, John Wayne, Solla Stirða og Tina Turner sameiginlegt?

?

?

?

Ekki hugmynd?

Nei, það er heldur ekki von því þau eiga ósköp fátt sameiginlegt nema hvað þau voru öll stödd á árshátíð blaða- og fréttamennskunema í gærkvöldi.

Hollywood-þema-teitið, sem heppnaðist með eindæmum vel, hófst með kostulegum móttökum þar sem "alvöru" papparassar lágu í leynum við húsið og sátu fyrir stjörnunum. Þær voru svo eltar inn í húsið og myndaðar í gríð og erg þrátt fyrir mótbárur og bölbænir (enginn lifði sig þó svo fullkomlega inn í hlutverkið að gefa ljósmyndara einn á ‘ann, að því ég best veit). Þegar inn var komið tók við rauði dregillinn og óundirbúið viðtal í beinni á einu upptökuvélina sem deildin á (já, við erum sko fjársvelt og alls óháð auðmannastyrkjum). Þegar stjörnurnar voru búnar að ropa út úr sér misgáfulegum svörum á rauða dreglinum var þeim boðið til sætis í þemaskreyttri stofu. Kvöldinu var svo eytt í slúður, spurningakeppni undir styrkri liðstjórn kennara og skemmtiatriði yfir þriggja rétta gourmetmáltíð og veigum (allt í boði skólans því við erum ekki  svo svelt að við getum ekki haldið almennilegt partý).

Búningasigurvegari kvöldsins var Johnny Depp í hlutverki Sweeney Todd en pilturinn sá hafði haft fyrir því að lita hár sitt og hörund og gekk um með ekta rakarahníf í beltinu. Ég hef þó fyrir því staðfestar heimildir að ég og Solla Stirða hefðum einnig komið sterklega til greina og hefðum verið í topp þremur. En við stöllurnar vorum með samsæriskenningarnar á hreinu og grunuðum sigurvegarann sterklega um að hafa beitt hnífnum sínum til að hafa áhrif á dómnefndina. Ég ætla ekki að segja ykkur hvaða stórstjarna tók sér bólfestu í mér þetta kvöld en ég skal gefa ykkur vísbendingu; við erum nánast nöfnur! Kvöldið heppnaðist semsagt ótrúlega vel og það kæmi mér ekki á óvart að hugmyndinni yrði stolið (a la gula pressan) og notuð í partýi hjá yours truly þegar hún hittir stóra þrist og stóra núllið! Svo þið getið bara byrjað að undirbúa ykkur fyrir hlutverkin strax. Sérstaklega ef þið ætlið að láta hárið síkka eða koma ykkur í ákveðið form því það tekur sinn tíma. Ég fékk t.d. ágætis ábendingu í gær um að ég hefði þurft að fita mig fyrir hlutverkið sem ég var í, svo það er eins gott fyrir ykkur að taka þetta alvarlega ef þið ætlið að vinna búningasigur í þrítugsafmælinu mínuWizard


Bíbb, bíbb, gráða beint framundan!

Nú er mín búin að vera í hlutlausum með ritgerðardrusluna alltof lengi. Reyndar var ég komin í bakkgír með að klára hana í vor og mótorinn var eiginlega bara alveg búinn að drepa á sér. En svo fór ég í tíma í Málstofu um lokaverkefni í gær, kúrsinn sem ég kýs að kalla Verkstæði brostinna vona, og þar var þá mættur leiðbeinandinn minn tilbúinn með startkaplana sína. Þessi reyndi prófessor sem er bæði mikið gáfu- og ljúfmenni, gaf mér semsagt egóstuðið sem ég þurfti. Hann tjáði mér það að ég væri sú eina úr hópnum sem ekki hefði enn frestað ritgerðinni fram á haust og að hann treysti á mig að halda uppi heiðri deildarinnar í júní (orðaði þetta kannski ekki alveg svona hátíðlega en ég túlkaði það svona). Svo þuldi hann upp fyrir mig þetta kvæði (ok, ok hann talaði ekki í bundnu máli en inntakið í því sem hann sagði er nokkurn veginn það sama):

 

Tíu litlir mastersnemar ætluðu að skrifa ritgerð...

Einn þeirra fékk fína vinnu,

og þá voru eftir níu.

Ein þeirra varð ástfangin,

og þá voru eftir átta.

Ein þeirra varð ólétt,

og þá voru eftir sjö.

Eina vantaði einingar,

og þá voru eftir sex.

Ein stóð í flutningum,

og þá voru eftir fimm.

Einn fór til útlanda,

og þá voru eftir fjórir.

Ein missti áhugann,

og þá voru eftir þrír.

Ein lenti í ástarsorg,

og þá voru eftir tveir.

Ein þurfti að sinna vinnu,

og þá var eftir ein...

...Ein sem hafði enga afsökun. Svo nú segi ég bara brúmm, brúmm, fulla ferð áfram og ég læt hvorki bensínverð né trukkamótmæli stoppa mig!

P.s. Af augljósum ástæðum hefur þessi bilaði bílstjóri ekki tíma til að blogga á næstunni svo það er óþarfi að kíkja hingað aftur fyrr en í lok apríl. Þá kem ég með fréttir um hvort þetta BÍB (bensínið-í-botn) átak mitt hafi virkað eða ekki.


Loksins, loksins, stóra tækifærið mitt!

Ég hef ákveðið að gefa skít í kreppuna á Íslandi og flytjast til Bretlands þar sem stærsta tækifæri lífs míns bíður mín. Ég vissi reyndar alltaf að ég væri sérstök og að mín biði eitthvað meira og merkilegra en strögglið hérna heima en núna hef ég fengið staðfestingu á því. Í ljós hefur komið að fjarskyldur ættingi minn í Ghana, Mr. Earl Jonsdottir, hefur geispað golunni (blessuð sé minning hans) og sérlegur fjármálaráðgjafi hans, Mr. Brant Bishop var svo elskulegur að reyna að hafa upp á mér, mögulega eina eftirlifandi ættingja hans. Aumingja maðurinn hafði mikið fyrir þessu og segist m.a. hafa reynt að ná sambandi við mig með ýmsum leiðum:

"Please pardon me as I am aware that this is not a conventional way of relaying such an important massage such as this. I did try without success to locate either your contact address or fax number and as such, I resorted in contacting you via email."

En grey maðurinn gat ómögulega vitað að ég á ekki fax tæki og hvar ég bý en þetta leiðréttist auðvitað allt saman um leið og ég svara honum og gef honum allar upplýsingar um mig. Þessi kurteisi maður ætlar nefnilega að hjálpa mér að nálgast auðæfi hins látna ættingja míns sem nema um 5.3 millj. dollara (ekki það að upphæðin skipti mig neinu máli, ég er bara glöð að geta uppfyllt óskir hins heitna) og það eina sem ég þarf að gera er að svara nokkrum spurningum:

1. Are you aware of your relation born on the 2nd of February 1951, who bears your surname whose last known contact address was Accra Ghana, in Western Africa? Reyndar ekki en ég vissi alltaf innst inni að ég hefði einhverjar afrískar rætur í mér því mig langar alltaf til að dansa og hreyfa mig þegar ég heyri afríska tónlist. Mig grunaði líka alltaf að eftirnafnið Jónsdóttir hefði dýpri merkingu en bara dóttir Jóns, ég meina það hlýtur að þýða e-ð mjög merkilegt í Vestur-Afríku. Verst hvað maðurinn dó ungur, ég vona bara að það sé ekki e-ð ættgengt.

2. Are you aware of any investment of considerable value made by such a person at the Investment Banking Division of {STANDARD CHARTERED BANK GROUP}? Nei, en Guði sé lof að ættingi minn hafði betra viðskiptavit en ég. Ég ætla að reyna að halda hans góða fordæmi áfram og fjárfesta vel í framtíðinni með aðstoð Mr. Bishop.

3. Can you confirm your willingness to accept this inheritance if you are legally and legitimately appointed? Oh, yes indeed! Vona bara að það komi ekki fleiri fjarskyldir ættingjar í ljós sem gæti nú verið raunin þar sem bréfið var sent á Háskólafjölpóstinn. En það eru nú bara smávægileg mistök hjá herra Bishop sem gat auðvitað ekki vitað að Jónsdóttir er mjög algengt eftirnafn á Íslandi. En ég verð að sjálfsögðu sú fyrsta til að hafa samband og fullvissa hann um að ég sé eini, rétti erfinginn.

4. Would you agree to donate part of this inheritance to charity if you are officially approved to stand as the inheritor? Að sjálfsögðu, hver vill ekki gefa til góðgerðamála. Ég tala nú ekki um manneskju eins og mig sem á ættir að rekja til Afríku þar sem neyðin er stærst. Ég mun jafnvel borga herra Bishop aukaumboðslaun fyrir að sjá um þetta fyrir mig og fyrir alla hans vinnu í mína þágu.

Jæja, best að fara að senda svarbréfið, bóka flugmiðann, selja allar eigur mínar og senda Mr. Bishop andvirðið svo hann geti undirbúið komu mína. Sjáumst síðar þegar ég er orðin milljarðamæringur og get látið senda eftir ykkur í einkaþotunni minni sem ég ætla að skíra Bishop Earl í höfuðið á velgjörðamönnum mínum!

 

 

 

 


Varúð! Allt um sápur - bara fyrir áhugasama

Sælt veri fólkið. Vildi bara þakka ykkur innilega fyrir stuðninginn undanfarið og alla ykkar hjálp í hinum ýmsustu formum. Má þar nefna aðstoð við gerð og þáttöku í netkönnun, fyrir að gauka að mér góðum hugmyndum, fyrir aðstoð við að næla í viðtöl og fyrir að mæta í viðtöl hjá mér. Síðast en ekki síst fyrir upphringingar til að tékka á andlegu ástandi mínu, fyrir allar góðu bloggkveðjurnar og hughreystingarhugboðin. Smile

Engar áhyggjur, þetta er ekki kveðjubréf þó það kunni að hljóma svo (ég er ekki svo djúpt sokkin í sjálfsvorkunn að ég ætli að kveðja þennan heim alveg...þ.e. bloggheiminn) en ég er bara orðin e-ð svo meyr og væmin eftir alla mína rannsóknarvinnu á sápuóperum.InLove

En ykkur verður semsagt launuð öll greiða- og hugulsemin þó síðar verði og er ykkur hérmeð boðið í útskriftarveislu í júní...já, eða október (eins og allt bendir til nú þegar aðeins rúmlega mánuður er til stefnu).Frown

Þar sem ég er orðin svo samdauna þessu verkefni mínu (sem er nú ekki slæm angan þar sem þetta eru jú sápur), hef ég ákveðið að deila með ykkur skemmtilegum fróðleik sem ég hef viðað að mér um þetta stórmerkilega sjónvarpsefni (og ekki halda að ég sé að spauga með þetta síðasta því mér er fúlasta alvara)!Wink

Vissir þú...

...að sápuóperur byrjuðu í amerísku útvarpi um 1930

...að þær draga nafn sitt af hreinlætisvörum sem auglýstar voru í útvarpsþáttunum

...að Irna Phillips, sem síðar varð aðalhandritshöfundur Guiding Light ofl. sápuópera, skrifaði fyrstu útvarpsápuna Painted Dreams og lék tvö af þremur aðalhlutverkunum í henni

...að fyrsta daglega sjónvarpssápan, The First Hundred Years, hóf göngu sína 1950 og gekk aðeins í tvö ár

...að fyrsta breska útvarpssápan, The Archers, var upphaflega ætluð sem kennsluþáttur í bættum landbúnaðarstörfum fyrir bændur

...að á upphafsárum sínum var langlífasta sápuópera heims, Guiding Light, flutt bæði í útvarpi og sjónvarpi

...að nokkrum sinnum stóð til að hætta útsendingum á GL en aðdáendur komu í veg fyrir það með mótmælum

...að fyrstu sápuóperuþættirnir voru 15 mínútna langir

...að tónlistin í þeim hefur þróast frá því að vera orgelspil yfir í hljóðgervilstónlist og svo nútímapopptónlist.

...að Days of Our Lives var fyrsta sápan til að fjalla um umdeild og viðkvæm málefni eins og sifjaspell, getuleysi og morð upp úr 1965

...að gotneska sápan Dark Shadows sem sýnd var á árunum 1966-'71 fjallaði um 200 ára gamla vampíru, norn og ýmsa yfirnáttúrulega karaktera.

...að fyrsti svarti karakterinn (í aðalhlutverki) birtist í One Life to Live 1969 og að fyrsta sápan sem hafði karakter sem tók þátt í Víetnamstríðinu var All My Children upp úr 1970

...að sápuóperutímarit voru sett á fót í kringum 1980 til að koma til móts við aukningu kvenna á vinnumarkaði sem þýddi að þær höfðu ekki lengur tíma til að horfa daglega

... að helstu orsakir fyrir minnkandi áhorfi á sápur á 9. áratugnum voru útivinnandi konur, uppgangur kapalsjónvarpsins og tilkoma vídeótækja

...að prime-time sápan Dallas var sýnd í 57 löndum og hafði um 300 milljón áhorfendur þegar best lét

...að jólaþátturinn af EastEnders fékk mesta áhorfið í sögu sápuópera árið 1986 með rúmlega 30 milljónir áhorfenda (jarðarför Díönu prinsessu sló metið með 32, 1 milljón áhorfendur)

...að Mið- og S- amerískar sjónvarpsstöðvar eru fyrstu og stærstu útflytjendur sápuópera (telenovelas)

...að telenovelas hafa allar endi og eru aðeins framleiddar í ákveðinn tíma, ólíkt öðrum sápum

...að Hugo Chávez, forseti Venesúela lét loka einni stærstu einkasjónvarpsstöð landsins RCTV í maí á síðasta ári og að hann kallaði sápurnar sem þar voru sýndar; "eiturslöngur" og "viðvarandi árás á siðgæði í landinu"

...að þættirnir um Ugly Betty eru amerísk endurgerð á kólumbísku sápunni Yo soy Betty, la fea

...að Ugly Betty hefur verið endurgerð í fjölmörgum löndum og að aðalpersónan hefur heitið ýmsum nöfnum m.a. Lotta (Hollandi), Maria (Grikklandi), Bea (Spáni) og Nina (Króatíu)!

...að Afganir eru æstir í indverska sápuóperu sem fjallar um unga brúði af fátækum ættum sem ofsótt er af illgjarnri tengdamóður sinni

...að flugfreyjur í Taílandi lögðu nýlega fram kvartanir vegna klámfenginnar sápuóperu sem gerist hjá flugfélagi og þær töldu gefa ranga mynd af starfi sínu

...að ferðamannastraumur í S-Kóreu jókst gríðarlega fyrir nokkrum árum þegar Japanskir sápuóperuaðdáendur flykktust þangað til að heimsækja heimaslóðir vinsællar sápu sem kallaðist Vetur-sónatan og sýnd var í Japan

...að frægir leikarar og söngvarar á borð við; George Clooney, Gael Garcia Bernal, Salma Hayek, Kylie Minogue, Natalie Imbruglia, Ricky Martin, Shakira og ótal fleiri hafa hafið feril sinn í sápuóperum

...að leikkonan Helen Wagner sem hefur leikið hlutverk ættmóðurinnar í As the World Turns síðan 1956, á Guinessmetið fyrir lengstan, samfelldan leik í sama hlutverkinu

Já, svona gæti ég haldið áfram og áfram endalaust, rétt eins og eldgömul sápa...en ég ætla ekki að þreyta ykkur meira því þó mér finnist þetta áhugavert, þá geri ég mér grein fyrir því að sápuóperur eru ekki allra tebolli (eða ætti ég kannski frekar að segja allra sápustykki)Wink

 


FRÉTTIR ÚR GRAFHÝSI RITGERÐARINNAR

Niðurkvalningin er hafin: 48 dagar í skil!

Þar sem ég er loks byrjuð í þessari sjálfskipuðu útlegð minni sem ég get ekki kennt neinum dómara um (hérna áttu að vera harðorð ummæli um umdeildan þáttastjórnanda en ég treysti mér ekki í það vegna blogg-dómsmála undanfarin misseri), fannst mér ég verða að gefa frá mér lífsmark. Ég hef ekki farið á mannamót í heila fjóra daga og hef miklar áhyggjur af því hvað hátterni mitt er strax orðið sorglegt svo stuttu eftir að félagslega-samneytis-bindindið mitt hófst!

Í fyrsta lagi hefur nammigrísinn mikli vaknað upp af löngum dvala (mér liggur við að segja úr dái) og hrín nú af ánægju í hvert sinn sem gyltumamma kemur heim úr verslunarferð með sætindi í gulu og bleiku grísapokunum. Ekki gott.

Í öðru lagi er ég komin með heiftarlegan vott af LazyBoyLapTop-Syndrome sem lýsir sér þannig að hryggurinn og lærin eru orðin ansi aum af langri setu í hægindastól með fartölvu í fanginu. Mjög vont.

Í þriðja lagi hef ég þróað með mér slæmt einkenni af pyjamangitis sem felst í því að sjúklingurinn fer helst ekki úr náttfötunum og gerir lítinn greinarmun á degi og nóttu. Afar slæmt.

Mér hefur vissulega dottið í hug að skipta úr Kúlusúkki yfir í Konfekteplin (sem svínum ku þykja hnossgæti), að standa upp og fara í göngutúra milli skriftartarna og biðja múttu að fela náttfötin svo ég neyðist til þess að klæða mig á morgnana. Ég er bara ansi hrædd um að það gerist ekki og eftir 48 daga verði ég orðin bólugrafin, félagsfælin Svínka með hryggskekkju í alltof þröngum náttfötum. Hræðilega átakanlegt!


VIVA LA OPERA RUSTICA ! (amatörgagnrýni)

Mín skellti sér í óperuna í þriðja skiptið á sinni ævi. Fyrsta reynsla mín af þessari tegund hámenningar var hálftímalöng barnaópera um einhverja rytjulega gervigullgæs hjá ónefndum tónlistarskóla, þvínæst var það afsláttarferð fyrir háskólanema í Íslensku óperuna á verk sem var ekki minnistæðara en svo að það eina sem ég mundi eftir var skelfilega væmið litavalið á búningunum sem gerði það að verkum að allir söngvararnir litu út eins og ítalskir kúluísar.

Fyrir barðinu á þessum sjálfskipaða, dómharða, lag- og tóneyralausa gagnrýnanda, varð í þetta og þriðja sinn; La Traviata eftir Verdi. Fyrirfram hafði mín búið sig undir að dotta yfir herlegheitunum sér í lagi vegna næturvaktarvinnu nóttina áður og líka vegna yfirvofandi leiðinda. En þar sem þetta stykki er í miklum metum og einstöku uppáhaldi hjá madre minni amata, ákvað ég að mæta með opnum huga og opnum augum a.m.k. fram að 2. þætti.

Mín varð ekki fyrir vonbrigðum með þá ákvörðun og hélt sér vakandi heilu þrjá tímana og skemmti sér konunglega allan tímann. Þess ber þó að geta, fyrir ykkur hin sem ekki hafið orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að hlýða á jafn margar óperur og ég (já, þriðja sýning gerir mig óneitanlega að viskubrunni um óperuheiminn!), að þetta er engin gamanópera. Án þess að fara nánar út í smáatriði í söguþræðinum, því ekki vil ég spilla fyrir ef e-r ætlar að sjá uppfærsluna, þá er þetta ekta tragísk, ítölsk ópera þar sem ástríðufullir elskendur fá ekki að eigast (tel mig ekki hafa spillt miklu með þessari lýsingu því þetta er jú bara normið í öllum klassískum óperum). Af því leiðir, að eitthvað annað en óperan sjálf, hélt mér vakandi og flissandi allan þennan tíma. Já, það var reyndar umgjörðin öll og hún skal nú útlistuð nánar, ykkur til fróðleiks og skemmtunar.

Eins og þið vonandi vitið, er verið að reisa tónlistarhús við hafnarbakkann í Reykjavík en meðan verið er að eyða dýrmætum tíma og peningum í hluti eins og rétta áferð á stuðlabergsglerskúlptúrinn hans Ólafs Elíassonar og fara í gegnum allar fjögurhundruðogeitthvað nafnatillögurnar sem bárust (og sem á endanum verður bara enn einn ásatrúartribjútinn, sjá vandlætingarfærslu mína 17. janúar sl.), þá verður landsliðið okkar í óperusöng + einn fyrrum idolþátttakandi, að gera sér að-hruni-komna-kompu Íslensku óperunnar að góðu. Já, sannarlega skandall að þetta skuli viðgangast...en samt skondinn skandall eins og ég mun nú loksins koma að eftir þennan langa formálaWink

Kompa þessi er nefnilega stórmerkileg fyrir aldurssakir og að hún skuli enn vera uppistandandi hlýtur að teljast einhvers konar met. Frammi í fordyrinu er afdrep fyrir óperugesti sem með réttu gæti kallast síldartunna meðan á hléi stendur. Þar stendur nefnilega maður við mann svo þétt að þeir gætu hæglega leikið í fjölda-Ópalauglýsingu og vei þeim manni sem gerist svo djarfur að ætla sér að versla á pínu-barnum (aðeins stærri en míníbar) og ferðast með glas af rauðu eða hvítu yfir í hinn endann! Eftir slíka gestaþraut er skrambi gott að setjast niður inni í sal. En bíðum við...fljótt fer gestinn að gruna að ástæðan fyrir því að litla stelpan sem hélt á púða í fanginu frammi í fatahengi, hefði ekki verið sú að hún væri svona hrædd um að sofna yfir sýningunni og haft með sér höfuðpúða, heldur að greinilega hefði hún komið hingað áður og ákveðið að hafa með sér rasspúða til að þjást ekki í þjóhnöppunum!

En þegar inn í sjálfan salinn er komið, blasir annars fyrst við manni hversu lítill hann er og hve nálægðin við aðra gesti er þrúgandi. Vöntun á upphækkun sætaraðanna er ekki til að bæta úr skák svo útsýnið á sviðið er verulega skert af hári og sérhönnuðum tískuhárspöngum sem ósjaldan eru skreyttar hinum ýmsu risablómum úr satíni og tjulli (halló...hreinasti hroðbjóður og algjör óþarfi því þetta breytir ekki þeirri staðreynd að við búum ekki á Hawaii!). En annars er útsýnið ekki aðalvandamálið, því ef maður kann bara að segja pasta al dente og buon giorno á ítölsku, neyðist maður til að sveigja hálsinn 90° afturábak til að geta fylgst með íslenska skjátextanum uppi í rjáfri. 

En burtséð frá þessum smávægilegu óþægindum, þá er önnur nálægð verri en sú við hina óperugestina og það er nálægðin við söngvarana sjálfa. Þar sem sviðið hefur enga hliðarútganga og engin leiktjöld, notast söngvararnir við allt tiltækt og þar með talda gangana milli sætaraðanna þannig að þegar þeir koma þrammandi inn eins og fílahjörð og hefja upp hraustlegar raustir sínar í þessum litla sal, hrökkva áhorfendur gjarnan í kút og sumum liggur við hjartaáfalli.

Í upphafi sýningar eru svo áhorfendur áminntir um að halda kyrru fyrir í sætum sínum í tveimur stuttum hléum inn á milli þátta. Þessi hlé eru gerð til þess, haldið ykkur nú fast..., að söngvararnir geti tekið til eftir sig og skipt um leikmynd fyrir allra augum! Já, þau leysa þetta verk reyndar ágætlega af hólmi og reyna að flétta þessu inn í tónverkið en maður veltir samt óneitanlega vöngum yfir því hvort kórinn fái borgað aukalega fyrir að proppsast á milli aría!?!

Annað sem vakti undrun mína og kátínu í sýningunni, var atriði í miðju verki þar sem tekið var upp á því að sýna svart-hvíta klámmynd uppi á miðju sviði! Það var reyndar ekki klámmynd í nútímaskilningi heldur einfaldlega kona að afklæðast úr hverri spjör í nærmynd á eggjandi hátt. Reyndar var e-ð annað að gerast á sviðinu á sama tíma, söngur og sígaunadans, en ég ábyrgist að allir þeir eiginmenn sem dregnir voru gegn vilja sínum á þessa sýningu af eiginkonum sínum, voru ekki að fylgjast með söng eða dansi þær fullmörgu mínútur sem myndbrotið var sýnt.

Hér þyrfti ég kannski að taka það fram, að þessi tiltekna sýning var ekki sett upp í hefðbundnum Verdi-búningi, heldur flutt í nýjum búningi eða nýjum tíma réttara sagt og látin gerast í "bandarísku umhverfi á 3. áratug síðustu aldar." Ég ætla ekki að tjá mig um þetta val listrænna stjórnenda sýningarinnar enda hef ég engan samanburð, en mér fannst það þó soldið skrítið að sjá þau Alfredo og Víólettu tjá hvort öðru ást sína undir ameríska þjóðfánanum. Þrátt fyrir þessa ameríkaníseringu héldu þau veislu til heiðurs nautabönum með pompi og prakt (atriði sem er mikilvægur partur í verkinu), nokkuð sem mér finnst hæpið að Kanar hafi gert á þessum tíma. En hvað um það, ég gat skemmt mér yfir því að sjá digurvaxna óperusöngvarana spígspora um í nautabanabúningum sem venjulega eru sniðnir fyrir smávaxna menn sem geta borið aðþrengdar kvartbuxur og magabelti. Þessir nautabanar litu frekar út fyrir að hafa torgað heilu nauti áður en þeir tróðu sér í búninginn.

Og ekki var allt gamanið búið enn, uppklappið var eftir, en þá fyrst fór ég nú að óttast um hvort söngvararnir væru slysatryggðir. Ekki nóg með að þeir þyrftu að tipla á milli stórhættulegra planka, sumar söngkonurnar á hælaskóm, heldur datt líka eitthvað brak úr lofti sviðsmyndarinnar í þann mund sem þau voru að hneigja sig. Sem betur fer lenti það ekki á neinum en það munaði littlu og kórsöngvaranum sem varð næstum undir brakinu var greinilega brugðið. Sjálfri stóð mér heldur ekki alveg á sama þegar fólkið í stúkunni fyrir ofan mig byrjaði að stappa á fullu í gólfið til að sýna ánægju sína með sýninguna.

Ég var hálfhrædd um að stúkan myndi ekki þola álagið, hrynja á hausinn á mér og þar með koma í veg fyrir frekari óperuferðir mínar. Ég sá jafnvel fréttafyrirsagnirnar ljóslifandi fyrir mér: Óperuunnandi lætur lífið á La Traviata, Sorglegur endir á stórkostlegri sýningu, Ítölsk tragedía á sviði - íslenskur harmleikur í sal.  Og ég sem er ekki einu sinni búin að redda þolanlegri passamynd af mér fyrir minningargreinina mína!

Svona var semsagt þriðja óperusýningin mín, sem reyndist vera hið ágætasta uppistand, í smáatriðum. Efast stórlega um að hægt verði að finna fyrir sömu hughrifum í nýja glerklædda, tónlistarhúsinu og hvet því alla sem hafa ánægju af hágæðasöng og hafa húmor fyrir "rustic setting" að skella sér í Íslensku Óperuna áður en það verður um seinan.

 


STYNJ!...Ungdómurinn í dag

a) Stórt hvítt höfuð rúllar eftir færibandinu.

Unglingurinn á kassanum (clueless en kurteis): Fyrirgefðu, hvað er þetta eiginlega?

Viðskiptavinurinn (næstum orðlaus): Blómkál, þú finnur það undir grænmeti.

 

b) Viðskiptavinurinn (ráðvilltur): Ég finn ekki poppmaísinn, geturðu sagt mér hvar hann er?

Unglingurinn á kassanum (viss um að sér hafi misheyrst og hissa á heimsku viðskiptavinarins): Meinarðu örbylgjupopp?

Viðskiptavinurinn (hvumsa): Nei, maískorn til að poppa í potti

Unglingurinn á kassanum (enn meira hvumsa): Ha, getur maður poppað án þess að nota örbylgjuofn?

 

c) Bólugrafni unglingurinn veltir vandræðalegur pappírssnifsi milli fingra sér og klórar sér í hausnum.

Unglingurinn á kassanum: Ætlarðu að borga með þessu?

Viðskiptavinurinn: Já, takið þið ekki við ávísunum?

Unglingurinn (hringir á aðstoð): Öhh...jú, jú ég hef bara aldrei séð svona fyrr.

Aðeins nokkur dagsönn dæmi sem ég og fólk í kringum mig hefur lent í. Dæmigerð fyrir ungdóminn í dag sem borðar ekki grænmeti og þekkir ekki aldagamlar eldunar- og borgunaraðferðir.

STYNJ...má ég þá frekar biðja um fullvaxta útlending á kassann!Shocking


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband