Færsluflokkur: Bloggar

Nú er það svart og fokið í flestöll skjól, Fésbók hér kem ég!

  Því miður, engin færsla þessa vikuna.

Blogghatarinnmikli er upptekinn við að nútímavæðast og halda í við tímasóandi tískubólur áður en þær springa. Helst á döfinni þessa vikuna verður daglegt klikk á tóma kassa í Núinu og prufukeyrsla á nýju Fésbókinni. Hver fágæt frístund verður nýtt fyrir framan tölvuna og tekin verður áhætta á aukningu á vinnutengdum sjúkdómum eins og lyklaborðsgigt, tölvuskjástöru og rassvöðvabólgu, sem þegar hrjá blogghatarann. En hvað gerir maður ekki fyrir tæknióða vini sína?


Sumarið er tíminn...til að stela bloggi

Eins og þið hafið kannski tekið eftir, lesendur góðir, hefur bloggunum mínum farið fækkandi með hækkandi sól og bráðnandi hafís, sem hefur fært okkur hvern hvítan bjössann á fætur öðrum. En þar sem ég er ekki mikið fyrir að tjá mig um málefni líðandi stundar (hvað þá liðinnar), auk þess sem búið er að þurrausa úr bloggviskubrunni landans um hina loðnu gesti, ætla ég bara að blaðra um eitthvað annað. Eða ekki ég, heldur þið réttara sagt. Ég hef nefnilega komist að því að bölvuð sólin sem ég dýrkaði ótæpilega um síðustu helgi, hefur brennt fleira en skinnið á mér (sem er nú samt óðum að nálgast aftur sinn náhvíta næpulit eftir vænan skammt af skrifstofukúldri þessa vikuna). Henni tókst sumsé að láta nokkrar dýrmætar heilasellur bræða úr sér í hitanum. Afleiðingin var sú að brunarústin ég, hafði bara ekki minnstu hugmynd um hvað ég ætti að blogga um í minni vikulegu færslu. Þá voru nú góð ráð dýr svo mín brá á það þjóðráð að flakka um bloggsíður vina og vandamanna í von um að aðrir og betri bloggarar hefðu e-ð fram að færa í ládeyðu hásumarsins. Og viti menn, hérna er afraksturinn af því flakki; Sönn, íslensk bloggmál - fyrsti hluti.

-Ath. Bloggritari ber enga ábyrgð á ótrúverðugleika frásagnarinnar sem hér fer á eftir. Hins vegar, ef einhver telur sig kannast við óbreytt orð, endurtekið orðalag eða afritaðar heilar efnisgreinar í þessari færslu, er viðkomandi velkomið að fara í mál við bloggritara fyrir ritstuld. Skýrt skal þó fram tekið að undirrituð á ekki grænan túskilding með gati til að borga skaðabætur sem af slíkum málaferlum kunna að hljótast.  

Dulúð Jóns,

sjálfstætt starfandi blogggjörningalistaþjófur,

tímabundið á bótum hjá náttúru Íslands vegna

húð- og heilaskaða af völdum sólbruna.

Sunnudagurinn 29. júní 2008, kl. 15:37

Teddi, flugumferðarstjóri í Keflavík, situr í kaffiteríunni yfir kaffi og þurri kleinu þegar Böddi, kollegi hans, kemur askvaðandi inn. Teddi, sem ekki er alltof hrifinn af þessum montna og háværa samstarfsmanni sínum, forðast að líta upp en það er um seinan því Böddi hefur komið auga á hann í fámennri kaffiteríunni. Flestir hinna nýta kaffitímana í gymminu til að losa um stress en Teddi kýs frekar ró og næði á meðan Böddi virðist sækja í það eitt að raska ró og næði annarra. „Það er of dýrt að vera Íslendingur í dag!", kallar hann yfir salinn svo glymur í...„En sólin skín og það er sumar. Skítt með 13% verðbólgu, veikasta gjaldmiðil heims, hæsta bensínverð sögunnar og hæstu tölu á vigtinni í manna minnum. Njótum lífs á meðan er!", syngur í Bödda um leið og hann hlammar sér við hliðina á Tedda. Teddi samsinnir treglega því hann veit af fenginni reynslu að það þýðir ekkert að þagga niður í eða grípa frammí fyrir Bödda.

„Þú getur aldrei giskað á hvað ég gerði á föstudaginn," segir Böddi með ísmeygilegum tón sem í eyrum Tedda er ávísun á enn eina lygasöguna sem Böddi er alræmdur fyrir. „Nei, en ég hef grun um að það hafi verið eitthvað svakalegt," svarar Teddi með kaldhæðni sem fer algjörlega framhjá Bödda eins og venjulega. „Ó, já það máttu sko bóka, kallinn minn. Ég leysti nú bara eitt stykki verkfall, það var mér að þakka að samningar náðust. Svo þú mátt alveg þakka mér fyrir launahækkunina." Allt í einu fýkur í Tedda sem veit fullvel að Böddi kom hvergi nálægt samningaviðræðunum og hann ákveður að stinga upp í Bödda Bullshit í eitt skiptið fyrir öll.

„Nú já, ég missti nú bara af þessu öllu saman því ég var að fljúga í síðustu viku." Eins og Teddi bjóst við, sperrir Böddi eyrun og græn öfundarslikja færist yfir búlduleitt andlitið þegar hann heyrir minnst á flug. Böddi er nefnilega flugskólafallisti og forfallinn áhugamaður um flug en hefur þurft að láta sér nægja að fylgjast með flugvélum á tölvuskjám í vinnunni. „Ég vissi ekki að þú kynnir að fljúga," segir hann með augljósum öfundartón í röddinni. „Nei, ekki ég heldur, þetta var jómfrúarflugið hjá mér." „Ég ætlaði mér ekki að taka neitt frí en er rosalega ánægður að hafa beðið um að fá frí og var líka kominn með fráhvarfseinkenni því nú er komið meira en ár síðan ég yfirgaf landið síðast," heldur Teddi áfram þegar hann sér að hann hefur náð að fanga athygli Bödda. „Ég fór og fékk að prófa að fljúga einni rellu og þetta er alveg fáránlega erfitt, skil ekki hvernig menn sjá hvað í andskotanum þeir eru að gera." Böddi virðist hissa en Teddi gefur honum ekki færi á að spyrja nánar út í þetta.

Við flugum frá Penang í Malasíu til Tashkent í Uzbekistan. Á leiðinni út af hótelinu hittum við royalty! Konungur Malasíu var á leið til fundar á hótelinu og heilsaði upp á mig og flugstjórann þegar hann labbaði fram hjá okkur. Innfæddir gengu að konungnum, kysstu á hönd hans og hneigðu sig djúpt. Konungurinn skiptist á nokkrum orðum við hvern og einn sem uppá hann heilsaði. Hann kom svo að okkur tveimur, þar sem við stóðum eins og fíflar í rósagarði og vissum ekki í hvorn fótinn við áttum að stíga." „Og hvað heldurðu að kóngsi hafi sagt við okkur á lýtalausri ensku?" „Grillaðir bananar...lostæti!" Þegar hér er komið sögu, sér Teddi að Böddi er orðinn opinmynntur af undrun og karlgreyið virðist vera orðlaus aldrei þessu vant. „En þú ætlaðir annars að fara að segja mér frá því hvernig þér tókst að leysa verkfallið, Böddi minn." En Böddi virðist hafa gleymt öllu um það því hann flýtir sér að segjast þurfa að sinna verkefni áður en pásunni ljúki og með það er hann rokinn út. Teddi glottir við og dýfir kleinunni í kaffið sitt.


Helgin ónýt vegna veðurs

Jæja, skynsamlega helgarplanið mitt með fullt af fögrum fyrirheitum fór í vaskinn hjá mér vegna veðurs svo ég blogga bara, fyrst helgin er ónýt hvort eð er. Þannig var mál með vexti að ég var búin að ráðgera smekkfulla helgi af ritgerðarvinnu og inniveru frá morgni til kvölds. Ekki varð mér nú að eigingjarnri ósk minni um rigningarhelgi, heldur ákváðu veðurguðirnir að refsa heimtufreku stúlku(ó)kindinni sem í byrjun helgar leit út eins og ósoðin úthafsrækja, grá og guggin, en endaði hana sem vel grilluð risarækja, rauð og þrútin.

Helgin hófst á því að mín þurfti að vinna frameftir og var því ekki komin heim til sín fyrr en um níu á föstudagskvöldið. Í stað þess að vera skynsöm stúlka og fara snemma í háttinn eftir erfiði dagsins, þurfti mín að vaka þar til þreytan bar óskynsemina yfirliði. Afleiðingin var sú að litla, rækjan lata svaf fram eftir á laugardegi í stað þess að taka daginn snemma. Þegar svo litla rækjan lata var loks búin að fæða sig og klæða, bárust henni sendiboð um símalínu þess efnis að nú skyldi haldið í labbitúr í góða veðrinu. Gallabuxnafjölskyldan (2/3 einkennisklæddir meðlimir í þetta sinn) birtist svo í göngugírnum og geystist um gettóið með rækjuna í eftirdragi.

Að göngu lokinni settist rækjan að íssnæðingi í sólinni með gestum sínum. Þegar þeir kvöddu, var kominn tími fyrir litlu lötu rækjuna til að svamla aðeins í baði, fæða sig og klæða á ný og halda í heimsókn í annað gettó. Það var svo þreytt en ánægð rækja sem skreið undir sængina sína um tvöleitið aðfaranótt hvíldardagsins. Hann var svo haldinn hátíðlegur á viðeigandi hátt, þ.e. litla rækjan lata brá sér í Guðshús að morgni dags og hvíldi sig svo. Guðinn sem þar er til húsa, bænheyrði hana ekki um rigningu, ekki frekar en veðurguðirnir. Síðdegis sama dag skall þó á haglkennt skúraveður og sjaldgæfur þrumugnýr annars staðar á Suðurlandi, svo rækjuna fór að gruna að æðri máttarvöld hefðu bara misreiknað sig örlítið og misst marks.

En þar sem svona óheppilega fór með veður, neyddist litla rækjan lata til að leggjast út í sólina og láta hana grilla sig á meðan hún grillaði marinerað svín á snilldarlega rafmagnsgrillinu úr Europris. Þegar rækjan var búin að sporðrenna svíninu þurfti hún að marinera sjálfa sig með sólarvörn og leggjast á meltuna. Eftir að hún var búin að velta sér margoft á allar hliðar til að ná fram jöfnum lit, var kominn tími til að færa sig inn enda sól farin að lækka á lofti. Ekki báru Nivea-marineringin né bylturnar tilætlaðan árangur því litla rækjan lata fer rauðflekkótt og aum í háttinn í kvöld. Hún hefði betur haldið sig innandyra eins og planið var þessa helgina.

         


Boring, snoring, lying, working girl!

Jæja, þá er mín búin að uppgötva ansi slæman ósið sem er nýlega búinn að bætast í annars yfirfulla ósiðakompuna. Mín er farin að nota nýju vinnuna sem afsökun fyrir að gera ekki neitt annað. Síðustu dagana hafa setningar eins og svörin við þessum góðu og gildu spurningum, laumast út fyrir óforskammaðar varir mínar:

Góð spurning I (oftast spurð af góðum vinum sem hafa þann óskiljanlega ávana að lesa bloggið mitt) :  „Á ekkert að fara að blogga?"

Bad habit svarið mitt: „Æi, ég er fyrir framan tölvuskjáinn allan liðlangan daginn svo ég vil helst ekki kveikja á tölvunni þegar ég kem heim."

(True thinking svarið mitt: „Ég er illa haldin af leti og aumingjaskap þessa dagana og blogg er það síðasta sem ég nenni að hugsa um.")

 

Góð spurning II (oftast spurð af móður minni og góðum vinum sem þekkja mig og mína ósiði alltof vel): „Ertu búin að gera eitthvað í ritgerðinni?"

Bad habit svarið mitt: „Æi nei, ég er bara svo voðalega þreytt eftir vinnuna á kvöldin og um helgar."

(True thinking svarið mitt: „Fjandinn, á nú að láta mann fá samviskubit yfir að eyða dýrmætum tíma í svefn og sjónvarpsgláp enn eina ferðina.")

En nú er ég semsagt búin að átta mig á því að þetta gengur ekki lengur og tími til kominn að moka út úr ósiðakompunni sem er farin að stinka af lygasagga og úldnum afsökunum. Og ekki veit ég betri tíma til þess en einmitt núna þegar maður er nýlega orðinn árinu eldri og vonandi vitrari (þó ég leyfi mér að efast um það) og þjóðhátíðarfánar blakta til áminningar um að sjálfstæði kostar þrotlausa vinnu. Næsta ár legg ég svo til atlögu við annan ósið of mine og sópa út enskuslettunum!

 


Langþráða helgar"fríið" mitt

Eftir að ég byrjaði í nýju vinnunni hef ég litlu öðru getað sinnt utan hennar, hvað þá blogginu. Héðan í frá verður því að öllum líkindum aðeins um vikulegar færslur að ræða. En það er auðvitað bara jákvætt að hafa nóg að gera og ég hef tekið eftir því að aukið annríki eykur skipulagshæfni sem er jú bara af hinu góða (sérlega gott í mínu tilfelli)! Verra er að skipulagningaræðið tekur sér ekki frí um helgar. Hér er dæmi:

Laugardagur:

  • Kl. 9:00 - 10:00 Drattast á lappir, svolgra blekað kaffi og vinna upp blaðalestur síðustu viku.
  • Kl. 10:00 - 10:15 Gera dauðaleit að pollagalla, vinnuhönskum og klóru.
  • Kl. 10:15 - 12:00 Liggja á hnjánum í moldarbeði, reyta arfa í grenjandi rigningu og hlusta á nágrannana sem fyrirskipuðu þennan hreinsunardag, rífast um hvar lóðamörkin liggja.
  • Kl. 12:00 - 12:30 Hita og sötra súpu í hádegismat sem nær þó ekki að deyfa hrollinn eftir að pollagallinn blotnaði í gegn.
  • Kl. 12:30 - 13:00 Brjóta heilann um hvort maður eigi að taka á honum stóra sínum, þurrka pollagallann með hárþurrku, klæða sig aftur í hann, troða sér í kvennahlaupsbol utanyfir og fara svo í hlaupið.
  • Kl. 13:05 Ákvörðun tekin um að halda sig heima þar sem rauði pollagallinn harmónerar skelfilega með fjólubláa bolnum.
  • Kl. 13:05 - 16:10 Þrífa íbúðina (í kvennahlaupsbolnum því það er jú annars konar kvennahreyfing. 3 tímar? Já, hún var orðin ógeðsleg!).
  • Kl. 16:10 - 17:30 Dröslast í helgarinnkaup með klesst hár og angandi af WC-hreinsi.
  • Kl. 17:30 - 19:00 Slappa af (sofnað yfir tvöföldum úrslitaþætti af Survivor).
  • Kl. 19:03 Bölva yfir að hafa dottað yfir lokaræðunum hjá svikulustu þáttakendum Survivor í áraraðir!
  • Kl. 19:03 - 19:30 Malla einfaldan supper eftir erfiði dagsins.
  • Kl. 19:30 - 20:45 Gera dauðaleit að skárra sjónvarpsefni en EM.
  • Kl. 20:45 - 21:00 Skipuleggja morgundaginn í Exel-skjali.
  • Kl. 21:00 - 22:00 Horfa á nýja, breska sápuóperu í stað þess að skrifa ritgerðina (rannsóknarvinna í fullum gangi sko!).
  • Kl. 22:00 - 22:40 Liggja í baði og mýkja harðsperrur dagsins.
  • Kl. 22:45 Stefnumót við Óla lokkaprúða-og-vöðvastælta-Lokbrá í Draumalandinu.

Sunnudagur:

  • Kl. 10:30 - 11:00 Koma sér á lappir sem enn eru með aumingjastæla eftir hnjábeygjur gærdagsins í beðunum (já, maður er víst enginn unglingur lengur).
  • 11:00 - 12:00 Bröns og uppvaskerí.
  • 12:00 - 15:00 Ritgerðast (eða a.m.k. blaðað í tveimur heimildarbókum sem ég leysti nýlega úr tollinum á meðan ég horfði á talentlausa - tríóið; Sharon Osbourne, David Hasselhoff og Pierce Morgan dæma ennþá hæfileikalausari þátttakendur í America's got talent).
  • 15:00 - 17:00 Mæta í barnaafmæli hjá Elvu vinkonu og Emelíu krúsidúllu og gúffa í sig gúmmulaði.
  • 17:00 - 18:00 Jafna sig á gúffinu og naga sig í handarbökin fyrir að hafa afþakkað labbitúr með gallabuxnafjölskyldunni.
  • 18:00 - 20:00 Horfa á leikinn (nei, ekki Þýskaland/Pólland í fúsball heldur Ísland/Makedónía í handball).
  • 18:00 - 20:00 Blogga (til að þurfa ekki að horfa á afhroðið) á meðan þulirnir þusa eitthvað um að við getum huggað okkur við að svona slæmur leikur sé afar sjaldgæfur hjá okkar mönnum.
  • 20:00 - 21:30 Fréttir, veður og Jane Eyre (rannsóknarvinnan aftur sko! Það er nefnilega hægt að rekja sápuóperur aftur til gotneskra skáldsagna á borð við þetta meistaraverk Charlotte Brontë).
  • 21:30 - 22:00 Skipuleggja næstu viku í Exel.
  • 22:00 - 23:00 Strauja skrifstofudressið fyrir morgundaginn, lesa og teygja á harðsperrileggjunum fram að háttatíma.
  • 23:15 - 7:30 Annað stefnumótið með Óla mínum Lokbrá (í nótt er ég búin að panta dinner í París, snjósleðaferð í Lapplandi, leikhús á Broadway og útsýnisferð í London Eye)!

Svo þið sjáið að ég er orðin helvíti skipulögð. Nú á bara eftir að koma í ljós hvort það sé blessun eða bölvunWink

 


Gaggó grimmast

Jæja, þá erum við loksins búin að éta Svíagrýluna með sveittri húð og síðu hári til tilbreytingar í stað þess að láta hana snæða okkur í hvert mál sem við hittumst á vellinum. Til hamingju Ólympíufarar og verði ykkur að góðu! En burtséð frá öllu því sem gulir og bláir Svía-jävlar hafa gert á hlut okkar í gegnum tíðina, verður að viðurkennast að þeir eru öðrum þjóðum fremri þegar kemur að problemlösning. Þetta kemur berlega í ljós þegar rýnt er í félagslega kerfið þeirra, fyrirtækjarekstur og kvikmyndagerð.

En sænskar bíómyndir eru einmitt umfjöllunarefni mitt að þessu sinni og þá sérstaklega ein tegund sem ég vil meina að Svíarnir séu frumkvöðlar að, nefnilega unglingamyndirnar. Og þá á ég ekki við klisjukenndar gelgjumyndir þar sem hallærispía fellur fyrir kúl gæja, halló gellan fer í meik-over hjá kúl klíkunni, kúli gaurinn tekur loksins eftir fyrrv. halló gellunni sem þá er orðin ný-kúlisti og býður henni á Promballið þar sem þau eru krýnd kóngsi og drolla með pompi og prakt. Nei, sænsku táningarnir þurfa svo sannarlega að hafa meira fyrir hlutunum en amerískir jafnaldrar þeirra og happy ending fæst ekki bara með vangadansi og kossi í þemaskreyttum skólasal, ef hann næst þá, en það er alls ekki algilt.

Hver man ekki eftir hinni lesbísku Agnesi sem varð hrifin af bestu vinkonu sinni í myndinni Fucking Åmål eða hræðilegum örlögum Lilyu sem var neydd út í vændi í Lilya 4-ever. Á föstudaginn var, sá ég svo enn eina snilldarmyndina úr stórum hópi sænskra verðlaunamynda sem „handlar om tonåringsproblemer". Sú heitir Hip, hip hora! og fjallar um Sofie sem elst upp hjá einstæðum föður sínum sem einnig er kennari í gagnfræðaskólanum sem hún er að hefja nám í ásamt tveimur æskuvinkonum sínum. Þær hlakka allar mikið til að byrja í 7. bekk og hugsa sér gott til glóðarinnar að geta sótt partýin með eldri bekkingum, ekki síst til að hitta sér eldri stráka.

En margt fer öðruvísi en ætlað er og fyrsta misserið í gaggó verður helvíti líkast fyrir Sofie sem kynnist gaggó verst í sinni grimmustu mynd. Ég ætla ekki að segja meira því ég mæli eindregið með því að allir sem höfðu e-ð betra að gera á föstudagskvöldi en glápa á RÚV, leigi sér þessa mynd á DVD. Ég ætla heldur ekki að ganga svo langt að segja að ég hafi upplifað nokkuð í líkingu við það sem Sofie lenti í, á mínum ungdómsárum en ég get fullyrt að ég og allir sem gengið hafa í gaggó, geta fundið einhverja samsvörun við þá reynslu í þessari mynd.

Og ef maður þykist vera orðinn of gamall til að finna samsvörun með unglingsstúlkum en ekki orðinn nógu gamall til að samsama sig foreldri sem strögglar við að ala upp ungling, getur maður þó fundið til samkenndar með báðum þessum aðilum. Ég meina, hver getur ekki fundið til með ráðþrota föður sem reynir að segja dóttur sinni að klæða sig minna eggjandi eða grátið með bólugrafinni unglingsstúlku (já, það er ekki einu sinni reynt að meika yfir það eins og hjá stöllum hennar í Hollywood) sem allir virðast snúa baki við. Ef þetta er ekki nógu sannfærandi, þá ætti hið fræga tomatsås/handjobba-atriði með þeim Sebbe og Sofie að vera nægileg skemmtun til að allir unnendur góðra mynda hlaupi út á leigu. Så skynda dig!


ALLTAÐGERASTÍEINU!

Dagar svartasta þunglyndis og kvíða eru liðnir hjá, þökk sé móður jörð (aka: hinni jarðbundnu móður minni) og góðum vinum (ykkur sem lesið þetta bull og væl í mér). Loksins er eitthvað að gerast sem gefur lífi mínu bjartari lit og eiginlega allt litrófið því það er bara allt að gerast í einu hjá minni núna. Og hvernig er hægt að vera blue þegar svona viðburðir gerast allir í sömu vikunni!?!

Í fyrsta lagi...er ég loksins búin að fá vinnu hjá alþjóðlegu almannatengsla-fyrirtæki sem skartar eldrauðum sófa í hjarta skrifstofunnar, fer eftir; "go-go", "brutal honesty" og "no rules" stefnu og hefur "strict dress code" fyrir starfsmenn. Svo nú er bara að standa upp úr græna, lúna hægindastólnum, hrista af sér slenið og skipta út fataskápnum. Skræpóttu hippafötin mín verða því miður að víkja fyrir svart-hvítum samsetningum en það fylgir því víst að fullorðnast, ekki satt?

Í annan stað...er 3 daga Júróvisjónveisla framundan með tilheyrandi litagleði og hátíðahöldum fyrir augu og eyru. Vonandi ná FriðReg og ÓmÍna að slá stjörnuryki í augu Evrópubúa þar sem hann úúsar allur af gervibrúnku og tannhvíttun og hún sprangar um sviðið á skærbleikum hælaskóm. Af þessu tilefni er einfaldlega ekki hægt annað en hætta að mála skrattann á vegginn og gleðjast með artistum og aðdáendum sem kenna sig við alla regnbogans fánaliti!

Í þriðja lagi...er hinn súkkulaðibrúni, mexíkóski bróðir minn á leið til landsins frá Porgal. Þaðan sem ég vona að hann komi með sól og hlýju handa mér svo ég geti klæðst litríkum sumarfatnaði mínum (utan vinnu að sjálfsögðu!). Hann mun án efa setja lit sinn á heimilislífið næstu tvær vikurnar sem og skemmtanalífið ef ég þekki hann rétt. Hver veit nema maður dýfi sér með honum í blátt lón, tékki á gullnum fossi og klifri á rauðum hólum. Svo er aldrei að vita nema maður troði sér í grænan salsakjól og smelli bleikri rós í hárið eftir nokkra sopa af glæru tekíla!

 


Slúðurkerlingunni sem ofbauð svæsnin

Við mæðgurnar fáum stöku sinnum gefins bunka af þýskum slúðurblöðum sem við lesum af áfergju til að viðhalda málfærninni, já og líka til að svala forvitninni um fræga fólkið. Ég get fúslega viðurkennt að ég hef lúmskt gaman af því og ég veit að ég er svo sannarlega ekki ein um það. En í þetta sinn blöskraði minni þó algjörlega við lesturinn! Ekki nóg með að Séð og heyrt er eins og ABC eða Æskan við hlið þýskra kollega sinna, heldur hefur svæsni þeirra og lágkúra aldrei verið jafn áberandi og nú. Ósjaldan heyrir maður kvartað og kveinað undan bresku slúðurpressunni en trúið mér, gula pressan í Germaníu er tífalt verri en sú í Brittaníu! Hér koma nokkur dæmi um það sem fór helst fyrir litla, hlutlausa blaðamennskubrjóstið mitt en dæmi nú hver fyrir sig, því kannski er ég bara of vammlaus til að skilja svona fréttaflutning.

Das Neue Blatt - 6. febrúar 2008:

Hér er grein um konu sem er þekktur grínisti í Þýskalandi og glímir við krabbamein og fyrirsögnin er: En sorglegt! Henni hrakar. Ekki skánar það svo í greininni sjálfri því þar er m.a. að finna þessa setningu; „Hin áður svo skemmtilega Gaby Köster mun ekki framkalla hlátur okkar lengi í viðbót því henni hrakar nú aftur." Smekklaust?

Á næstu opnu er svo viðtal við Uschi Glas sem er mjög þekkt leikkona í Þýskalandi sem skildi við ótrúan eiginmann sinn eftir 22 ára hjónaband. Fyrirsögnin: Þrátt fyrir nýja ást getur hún ekki fyrirgefið sínum fyrrverandi. Þegar greinin er skoðuð, kemur þetta hins vegar hvergi fram í spurningum blaðamanns né svörum hennar. Furðulegt?

Das Neue Blatt - 2. apríl 2008:

Fyrirsögn: Hvernig gat Guð leyft svona nokkru að gerast? Hér er grein um hræðilegan atburð þegar kona lést á hraðbraut eftir að e-r henti 6 kílóa trékubb ofan af brú á bíl sem hún var í ásamt manni sínum og börnum. Með greininni er birt passamynd af konunni, mynd af brúnni, blóðugum trjákubbnum og krossinum á leiði hennar þar sem lesa má fullt nafn hennar. Í greininni er svo nöfnum eiginmannsins og barnanna breytt en maður spyr sig bara til hvers þegar búið er að birta mynd og nafn fórnarlambsins. Siðlaust?   

Fyrirsögn: Getur hún fyrirgefið manni sínum feilsporið? Hér eru flennistórar myndir af Heidi Klum ofurfyrirsætu og Seal eiginmanni hennar þar sem hann er að skammast í papparössum fyrir utan veitingastað. Greinin fjallar svo um það hvaða skýringar blaðamaðurinn býr til á þessu reiðiskasti hans. Sterklega er gefið í skyn að Seal hafi haldið framhjá með því að nota orðið Ausrutscher eða feilspor í fyrirsögninni, sem getur líka þýtt bræðiskast. Tvírætt?

Fyrirsögn: Sorgin ræður ennþá lífi hennar. Hér er er rætt við ekkju þýsks leikara sem lést fyrir þremur árum. Þetta er greinilega símaviðtal þar sem ekkjan vill sem minnst segja og blaðamaðurinn þarf að fylla í eyðurnar. Nokkurn veginn svona er þetta kostulega viðtal í beinni þýðingu:

Blaðamaður: „Hvernig líður þér að lifa með minningunum?"

Ekkjan: „Æ, hvernig ætti mér að líða? Tilfinningar mínar eru mitt einkamál. Mál sem kemur aðeins mér, Haraldi (látni eiginmaðurinn) og syni mínum við."

Blaðamaður: Mál sem kemur aðeins henni og Haraldi við - hvað meinar hún með því? „Talar hún kannski við látinn eiginmann sinn?" Rödd hennar titrar þegar hún svarar. Það hljómar eins og hún reyni að róa sig niður. Hikandi kemur setningin hennar:

Ekkjan: „Ég vil helst ekki ræða um þetta við neinn. Þetta er eitthvað sem maður ræðir bara við..."

Blaðamaður: Síðan bregst tungan henni. Það hljómar eins og hún kyngi tárunum. Það eru þrjú ár síðan - en þó svo stutt.

Eftir að ekkjan hefur greinilega lagt á (eða skellt öllu heldur), heldur blaðamaðurinn áfram og rifjar upp slæmar stundir í hjónabandi þeirra og klikkir svo út með þessari málsgrein:

Blaðamaður: Þá sem nú, talar hún ekki um tilfinningar sínar. Enn í dag ber hún sorg sína ein. „Ætli hún heimsæki gröf mannsins síns?" Það kemur þögn á línuna eftir þessa spurningu, þögn sem segir allt sem segja þarf um sorg hennar. Fáránlegt?

Jæja, hvað segiði þá? Ætti ég kannski að sækja um starf hjá Das Neue Blatt?

 

 

 


Óþægilega nákvæm "vísindi"

Ég er farin að halda að fröken Holiday Mathis sem sér um stjörnuspána hjá Mogganum, þekki mig prívat og persónulega. Nei, annars trúi ég því frekar að það sé bara dulnefni og í rauninni sé hún einhver dúddi sem heitir Halldór Matthías sem liggur á gluggunum hjá mér og hlerar símann minn á milli þess sem hann semur spána. Já, ég er reyndar alveg viss um að hann sé sérlegur eltihrellir minn (ótrúlega gott orð sem e-r fann upp á yfir stalker!). Hvernig gæti hún/hann annars vitað svona vel hvað hefur gengið á hjá mér síðustu vikur og mánuði!?!

Stjörnuspá

5. maí Tvíburar: Það er gott að þú ert með egó. Án þess hefðir þú helmingi minni drifkraft til að ná árangri. En egóið vill svo mikið. Muntu nokkurn tímann fá næga ást?

2. maí Tvíburar: Fyrsta skrefið í að lífga upp á sjálfan þig felst í að viðurkenna að þér hefur leiðst. Orkan hverfur þegar þú ert áhugalaus gagnvart viðfangsefnunum. Finndu ný.

28. apríl Tvíburar: Þú gerir þér grein fyrir að það verða alvarlegar afleiðingar af því að vera ekki snöggur núna. Þú verður að vera ögrandi í hugsun og framsýnn.

26. apríl Tvíburar: Jafnvel þótt þú hafir engan tíma, skaltu finna tíma handa vinum þínum. Ef það er valdabarátta á milli framans og vinanna, leyfðu þá vinunum að vinna.

21. apríl Tvíburar: Þú ert svo upptekinn í dag að þú sérð að þú varst áður að eyða tíma til einskis. Ekki sekúnda má fara til spillis. Haltu þig við það sem þú verður að klára í dag.

20. apríl Tvíburar: Stjörnurnar undirstrika alla orkuna sem býr í þínu sterka hjarta. Þú er til í að hætta hverju sem er, jafnvel lífinu, til að fylgja draumum þínum.

14. apríl Tvíburar: Þegar þú hagar þér á agaðan hátt, láta áhrifin ekki á sér standa. Þú sérð strax að þú ert á réttri leið. Ekki hætta þegar allt gengur vel.

6. apríl Tvíburar: Þú hefur lært nóg. Nú er tími til að nota þekkinguna. Burt með allt sem dreifir huganum og einbeittu þér. Ekki verða hissa ef tíminn flýgur burt

2. apríl Tvíburar: Ný sýn á vinnuaðstæður reynist frelsandi. Það er ekki vandamálið sjálft sem veldur þjáningunum, heldur viðhorf þitt til vandamálsins.

1. apríl Tvíburar: Ef þú ert einhleyp/ur mun ástin banka upp á í líki góðs vinar. Þeir sem eru lofaðir munu upplifa nýjar hæðir í sambandinu.

30. mars Tvíburar: Að reyna að skilja hvað aðrir vilja er nóg til að taka þig á taugum núna. Þú ferð fyrst að framleiða þegar þú verður óháður. Sinntu bara eigin duttlungum.

26. mars Tvíburar: Það þarf að leggja sig fram til að öðlast mikilleika. Verkefnið þitt lagast til muna þegar þú og aðrir eyðið tíma í það. Ekki skila því fyrr en það er alveg tilbúið.

25. mars Tvíburar: Leystu af þér gamlan bagga og hentu honum strax. Það er enginn tími til að bjóða hann upp á netinu eða selja hann í Kolaportinu. Út með hann!


Ótti tómatsins

Nú er mín barasta búin að fara í þrjú starfsviðtöl á stuttum tíma sem gengu öll þokkalega svona miðað við að ég hef ekki þurft að standa í slíku streði sl. 7 ár. Ég fór nefnilega að gamaldags ráðleggingum múttu minnar sem stakk upp á að ég skyldi nú prófa að póstleggja skriflega umsókn í stað þess að andvarpa daglega yfir tölvupóstinum mínum sem undanfarinn mánuð hefur innihaldið nei-svör, kannski seinna, eða það sem verst er; engin svör við umsóknum mínum. Þetta virkaði semsagt (já, mæður vita víst best) og ég komst að því að það borgar sig að hugsa út fyrir boxið eða a.m.k. út fyrir outboxið!

En nú er komið BIG babb í bátinn því nú tekur biðtíminn við. Tíminn sem það tekur vinnuveitendurna að fara yfir aðrar umsóknir, vega og meta og ákveða hver sé hæfastur. Þetta getur tekið allt upp í tvær vikur eftir því sem mér er sagt og á meðan get ég varla fúnkerað fyrir stressi og var ég nú á barmi taugaáfalls fyrir! Ég hef enga eirð í mér til að setjast niður og skrifa ritgerðarkafla eins og ég ætti að vera að gera, hvað þá annað. Mér líður eins og ég sé einn af þessum tómötum hér fyrir ofan en myndin kallast einmitt því skáldlega nafni Tómatar í rökkri. Ég er viss um að einmitt svona líður tómötum sem eru innilokaðir í dimmum ísskáp. Í biðstöðu upp á von og óvon um að e-r muni nú nota þá bráðum í salsa, sósu eða salat á meðan þeir eru ferskir eða hvort þeir gleymist í grænmetisskúffunni þar til þeir eru orðnir of maukkenndir og ofþroskaðir til að nokkur vilji þá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband