Færsluflokkur: Bloggar
30.11.2008 | 19:13
Það viðrar vel til bloggárása
Mín hefur verið nýlega verið vænd um andvaraleysi í bloggskrifum og algjört aðgerðaleysi í ástandinu sem nú ríkir. Til að svara þessum tilhæfilegu ásökunum, hef ég nú tekið á mig rögg og ákveðið að láta í mér heyra. En þar sem það viðraði ekki vænlega til mótmæla á Austurvelli í gær, varð lítið úr þessum fögru fyrirætlunum. Þannig kom frostnæðingurinn í veg fyrir að mín léti loks verða af því að mæta og hrópa einsatkvæðisorð í takt við eggjunarköll og eggjaköst (það er kannski til marks um hversu napur gærdagurinn var, að eggjakösturum hafði fækkað úr tylft niðrí einn!).
Hins vegar hef ég tekið mig til og sett saman smá bloggávarp til tylftarinnar sem ræður ráðum sínum fyrir innan eggjaklesstar rúðurnar, án þess að ráðfæra sig við þjóðina sem frýs nú úti í kreppukuldanum. Ávarp þetta er innblásið af plötum og smáskífum okkar helstu útrásarvíkinga á sviði tónlistarinnar, dáðadrengjanna í Sigur Rós.
Ávarp til ríkisstjórnarinnar
Árni - Á nýjustu plötu Sigur Rósar er að finna lagið All alright, eitthvað svipað og þú ætlaðir að segja við Darling en mistókst svo herfilega að honum þótti réttast að bíða eftir að það viðraði vel til loftárása á þessa hryðjuverkaþjóð. Skamm, skamm Doktor Dolittle.
Björgvin - Þú minnir mig alltaf á lítinn sveitastrák sem er að reyna að Hoppaípolla með stóru strákunum. Passaðu að það skvettist ekki á fínu, köflóttu skyrtuna þína.
Björn - Með suð í eyrum við spilum endalaust. Þegar þú talar (og bloggar), heyri ég bara endalaust suð.
Einar - Þú ert () = nafnlausa/þögla platan í mínum huga. Farðu nú að láta í þér heyra.
Ingibjörg - Þú færðir mér Von í kosningunum í fyrravor en sú von breyttist í helber Von brigði þetta haustið.
Jóhanna -Takk fyrir að vera þarna á réttum tíma. Þinn tími er svo sannarlega kominn.
Kristján - Þú hefur átt Ágætis byrjun að Grímseyjarferjumálinu undanskildu, svo haltu bara þínu striki.
Geir - Gobbledigook sem átti upphaflega að heita Gobbedígobb, er réttmæt krafa á þínar hendur. Gobbedígobb Don Geir, ríddu nú út í sólarlagið og taktu meðreiðarsvein þinn Sansjó Oddson með þér. Hættu að berjast við vindmyllur þessa lands, þjóðina sem blæs nú byltingarvindum.
Guðlaugur Þór - Þú ert tvímælalaust Glósóli þessa hóps í þínum gljáfægðu leðurskóm og fínu jakkafötum, sérvöldum af heilsusamlegu frúnni, með gelið í hárinu. Ég óttast að þú sért bara upp á punt í heilbrigðisráðuneytinu.
Þorgerður - Hár þitt minnir mig á lagið Heysátan en ég veit að bak við ljósa strýið og furðulega fatavalið leynist þenkjandi kvenskörungur. Ég þoldi hvorki þig né flokkinn þinn en þú komst mér á óvart á borgarafundinum í Háskólabíói, mér fannst þú næstum mannleg. En sem partur af föruneyti á leið til Oz, sem vantar bæði heila, hjarta og þor, verður þú að víkja um stund. Komdu aftur þegar flokkurinn hefur öðlast þessa eiginleika.
Þórunn - Þú áttir að vera Flugufrelsarinn og vernda náttúrulíf landsins en valdir stóriðju í staðinn. Því færðu nú þinn skammt úr eggjabakka þjóðarinnar.
Össur - Þú ert bæði Starálfur og Sæglópur í mínum huga. Þú ert starálfur fyrir útlitið sem minnir óneitanlega á glaðværan, starandi garðdverg með bústnar kinnar og skegg. Og þú ert sæglópur fyrir nýjustu hugðarefni þín, olíulindirnar á sjávarbotni sem þú bindur nú allt þitt traust við. Þrátt fyrir þetta hefur mér alltaf líkað vel við þig og þú átt vísan stað í mínum garði. En kæri minn, þú verður að passa þig að blogga ekki svona mikið á nóttunni, annars hættir fólk að taka mark á þér.
Það getur vel verið að Inní mér syngi vitleysingur en Ríkisstjórn Íslands, þið eruð Svefn-g-englar og við þurfum Ný batterí til að hlaða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.11.2008 | 11:28
Eina flugfélagið sem er ekki á barmi gjaldþrots
Þar sem mín er þokkalega hugmyndasnauð þessa dagana, greip ég til þess öþrifaráðs (aftur) að gerast laumufarþegi og stela fari með annarra manna hugarflugi. Að þessu sinni á barnafarrými (Children's Class) hjá Pearl Air, sem er án efa öflugasta flugfélagið af þessu tagi. Áhöfnin í flugi 676 (tölustafirnir standa fyrir aldur áhafnarinnar; sex og sjö), sem ég naut þeirrar ánægju að fá að fljúga með fyrir nokkrum vikum, var samansett af litlum snillingum sem pældu stíft og spjölluðu saman á meðan þeir perluðu. Hér kemur smá sýnishorn af samræðunum sem mér tókst að hlera í Cockpittinum (Aka: perlustofunni). Og eins og gjarnan gerist í heimi fullorðinna, er það kafteinninn sem á alltaf lokaorðið. Svo spennið beltin og búið ykkur undir hugar-flugtak
Co-Pilot: Það er Hallóvín um helgina.
Captain: Nehei, við höldum ekki uppá það hérna.
Co-Pilot: Júhú, ég hef oft heyrt um það.
Captain: Þú hefur kannski heyrt það, en Íslendingar gera það ekki.
Co-Pilot: Júhúts, ég veit um marga sem halda uppá það!
Captain: Neheits, það er KREPPA svo það verður ekkert Hallóvín!!!
Stewardess: Þarf maður að fermast?
Co-Pilot: Jáhá, auðvitað þegar maður er fjórtán ára.
Captain: Nehei, maður ræður því sjálfur hvort maður gerir það.
Co-Pilot: Jú víst, það þurfa allir að fermast.
Captain: Neheits, sjáðu bara Harry Potter, ekki þurfti hann að fermast!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.10.2008 | 22:40
Söngvaseiður 2?
Skarpur félagi benti mér á það um daginn að með nýja starfinu væri ég eiginlega að feta í fótspor ekki ómerkari stjörnu en Maríu í Sound of Music og að ég hlyti barasta að vera syngjandi sæl allan daginn nú þegar ég væri föst í Söngvaseiði 2. Samlíkingin er alls ekki svo vitlaus, því mín er jú tiltölulega nýsloppin úr vernduðu umhverfi menntaklaustursins við Sæmundargötu og er nú umkringd uppátækjasömum krökkum á ýmsum aldri.
Hins vegar þyrfti að bæta svona 90 krökkum við Von Trapp fjölskylduna til að samlíkingin gengi upp og kandídatarnir í hlutverk Kapteins Von Trapp eru full ungir fyrir minn smekk (hér á ég við samstarfsmenn mína að sjálfsögðu!). Auk þess er þessi lélega leikkona rammfölsk, full gömul og gamalreynd til að leika hina óflekkuðu Maríu. Og sama hversu skemmtileg vinnan er og hversu jákvæð ég reyni að vera, koma stöku dagar þegar mig langar mest til að hlaupa upp í næstu snjóbrekku og syngja þennan ó-Maríulega söng:
Do er dofin heyrnartaug,
Re er rest af röddinni,
Mí er mígreni í haus,
Fa er fangi í föndurkrók,
So er Solla sem mig sló,
La er langar í romm í kók,
Tí er tína upp tau og skó,
Byrjum aftur svo á do-o-o-o!
Do, re, mí, fa, so, la, tí, do!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.10.2008 | 22:30
Nógu einföld uppskrift að uppeldi fundin - nú er bara að halda sig við hana
Núú...talar þú íslensku?
Ertu með barnatennur?
Er til brauð með spæjó og tómatsósu?
Þetta eru aðeins örfá dæmi um þær spurningar sem dundu á mér fyrsta daginn í nýju vinnunni. En mín sagði semsagt skilið við PR (Public Relations) consultant framann á miðvikudaginn og hóf nýjan feril sem leiðbeinandi á TH (tómstundaheimili) á fimmtudaginn.
Þið getið ekki ímyndað ykkur hvílíkur léttir það er að takast á við nýjar ögrandi spurningar, allt öðruvísi ábyrgð og hugsandi fólk undir 1,50 á hæð. Það er erfitt að lýsa því hversu góð tilfinning það er að koma heim úr vinnu með brunasár á puttunum eftir að hafa straujað perlur í tonnavís, í stað bólginna fingra eftir tölvutikk allan liðlangan daginn.
Það hefur þó ýmislegt breyst síðan mín var upp á sitt besta í barnapössunar- bransanum, nú heyrir maður t.d. ekki lengur "Allir krakkar" sungið hástöfum heldur heilu Abba-syrpurnar og grafalvarleg samtöl um engilsaxneskar þýðingar eiga sér stað í föndurstofunni:
Gutti 1: Veistu hvað beibí þýðir?"
Gutti 2: Jahá, það þýðir barn!"
Gutti 1: Nehei, það þýðir elskan!"
En megináherslurnar eru samt ennþá þær sömu; vænn slatti af þolinmæði, vel útilátinn skammtur af aga, pláss fyrir útrás og feikinóg af skemmtun. Á meðan ég held mig við þessa "auðveldu" uppskrift að barnauppeldi, ætti allt að ganga smurt fyrir sig, ekki satt? Þetta verður örugglega pís of keik eða bara kökusneið eins og föndurstofuþýðendurnir myndu segja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.10.2008 | 19:14
Ég tek Dr. Phil/Hr. Haarde - leiðina á kreppuna
Jæja, mín var komin með mega-móral yfir að hafa ekki bullað/bloggað neitt í óratíma. Hlýtur að hafa verið einstaklega langdreginn tími fyrir þessa heilu þrjá heimsóknargesti, sem líta hérna inn daglega að meðaltali. Þetta er líka búin að vera langdregin bið hjá mér undanfarið því nú tel ég bara niður dagana þar til ég slútta í djobbinu og get varla beðið eftir að losna. Jafnvel þótt það séu að renna á mig tvær grímur eftir atburði síðustu daga. Kannski ekki alveg besti tíminn til að leggja í atvinnuleit í áskollinni krepputíð. En ég er samt hóflega bjartsýn um framhaldið, í það minnsta svona rétt í blábyrjun Seinna Ástandsins. Kannski neyðist ég til að flytja í bragga og dansa við rússneska dáta (sem koma hingað til að verja okkur fyrir bálreiðum Bretum og fljúgandi fúlum Hollendingum), til að eiga í mig og á, þegar á líður þessa kreppu (sem mér skilst að geti flutt okkur aftur um áratugi). Verst hvað ég hef lítið úthald í kósakkadans og Vodka drykkju.
Ég hef þó líklega verið of kærulaus og værukær því ég brunaði ekki í Bónus um helgina til að hamstra dósamat, né krúsaði upp í Korputorg til að kaupa hillur undir dósamatinn. Ég hef heldur ekki í hyggju að fjárfesta í frystikistu svo ég geti fyllt hana af slátri og öðrum gourmet innmat á tilboði. Ég hef þess í stað ákveðið að Haardera þessa heimskreppu og halda mínu striki þar til hún líður hjá. Ef allt fer á versta veg, get ég sest niður og skrifað bók um kreppuna og hvernig halda skuli kúlinu þegar allt er í krappinu.
Mér skilst nefnilega að svonefndar sjálfshjálparbækur gefi vel í aðra hönd og væntanlega enn meira þegar ástandið er svona svart. Allavega hef ég lært af hinum snjalla spunameistara Dr. Phil, að ekkert vandamál sé nógu ómerkilegt til að ekki sé hægt að skrifa um það bók og hagnast á því. Og ekki sakar að hafa eigin sjónvarpsþátt til að auglýsa bækurnar svo hægt sé að græða meira. Mér ofbýður beinlínis plöggið sem sjónvarpssálinn púllar í þessum mannskemmandi þáttum sínum. Hér eru nokkur dæmi:
Dr. Phil við skilnaðarparið: Viljiði laga sambandið? Ég skrifaði þessa fínu bók sem þið ættuð að kynna ykkur..."
Dr. Phil við feita gaurinn: Viltu léttast? Leyfðu mér að segja þér frá bók sem ég skrifaði..."
Dr. Phil við foreldra "ofvirka" krakkans: Er hann að gera ykkur brjáluð? Þá ættuð þið að kynna ykkur þessa snilldarbók sem ég samdi..."
Og nýjasta bókin hans, sem á pottþétt eftir að slá í gegn hjá Íslendingum eftir atburði síðustu daga; Real life - A crisis may change your life. But it doesn't have to ruin it.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.9.2008 | 20:01
Af þýskri bóndadóttur, íslenskum atvinnuleysingja og tékkneskri loftfimleikastúlku
Já, talandi um vinnuna...þá tók litla músin ég, stórt skref á mánudaginn var. Stórt stökk afturábak munu eflaust margir segja, en framfaraskref finnst mér. Ég er semsagt búin að segja upp starfinu hjá Gyðingnum&Úlfinum (nota þetta dulnefni yfir kompaníið því mér finnst ekki við hæfi að fara nánar út í alla mála- vöxtu á þessum vettvangi). Ef e-r vill pumpa fröken Dulúð til að fá frekari upplýsingar um þetta, skal sá hinn sami gjöra svo vel að bjóða þessum verðandi atvinnuleysingja upp á kaffi og meððí (þarf þó ekki endilega að vera heimalagað og heimabakað, því mýslur eins og ég þiggja hvaða mylsnu sem er).
En aftur að byrjuninni (þetta ætlar að verða nokkuð ruglingslegur pistill enda skrifaður á ókristilegum tíma). Ég var víst á leiðinni að fara að útskýra tölvu- barnapíuna mína en það var semsagt blóðrjóð og búlduleit bóndadóttir úr Bæheimi (eða því sem næst, býr allavega í Þýskalandi), sem bankaði uppá og beiddist gistingar (og hvað eru nú mörg B í þessari setningu?). Stúlkan sú er sérmenntuð í Haushalt-fræðum (húsmæðraskóla upp á íslensku) og útlærð í listinni að vera Hausfrau og hún hefur svo sannarlega sýnt það og sannað í verki. Í þakklætisskyni fyrir húsaskjólið hefur hún séð um húshaldið í heila viku og boðið upp á heita máltíð á hverju kvöldi þegar ég kem heim eftir langan vinnudag. Svo þið getið rétt ímyndað ykkur að hennar verður sárt saknað!
Eins og venjan er þegar erlenda gesti ber að garði, fórum við okkar hefðbundna verslunar- og útsýnishring með bóndadótturina þ.e.; Laugavegur, Perlan, Kringlan og Smáralind. Bláa Lónið, Þingvellir, Gullfoss og Geysir. Að þessu sinni brugðum við ennfremur út af vananum og skelltum okkur í sirkus. Ég hafði ekki farið á slíka sýningu í háa herrans tíð en mín hefur ávallt verið veik fyrir tvílitum sirkustjöldum og öllu því sem fram fer innan þeirra. Ég minnist þess að sem ung stúlka hafi ég jafnvel óskað þess heitast að ég hefði fæðst inn í alvöru sirkusfjölskyldu.
Ég veit ekki alveg hvað það var sem heillaði mig svona en ég býst fastlega við að ég hafi ekki verið ein um að láta mig dreyma um sirkuslíf. Kannski var það flökku- lífernið sem höfðaði svona til mín, sú staðreynd að sirkusar eru afskaplega sjaldgæf sjón á litla Íslandi eða nálægðin við allt þetta hæfileikaríka fólk sem hafði þessi áhrif á mig. Eða kannski voru það bara glitrandi nælon-búningarnir og lyktin af sagi og gömlu poppi sem rugluðu mig svona í ríminu. En nóg um það, nú mörgum árum síðar fór ég semsagt í sirkus aftur og upplifunin var allt önnur get ég sagt ykkur.
Öll umgjörðin, lyktin og búningarnir höfðu reyndar ekkert breyst. Sirkusstjórinn sem kynnti atriðin á illskiljanlegri ensku og upptrekkti trúðurinn sem hamaðist við að kreista fram fágætar brosviprur og lágtempraðar hláturgusur úr feimnum íslenskum áhorfendum voru líka á sínum stað. En ég hafði greinilega breyst því í stað þess að taka andköf af aðdáun þegar loftfimleikafólkið sýndi listir sínar uppi undir stjörnuskreyttum tjaldhimninum, tók ég andköf af hneykslun þegar ég sá hvað loftfimleikastúlkan var ung.
Minnug þess að hafa nýlega lesið um loftfimleikaslys hjá sama sirkusi létti mér því mikið þegar barnið var komið heilt niður og fór að hneigja sig eftir erfiðar æfingar í svimandi hæð. Ekki batnaði þó líðan mín mikið við það, því þegar ég sá tékknesku flugdísina í návígi (sat nánast alveg við hringinn á 2. bekk), fannst mér beinaber holningin á henni og alvarlegt augnaráðið segja; bjargaðu mér héðan!" Og þegar ég tók við popppoka úr hendi sömu píslar í hléinu (hún var bæði með atriði fyrir og eftir hlé en þurfti samt að sinna sölustörfum í pásunni), fannst mér hún muldra út um varalitaðar varirnar; take me home with you, please" þegar hún var í rauninni bara að segja; four hundred and fifty krónur, please."
Skemmst er frá því að segja, að gamli draumurinn minn um að strjúka að heiman og gerast sirkusstúlka, fauk út í veður og vind eftir þessa kvöldstund. Merkilegt hvað maður getur alltaf verið vanþakklátur með það sem maður hefur og fundist grasið grænna alls staðar annars staðar. Í dag þakka ég mínum sæla fyrir að hafa ekki fæðst inn í þýska bóndafjölskyldu með 3.000 svín sem þarf að fóðra og sinna daglega eins og næturgesturinn okkar ólst upp við, eða þá í tékkneska loft- fimleikafjölskyldu sem flakkar á milli landa, æfir, sýnir og leggur líf sitt og limi í hættu nánast allt árið um kring.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.9.2008 | 21:27
Ég er lítil blóthölt mús sem langar að vera öskurapi
Fari það í ljótar límónur #!%&*+#! (já, þetta blót var inspírerað af nýju þemamyndinni minni) Oj mæ God, hvað er eiginlega galt við mig??? Fyrsti dagurinn í endurnýjaða ritgerðarátakinu mínu og ég nota hann til að blogga og blóta um leið. Hérna sit ég í þvílíkum kjöraðstæðum; alein og yfirgefin í uppáhaldsbyggingunni minni Odda, við uppáhaldsborðið mitt með öll mín gögn og enga truflun frá kvölddagskrá sjónvarpsstöðvanna. En hvað gerist? ...Einfaldlega ekki neitt, ég virðist bara ekki geta komið mér að verki.
Hólí sjitt #!%&*+#! hvað mig langar að öskra, orga, bölva og ragna. Læt þó nægja að gera það þögult og pent á prenti í þetta sinn því ekki vil ég vera borin út úr byggingunni í spennitreyju með bundið fyrir fúlan túlann (húsvörðurinn er nefnilega farinn að gera sér grunsamlega margar ferðir framhjá mér, eins og hann gruni að ég muni henda mér gargandi og æpandi á marmaragólfið þá og þegar).
Kannski er þetta akkúrat vandamálið, að ég byrgi svonalagað inni í stað þess að fá útrás fyrir allar þær ópenu hugsanir og þau ljótu orð sem leynast í annars ritstífluðu heilabúi mínu. Kannski mér myndi ganga betur ef ég myndi öskra almennilega svona einu sinni (nokkuð sem ég man ekki eftir að hafa gert síðan ég var krakki, nema ef vera skyldi í tívolítæki á efri árum). Já, eða bara fara með nokkur vel valin blótsyrði hátt og snjallt (það mætti jafnvel gera ofan í fötu inni vaskahúsi ef maður er hræddur um að einhver heyri til).
Ég er bara alls ekki frá því að þetta sé góð hugmynd fyrir bælda og skælda mús eins og mig. Kannski ég byrji bara að æfa mig í kurteisisbindindi inni í kústaskáp í kvöld og færi mig svo yfir í bölv inni á baðherbergi í næstu viku. Ef vel gengur efni ég svo til allsherjar hópleika í næstu sumarbústaðaferð þar sem keppt verður í blótfimi, frekjustökki og öskurhlaupi. Bara spurning um að finna bústað nógu fjarri mannabyggðum! Hver vill gerast svo djarfur og dónalegur að taka þátt í svona tilfinningalegu útrásarátaki með mér? Bæði dannaðar dömur og ljúfmæltir herramenn eru hvattir til að skrá sig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.8.2008 | 21:31
Mín stórustu framtíðarplön
Obbobbobbogojojojfussumsveiogseiseiseiussussussæææogóóó...engin ritgerðarskil að þessu sinni...frestun fram í febrúar.
Öll hughreysting og vorkunnsemi vinsamlega afþökkuð, sömuleiðis skammir og skuldaskellir. Mín sér alfarið um allt slíkt sjálf í einrúmi. Nóg um það, hér verða ekki höfð fleiri orð um þetta íþyngjandi málefni, fyrr en í fyrsta lagi í febrúar. Hér verður einvörðungu fjallað um upplífgandi viðfangsefni eins og heimkomu silfurskottanna okkar, afsakið, silfurstrákanna okkar og velgengni annarra. Feikinóg er nú til af góðum fyrirmyndum, best að fara að nýta sér þær. Var einmitt að horfa á heimildaþátt um J.K. Rowling, mömmu Harry Potter og öskubuskuævintýrið um það hvernig henni tókst að brjóta sér leið úr fátækt og þunglyndi með dugnaði og harðfylgi. Fékk vænan skammt af innblæstri eftir þáttinn. Héðan í frá verður því ekki lengur starað til baka og velt sér upp úr djúpri mistakaforinni heldur bara tekinn forsetafrúarstíllinn á þetta og hugsað sem STÓRAST. Og megi vitsugurnar hirða mig ef ritgerðinni verður ekki skilað í febrúar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.7.2008 | 13:00
R.I.P. - Ritgerð in progress
Jæja, held það sé orðið tímabært að setja out of office á þessa síðu, sem í raun og veru þýðir out of ideas
Er farin í bloggfrí fram í byrjun september, sem reyndar verður nýtt til skrifta á öðrum vettvangi, þ.e. í vinnu og námi. Vegna fjölda áskorana mun ég nú snúa mér alfarið að ritgerðarvinnu næstu vikurnar svo allt annað mun dingla á hakanum hjá minni. Meðal þess sem sett verður á ís frá og með deginum í dag er; þessi síða, fésbókin, msn-ið, tölvupóstlestur og -sendingar, hvers kyns hittingar í heimahúsum, á kaffihúsum, öldurhúsum eða í bíósölum, reglulegur svefn, reglulegir matmálstímar og fleira þess háttar.
Úff...eftir að hafa lesið þetta yfir held ég að ég gæti allt eins verið dauð! En ég get víst ekki ásakað neina aðra en sjálfa mig fyrir að neyðast til að fremja þetta félagslega sjálfsmorð (aftur!). Ég hvet ykkur samt til að fylgjast með væntanlegri endurfæðingu minni í september þ.e.a.s. ef ég og síðan mín verðum ekki bara gleymdar og grafnar þá
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.7.2008 | 18:24
Góð afsökun fyrir bloggleti
Stjörnuspá, 12. júlí
Tvíburar: Þegar hugurinn er að sligast undan ábyrgðinni, er minna pláss fyrir ímyndunaraflið til að leika lausum hala. Þú ert skapandi þegar jafnvægi ríkir milli frelsis og reglna.
Hvað get ég sagt...hef leyft mér alltof mikið frelsi og sett mér of fáar reglur undanfarið. Svo það er ekki nema von að ég sé svona skraufþurr í skapandinni.
Vona að spáin verði betri í næstu viku svo ég geti látið hugann minn hlaupa um halalausan og jafnvel bloggað eitthvað!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar