10.10.2009 | 17:37
Tilraun til að æfa spontanítetrið
Þetta er víst alveg rétt hjá ykkur, gott fólk, mín er ekkert á leiðinni að bjarga heiminum frekar en nokkur annar. Nema ef vera skyldi Obama, sem er nú aldeilis búinn að fá hvatningarverðlaun til þess. En þegar jafnvel stjörnuspáin er hætt að gefa manni hvatningarspark í rassinn hlýtur botninum að vera náð, ekki satt?
Eins og þið flest vitið hefur lítið dregið á daga mína undanfarið og því hefur líka lítið farið fyrir bloggþörfinni. Mín ákvað því að leita uppi innblástur eins og alvöru rithöfundar og gera eitthvað algjörlega spontant. Er nefnilega þeirrar skoðunar að of mikil skipulagning sé hamlandi frekar en hitt. Í gær gafst svo hið kjörna tækifæri til þess að sannreyna þetta. Ég var bara í mestu makindum að horfa á föstudagskastljósið þar sem tveir Höfuð-Hjálmar (höfuðpaurarnir í Hjálmum) voru að spjalla og spila til að plögga útgáfutónleikana sína síðar um kvöldið. Svo held ég bara áfram að glápa á sjónvarpið eða þar til ca. klukkan 23 þegar mín ákveður svona sérdeilis óundirbúið að drífa sig barasta á tónleikana sem áttu að hefjast um miðnættið.
Þar sem klukkan var orðin þetta margt var ég ekkert að suða í vinum um að koma með mér enda sorglega fáir þeirra sem kunna að meta íslenskar Reggae-rímur. Auk þess var það bara partur af hinu nýuppgötvaða spontaníteti mínu að láta slag standa og fara ein.
Þeir sem til þekkja vita náttúrulega að ekki er nauðsynlegt að hafa sig mikið til fyrir Hjálma-tónleika, svo mín skellti bara á sig smá púðri, varasalva og tréperlum og var þá orðin gúdd-tú-gó. Skildi lopapeysuna eftir heima að þessu sinni, vissi af gamalli reynslu að það yrði svitabað á Nasa. Brást þó ekki sem mig grunaði, að ég sá bregða fyrir allnokkrum síðskegglingum í lopapeysum, og það meira að segja niðri í hitakösinni á dansgólfinu.
Milli þess sem ég naut tónlistarinnar, sem var algjör snilld og hverrar krónu virði, spjallaði ég við hörundsdökkan Ísfirðing og sköllóttan Norðmann. Spjallaði er kannski fullmikið sagt, skiptist á eyrnaöskrum við Ísfirðinginn og tók nokkur létt dansspor með honum. Varð þó ekki meira úr því enda dró áfengisleysið verulega úr spontanitetrinu hjá minni. En það held ég að hún föðursystir mín á Ísó hefði verið ánægð með mig ef ég hefði náð mér í Ísfirðing, jafnvel þótt hann væri upprunalega ættleiddur utan úr heimi.
Rakst svo á eldhressan Norsarann fyrir utan en átti ennþá erfiðara með að skilja hann en Ísfirðinginn. Ástæðan var sambland af vindhviðum, þvoglumælgi hans og þeirri staðreynd að hann talaði eingöngu norsku. Ég náði því þó að hann hefði flogið frá Tromsö til Gardemoen og þaðan til Íslands fyrr um daginn til að taka þátt í helgarráðstefnu" ásamt 60 vinnufélögum sínum. Veðrið kvað hann vera skítt heima í Norge líka og verðlagið sömuleiðis.
Ég svaraði sem best ég gat á minni vanþróuðu Skandi-blandísku, enda er spjall við ókunnuga mjög mikilvægur þáttur í því að þjálfa spontanítetrið. En þegar hann bauðst til að láta giftingarhringinn sinn hverfa niðrí bukselommen sinn ef ég kæmi með honum heim á hótel, var spontanitetið mitt allt í einu fokið út í veður og vind. Svo ég hélt bara heim á leið, ein en nokkuð sátt með þessa tilraun mína.
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú hefðir allavega ekki haft erindi sem erfiði ef þú hefðir hringt í djammaumingjana á Sólvallagötu.
Ingólfur (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 18:32
Þú hefðir nú gjarna mátt hafa samband við mig - mér þykja Hjálmar ótrúlega skemmtilegir og hef fjárfest í tónskífum þeirra, öðrum vinum mínum til háðungar. Ég átti reyndar vinnuhelgi en ég hefði samt mætt - hefði einhver viljað hafa mig með!
Karl Ágúst (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 23:22
Líst vel á ,,spontantið" hjá þér, vinkona. En það kom ekki fram hvort þú hefðir tekið þessu kostaboði Norsarans Það er magnað hversu illa karlmenn hafa komið út í bloggskrifum þínum undanfarið, haha
Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 02:20
Hehe, datt nú ekki einu sinni til hugar að bjalla í kvöldsvæfa Sólvallagötu-gengið þótt þið væruð nálægust
Sorry, Kalli minn! Hafði ekki hugmynd um þennan áhuga þinn sem þú hefur greinilega haldið leyndum, líklega af ótta við frekari háðung. Auðvitað hefði ég viljað hafa þig með
Guðrún mín, þeir eiga þetta alveg skilið skal ég segja þér! Eins og ég sagði hvarf spontanítetið mitt þegar ég fékk þetta "kostaboð" og það kom í veg fyrir að ég gerði e-ð spontant eins og að þiggja það. Ég endurtek bara síðustu setninguna svo það fari ekkert á milli mála hvað gerðist: Svo ég hélt bara heim á leið, EIN!
Dulúð Jóns, 12.10.2009 kl. 11:45
Sko mína!
Líst vel á þetta spontaníetur þitt...
ég er hins vegar minnug þess þegar ég fór á tónleika með Hjálmum með þér... þetta var bara lopapeysu dansandi lið.. ekki alveg mitt cup of tea.
Hlakka til að heyra meira af þessari tilraunastarfsemi
og ég tek undir með Guðrúnu... karlmenn, íslenskir eða erlendir eru ekki að koma vel út úr þessu...
(hlakka þó til að heyra jákvæða sögu(r) af þeim :)
Hanna (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 14:24
hvenær er svo næsta tilraun?
Hanna (IP-tala skráð) 21.10.2009 kl. 15:06
Þú ert aldeilis ólm í að heyra jákvæðari karlafarssögur frá mér, Hanna mín. Ertu ekki bara til í að stinga upp á einhverri tilraun fyrir mig?
Dulúð Jóns, 22.10.2009 kl. 14:53
hmmm... mér dettur ekkert í hug.
auðvitað væri gaman að heyra jákvæðar sögur en meira langar mig að heyra meira af spontantíetinu :)
Hanna (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 09:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.