23.8.2009 | 18:00
Smásögustund
Eins og þið flest vitið skellti mín sér á námskeið í skapandi skrifum nú nýlega. Þar sem fátt annað bloggvert hefur borið á daga Dulúðar, hef ég ákveðið að skella inn svosem einu eða tveimur verkefnum úr námskeiðinu. Hér kemur eitt sem samnemendur mínir virtust hafa lítið gagn en meira gaman af. Verkefnið snerist um að ímynda sér að maður væri að gefa út smásagnasafn og við áttum að skrifa umsögn eftir útgefandann aftan á kápuna, gera efnisyfirlit og stutt brot úr hverri sögu.
Vinsamlegast athugið að þrátt fyrir að rithöfundar séu óskammfeilnasta fólk sem um getur og stela óspart hugmyndum úr sínu nánasta umhverfi, er rétt að taka fram að engar persónur eða atburðir hér á eftir eiga sér fyrirmyndir í raunveruleikanum. Hugmyndirnar eru hins vegar samsettar úr mörgum ólíkum áttum og því líklegt að einhverjar stallsystra minna kannist við brotabrot úr eigin lífi.
Titill: Leitin - Að hinum eina rétta
Umsögn útgefanda á kápu: Í Leitinni að hinum eina rétta segir frá stefnumótaraunum fimm ólíkra kvenna á spaugilegan hátt. En þær eiga það sameiginlegt að vera í örvæntingarfullri leit að framtíðarmaka. Sú leit reynist æði vandasöm og leiðir til ýmissa kynlegra uppákoma. Hver saga er sjálfstæð frásögn og gerist á mismunandi stöðum þar sem samskipti kynjanna eiga sér stað í hinu daglega lífi og lýsa misrómantískum tilburðum sem þar fara fram.
Leitin er bæði í senn raunsönn og kaldhæðin lýsing á heimi einhleypra kvenna á þrítugsaldri. Smásögurnar gerast í alíslenskum raunveruleika en sverja sig í ætt við þættina Beðmál í borginni og Dagbækur Bridget Jones, þar sem undirliggjandi er stóra spurningin um það hvort söguhetjurnar finni ástina að lokum.
Leitin er frumraun höfundarins sem stekkur nú ferskur inn á íslenskan bókamarkað, sem hingað til hefur sárlega vantað svokallaðar chick-lit sögur.
Brot úr smásögunum:
Brúðkaupið
Góði Guð, láttu mig ekki grípa brúðarvöndinn svo ég neyðist til að dansa við feita gaurinn í hvítu sportsokkunum sem fékk sokkabandið í augað. Bað Emma í hljóði þegar harðgiftar vinkonur hennar ýttu henni aðeins of ákveðið, að henni fannst, inn í fámennan hóp bólugrafinna unglingsstelpna og fráskildra frænkna á fimmtugsaldri, í þessari 4. brúðkaupsveislu sumarsins.
Djammið
Frumskógur sveittra armkrika og illa þefjandi fóta. Villt dýrahjörðin hreyfist í takt við dúndrandi teknótónlistina. Við drykkjarlind hjarðarinnar er barist um besta stæðið, þar sem mestar líkur eru á að ná augnsambandi við barþjóninn. Hún kemur auga á aðalkarldýrið á dansgólfinu, setur á sig gloss, lagar brjóstaskoruna og brýst í gegnum þvöguna af kvendýrum í misjöfnu ásigkomulagi sem hefur umkringt hann. Hún er á veiðum.
Fésbókin
Hmm...hvaða lúser skyldi nú hafa potað í mig, hugsaði Þóra þegar hún renndi yfir nýjustu feisbúkk statusana, nýkomin heim af djamminu. Nei sko, Danni boy bara dúkkaður upp aftur, hvað skyldi drullusokkurinn sá nú vilja? Hugsaði Þóra með sér, vel þess minnug hve sambandslit þeirra höfðu farið illa með hana. Best að tékka aðeins á prófílnum hans á meðan ég læt renna aðeins af mér. Nei, kommon ég trúi 'essu ekki, hrópaði hún upp yfir sig þegar hún rak augun í myndina af Danna og nýju sambýliskonunni. Druslan er nákvæmlega eins og ég, sumir eru greinilega ekki komnir yfir mann!
Ræktin
Hvað er eiginlega málið með þessar þvengmjóu gelgjur sem fara stífmálaðar í ræktina og svitna ekki einu sinni á rassinum? spurði Signý systur sína andstutt þar sem þær púluðu á stigavélunum í Laugum og gjóuðu augunum á nokkrar menntaskólastelpur sem notuðu hlaupabrettin eins og þær væru að spássera niður Laugarveginn. Til hvers í ósköpunum að borga morðfjár fyrir þetta, hélt Signý áfram í hneykslunartón, en þagnaði snarlega þegar myndarlegur maður með þvottabretti og tannkremsbros gekk framhjá þeim, staðnæmdist hjá menntaskólagelgjunum og gaf sig á tal við þær. Signý strauk svitastokkið hárið frá andlitinu og sneri sér að systur sinni. Heyrðu systa, varstu ekki annars með svitalyktareyði og maskara inni í klefa til að lána mér?
Vinnan
Eigum við að fá okkur drykk saman eftir vinnu, hafði hann spurt. Hún hafði verið í skýjunum allan föstudaginn og ekki komið neinu í verk á skrifstofunni. Loksins hafði hann sýnt henni áhuga þessi álitlegi piparsveinn og vinnufélagi sem hún hafði haft augastað á, síðasta hálfa árið. Henni hafði orðið svo mikið um spurninguna að hún gleymdi að borða hádegismat og lét sig dreyma um sameiginlega framtíð þeirra fyrir framan tölvuskjáinn allt síðdegið þar til hann kom að ná í hana. Nú var kominn laugardagur og hún rumskaði heima hjá sér með svæsna ógleðistilfinningu og höfuðverk frá helvíti. Hún mundi óljóst eftir fyrstu þremur kokteilunum á Vínbarnum og rámaði í niðurlægjandi heimfylgd þar sem hann hafði þurft að halda henni uppréttri á meðan hún jós yfir hann ástarjátningum. Ónei, þvílíkt klúður, hún gæti ekki litið framan í hann í vinnunni á mánudaginn, né nokkurn tímann aftur.
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
hahahaha... þvílíkur snilldarpenni ertu :)
Hanna (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 19:24
Hahahahaha Hví ekki að gerast rithöfundur????
FLottur penni Nína:)
Kv. frá Árósum
Ásta Björk (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 20:54
Thu ert snillingur! Panta aritad eintak af fyrstu bokinni thinni. knus
Eyvinda (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 08:52
Takk fyrir stúlkur mínar, mig grunaði að þið hefðuð húmor fyrir þessu! Auðvitað fáið þið allar árituð eintök af fyrstu bókinni, sama hversu lengi þið þurfið að bíða eftir henni
Dulúð Jóns, 26.8.2009 kl. 18:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.