6.1.2009 | 12:21
Cue in fake snow!
Nú þegar jólaseríurnar taka að hrynja niður af sjálfsdáðum er víst mál að taka niður skrautið og sætta sig við að jólin séu á enda runnin, ekki satt? Líklega bara fyrir bestu þar sem mín er búin að fá sig fullsadda af reyktu kjöti, smákökum og jólaöli, vökunóttum og útsofelsi. Það verður ljúft að fá aftur soðinn fisk, hrökkbrauð og kranavatn, góðan nætursvefn og vinnurútínuna. Of mikið af því góða er alls ekki gott til lengdar. Ofgnótt leti, matar og drykkjar um hátíðarnar jafnaðist þó ekkert á við ofurskammtinn af sjónvarpsglápi sem ég innbyrti líka þessa daga. Og hvílíkt og annað eins sjónvarpsefni, mín er hreinlega orðin gegnsósa af hinni alræmdu amerísku jólarómantík. En þessi árstíð er einmitt sú alvæmnasta í kvikmyndagerð.
Ekki nóg með að ég hafi horft á helling af jólakossaflensi undir mistilteinum og gervijólasnjó, heldur líka fullt af svonefndum jólafjölskyldumyndum sem innihalda a.m.k.; einn útbrunninn grínista í gervi Santa Sveins, eina lélega tölvugrafík af fljúgandi hreindýraflokki, 50 "álfa" á rítalíni, tvo stressaða (og yfirleitt fráskilda) foreldra, eina sykursæta og þrautþjálfaða barnastjörnu og slatta af fyrrnefndum gervisnjó sem hleðst upp í hári leikaranna í lok hverrar myndar.
Meðal þeirra "gæðamynda" sem báru fyrir augu mín á þessari jólavertíð voru; Miracle on 34th Street (flott frumgerð frá 47 og hallærisleg endurgerð frá 94 sem Sir Richard Attenborough lék Sveinka í, sá hlýtur að hafa verið illa staddur fjárhagslega fyrst hann lagðist svona lágt!), Santa Clause 3 (sem verður að teljast mesta ruglsteypan í flokki grínjólamynda það sem af er þessari öld), Home Alone II og IV (Sko, nr. 2 vakti hjá mér nostalgíu en nr. 4 vakti bara hjá mér klígju). Eina fyndna við þá mynd (IV) var lokasetningin þegar fjölskyldan sameinast á ný í hópfaðmlagi og stráksi ýtir á fjarstýringuna sína og segir: Cue in fake snow!" sem sýnir að leikstjórinn hafði húmor fyrir sjálfum sér.
Svo sá ég líka The Holiday tvisvar sinnum, í frum- og endursýningu, en bara af því að Jude Law og Jack Black eru í henni...og talandi um þá tvo, þá væri það fullkominn karlmaður sem hefði lúkkið hans Jude og húmorinn hans Jack! Að lokum voru það Snow Wonder og Snow Globe, tvær skelfilega lélegar myndir sem betur væru gleymdar og grafnar undir tonni af gervisnjó, en geymdar í minningunni.
Eftir þennan óverdós af jólaást og -kærleika, jóla-aulahúmor og -aulahrolli, er gott til þess að hugsa að slíkar myndir verði ekki aftur á vegi mínum, fyrr en í allra fyrsta lagi næsta desember, þ.e.a.s. ef ég slekk ekki bara á sjónvarpinu í jólamánuðinum hér eftirleiðis. En ef ég þekki mína rétt þá verður jólamyndaógleðin gengin yfir að þeim tíma liðnum og ég sest í sófann; maulandi smákökur og þambandi jólaöl, yfir sömu endursýndu jólamyndunum og tárfellandi yfir mistilteinamómentum og snæviþöktum faðmlögum.
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mikið er ég fegin, miðað við þessa lýsingu, að hafa bara séð eina jólajóla mynd... djö hefði ég getað ælt yfir væmninni í the Holiday...
en þu hlýtur að vera gantast með útlit Jude Law og húmor Jack Black?
Hanna (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.