30.11.2008 | 19:13
Það viðrar vel til bloggárása
Mín hefur verið nýlega verið vænd um andvaraleysi í bloggskrifum og algjört aðgerðaleysi í ástandinu sem nú ríkir. Til að svara þessum tilhæfilegu ásökunum, hef ég nú tekið á mig rögg og ákveðið að láta í mér heyra. En þar sem það viðraði ekki vænlega til mótmæla á Austurvelli í gær, varð lítið úr þessum fögru fyrirætlunum. Þannig kom frostnæðingurinn í veg fyrir að mín léti loks verða af því að mæta og hrópa einsatkvæðisorð í takt við eggjunarköll og eggjaköst (það er kannski til marks um hversu napur gærdagurinn var, að eggjakösturum hafði fækkað úr tylft niðrí einn!).
Hins vegar hef ég tekið mig til og sett saman smá bloggávarp til tylftarinnar sem ræður ráðum sínum fyrir innan eggjaklesstar rúðurnar, án þess að ráðfæra sig við þjóðina sem frýs nú úti í kreppukuldanum. Ávarp þetta er innblásið af plötum og smáskífum okkar helstu útrásarvíkinga á sviði tónlistarinnar, dáðadrengjanna í Sigur Rós.
Ávarp til ríkisstjórnarinnar
Árni - Á nýjustu plötu Sigur Rósar er að finna lagið All alright, eitthvað svipað og þú ætlaðir að segja við Darling en mistókst svo herfilega að honum þótti réttast að bíða eftir að það viðraði vel til loftárása á þessa hryðjuverkaþjóð. Skamm, skamm Doktor Dolittle.
Björgvin - Þú minnir mig alltaf á lítinn sveitastrák sem er að reyna að Hoppaípolla með stóru strákunum. Passaðu að það skvettist ekki á fínu, köflóttu skyrtuna þína.
Björn - Með suð í eyrum við spilum endalaust. Þegar þú talar (og bloggar), heyri ég bara endalaust suð.
Einar - Þú ert () = nafnlausa/þögla platan í mínum huga. Farðu nú að láta í þér heyra.
Ingibjörg - Þú færðir mér Von í kosningunum í fyrravor en sú von breyttist í helber Von brigði þetta haustið.
Jóhanna -Takk fyrir að vera þarna á réttum tíma. Þinn tími er svo sannarlega kominn.
Kristján - Þú hefur átt Ágætis byrjun að Grímseyjarferjumálinu undanskildu, svo haltu bara þínu striki.
Geir - Gobbledigook sem átti upphaflega að heita Gobbedígobb, er réttmæt krafa á þínar hendur. Gobbedígobb Don Geir, ríddu nú út í sólarlagið og taktu meðreiðarsvein þinn Sansjó Oddson með þér. Hættu að berjast við vindmyllur þessa lands, þjóðina sem blæs nú byltingarvindum.
Guðlaugur Þór - Þú ert tvímælalaust Glósóli þessa hóps í þínum gljáfægðu leðurskóm og fínu jakkafötum, sérvöldum af heilsusamlegu frúnni, með gelið í hárinu. Ég óttast að þú sért bara upp á punt í heilbrigðisráðuneytinu.
Þorgerður - Hár þitt minnir mig á lagið Heysátan en ég veit að bak við ljósa strýið og furðulega fatavalið leynist þenkjandi kvenskörungur. Ég þoldi hvorki þig né flokkinn þinn en þú komst mér á óvart á borgarafundinum í Háskólabíói, mér fannst þú næstum mannleg. En sem partur af föruneyti á leið til Oz, sem vantar bæði heila, hjarta og þor, verður þú að víkja um stund. Komdu aftur þegar flokkurinn hefur öðlast þessa eiginleika.
Þórunn - Þú áttir að vera Flugufrelsarinn og vernda náttúrulíf landsins en valdir stóriðju í staðinn. Því færðu nú þinn skammt úr eggjabakka þjóðarinnar.
Össur - Þú ert bæði Starálfur og Sæglópur í mínum huga. Þú ert starálfur fyrir útlitið sem minnir óneitanlega á glaðværan, starandi garðdverg með bústnar kinnar og skegg. Og þú ert sæglópur fyrir nýjustu hugðarefni þín, olíulindirnar á sjávarbotni sem þú bindur nú allt þitt traust við. Þrátt fyrir þetta hefur mér alltaf líkað vel við þig og þú átt vísan stað í mínum garði. En kæri minn, þú verður að passa þig að blogga ekki svona mikið á nóttunni, annars hættir fólk að taka mark á þér.
Það getur vel verið að Inní mér syngi vitleysingur en Ríkisstjórn Íslands, þið eruð Svefn-g-englar og við þurfum Ný batterí til að hlaða.
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
hahaha snilld :)
hanna (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 09:08
Snilldarblogg fröken fjölmiðlafræðingur, ég ákvað að gera copy+paste á öll ráðuneytin, vona að þér sé sama.
Ingólfur (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 09:40
Það er ekki að spyrja að því að þú færð alltaf snilldarhugmyndir að bloggum!
Netverjinn (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 04:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.