14.9.2008 | 20:01
Af þýskri bóndadóttur, íslenskum atvinnuleysingja og tékkneskri loftfimleikastúlku
Já, talandi um vinnuna...þá tók litla músin ég, stórt skref á mánudaginn var. Stórt stökk afturábak munu eflaust margir segja, en framfaraskref finnst mér. Ég er semsagt búin að segja upp starfinu hjá Gyðingnum&Úlfinum (nota þetta dulnefni yfir kompaníið því mér finnst ekki við hæfi að fara nánar út í alla mála- vöxtu á þessum vettvangi). Ef e-r vill pumpa fröken Dulúð til að fá frekari upplýsingar um þetta, skal sá hinn sami gjöra svo vel að bjóða þessum verðandi atvinnuleysingja upp á kaffi og meððí (þarf þó ekki endilega að vera heimalagað og heimabakað, því mýslur eins og ég þiggja hvaða mylsnu sem er).
En aftur að byrjuninni (þetta ætlar að verða nokkuð ruglingslegur pistill enda skrifaður á ókristilegum tíma). Ég var víst á leiðinni að fara að útskýra tölvu- barnapíuna mína en það var semsagt blóðrjóð og búlduleit bóndadóttir úr Bæheimi (eða því sem næst, býr allavega í Þýskalandi), sem bankaði uppá og beiddist gistingar (og hvað eru nú mörg B í þessari setningu?). Stúlkan sú er sérmenntuð í Haushalt-fræðum (húsmæðraskóla upp á íslensku) og útlærð í listinni að vera Hausfrau og hún hefur svo sannarlega sýnt það og sannað í verki. Í þakklætisskyni fyrir húsaskjólið hefur hún séð um húshaldið í heila viku og boðið upp á heita máltíð á hverju kvöldi þegar ég kem heim eftir langan vinnudag. Svo þið getið rétt ímyndað ykkur að hennar verður sárt saknað!
Eins og venjan er þegar erlenda gesti ber að garði, fórum við okkar hefðbundna verslunar- og útsýnishring með bóndadótturina þ.e.; Laugavegur, Perlan, Kringlan og Smáralind. Bláa Lónið, Þingvellir, Gullfoss og Geysir. Að þessu sinni brugðum við ennfremur út af vananum og skelltum okkur í sirkus. Ég hafði ekki farið á slíka sýningu í háa herrans tíð en mín hefur ávallt verið veik fyrir tvílitum sirkustjöldum og öllu því sem fram fer innan þeirra. Ég minnist þess að sem ung stúlka hafi ég jafnvel óskað þess heitast að ég hefði fæðst inn í alvöru sirkusfjölskyldu.
Ég veit ekki alveg hvað það var sem heillaði mig svona en ég býst fastlega við að ég hafi ekki verið ein um að láta mig dreyma um sirkuslíf. Kannski var það flökku- lífernið sem höfðaði svona til mín, sú staðreynd að sirkusar eru afskaplega sjaldgæf sjón á litla Íslandi eða nálægðin við allt þetta hæfileikaríka fólk sem hafði þessi áhrif á mig. Eða kannski voru það bara glitrandi nælon-búningarnir og lyktin af sagi og gömlu poppi sem rugluðu mig svona í ríminu. En nóg um það, nú mörgum árum síðar fór ég semsagt í sirkus aftur og upplifunin var allt önnur get ég sagt ykkur.
Öll umgjörðin, lyktin og búningarnir höfðu reyndar ekkert breyst. Sirkusstjórinn sem kynnti atriðin á illskiljanlegri ensku og upptrekkti trúðurinn sem hamaðist við að kreista fram fágætar brosviprur og lágtempraðar hláturgusur úr feimnum íslenskum áhorfendum voru líka á sínum stað. En ég hafði greinilega breyst því í stað þess að taka andköf af aðdáun þegar loftfimleikafólkið sýndi listir sínar uppi undir stjörnuskreyttum tjaldhimninum, tók ég andköf af hneykslun þegar ég sá hvað loftfimleikastúlkan var ung.
Minnug þess að hafa nýlega lesið um loftfimleikaslys hjá sama sirkusi létti mér því mikið þegar barnið var komið heilt niður og fór að hneigja sig eftir erfiðar æfingar í svimandi hæð. Ekki batnaði þó líðan mín mikið við það, því þegar ég sá tékknesku flugdísina í návígi (sat nánast alveg við hringinn á 2. bekk), fannst mér beinaber holningin á henni og alvarlegt augnaráðið segja; bjargaðu mér héðan!" Og þegar ég tók við popppoka úr hendi sömu píslar í hléinu (hún var bæði með atriði fyrir og eftir hlé en þurfti samt að sinna sölustörfum í pásunni), fannst mér hún muldra út um varalitaðar varirnar; take me home with you, please" þegar hún var í rauninni bara að segja; four hundred and fifty krónur, please."
Skemmst er frá því að segja, að gamli draumurinn minn um að strjúka að heiman og gerast sirkusstúlka, fauk út í veður og vind eftir þessa kvöldstund. Merkilegt hvað maður getur alltaf verið vanþakklátur með það sem maður hefur og fundist grasið grænna alls staðar annars staðar. Í dag þakka ég mínum sæla fyrir að hafa ekki fæðst inn í þýska bóndafjölskyldu með 3.000 svín sem þarf að fóðra og sinna daglega eins og næturgesturinn okkar ólst upp við, eða þá í tékkneska loft- fimleikafjölskyldu sem flakkar á milli landa, æfir, sýnir og leggur líf sitt og limi í hættu nánast allt árið um kring.
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Til hamingju með skrefið, hvort sem það var afturábak eða áfram. En mér finnst lélegt af þér að skilja lesendur eftir í lausu lofti og segja ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.
Ingólfur (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 20:14
Jæja, litla mýsla mín. Þú verður greinilega að taka frá kvöld í vikunni fyrir vinahópinn.
Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 21:27
Til hamingju með skrefið, það er ekkert vit í að vera í vinnu sem manni líkar ekki vel við. En ég er sammála síðasta ræðumanni að þú verður að hitta okkur svo við getum tekið þig í 3. gráðu yfirheyrslu
Sólveig (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 11:00
Jahérna hér. nú segiru fréttir. til hamingju með ákvörðunina, viss um að það hafi verið skref í rétta átt. Núna bara bíð ég eftir útskýringum :)
Hanna (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 15:50
Það er greinilegt að forgangsröðunin hjá ykkur er ekki alveg í lagi fyrst að þið sýnduð öll litlu klausunni minni um uppsögnina meiri athygli en aumingja sirkusstelpunni sem þið áttuð að sýna samúð með! En takk samt fyrir kommentin og já, ég mun útskýra þetta allt saman næst þegar við hittumst
Dulúð Jóns, 17.9.2008 kl. 19:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.