29.6.2008 | 21:49
Sumarið er tíminn...til að stela bloggi
Eins og þið hafið kannski tekið eftir, lesendur góðir, hefur bloggunum mínum farið fækkandi með hækkandi sól og bráðnandi hafís, sem hefur fært okkur hvern hvítan bjössann á fætur öðrum. En þar sem ég er ekki mikið fyrir að tjá mig um málefni líðandi stundar (hvað þá liðinnar), auk þess sem búið er að þurrausa úr bloggviskubrunni landans um hina loðnu gesti, ætla ég bara að blaðra um eitthvað annað. Eða ekki ég, heldur þið réttara sagt. Ég hef nefnilega komist að því að bölvuð sólin sem ég dýrkaði ótæpilega um síðustu helgi, hefur brennt fleira en skinnið á mér (sem er nú samt óðum að nálgast aftur sinn náhvíta næpulit eftir vænan skammt af skrifstofukúldri þessa vikuna). Henni tókst sumsé að láta nokkrar dýrmætar heilasellur bræða úr sér í hitanum. Afleiðingin var sú að brunarústin ég, hafði bara ekki minnstu hugmynd um hvað ég ætti að blogga um í minni vikulegu færslu. Þá voru nú góð ráð dýr svo mín brá á það þjóðráð að flakka um bloggsíður vina og vandamanna í von um að aðrir og betri bloggarar hefðu e-ð fram að færa í ládeyðu hásumarsins. Og viti menn, hérna er afraksturinn af því flakki; Sönn, íslensk bloggmál - fyrsti hluti.
-Ath. Bloggritari ber enga ábyrgð á ótrúverðugleika frásagnarinnar sem hér fer á eftir. Hins vegar, ef einhver telur sig kannast við óbreytt orð, endurtekið orðalag eða afritaðar heilar efnisgreinar í þessari færslu, er viðkomandi velkomið að fara í mál við bloggritara fyrir ritstuld. Skýrt skal þó fram tekið að undirrituð á ekki grænan túskilding með gati til að borga skaðabætur sem af slíkum málaferlum kunna að hljótast.
Dulúð Jóns,
sjálfstætt starfandi blogggjörningalistaþjófur,
tímabundið á bótum hjá náttúru Íslands vegna
húð- og heilaskaða af völdum sólbruna.
Sunnudagurinn 29. júní 2008, kl. 15:37
Teddi, flugumferðarstjóri í Keflavík, situr í kaffiteríunni yfir kaffi og þurri kleinu þegar Böddi, kollegi hans, kemur askvaðandi inn. Teddi, sem ekki er alltof hrifinn af þessum montna og háværa samstarfsmanni sínum, forðast að líta upp en það er um seinan því Böddi hefur komið auga á hann í fámennri kaffiteríunni. Flestir hinna nýta kaffitímana í gymminu til að losa um stress en Teddi kýs frekar ró og næði á meðan Böddi virðist sækja í það eitt að raska ró og næði annarra. Það er of dýrt að vera Íslendingur í dag!", kallar hann yfir salinn svo glymur í...En sólin skín og það er sumar. Skítt með 13% verðbólgu, veikasta gjaldmiðil heims, hæsta bensínverð sögunnar og hæstu tölu á vigtinni í manna minnum. Njótum lífs á meðan er!", syngur í Bödda um leið og hann hlammar sér við hliðina á Tedda. Teddi samsinnir treglega því hann veit af fenginni reynslu að það þýðir ekkert að þagga niður í eða grípa frammí fyrir Bödda.
Þú getur aldrei giskað á hvað ég gerði á föstudaginn," segir Böddi með ísmeygilegum tón sem í eyrum Tedda er ávísun á enn eina lygasöguna sem Böddi er alræmdur fyrir. Nei, en ég hef grun um að það hafi verið eitthvað svakalegt," svarar Teddi með kaldhæðni sem fer algjörlega framhjá Bödda eins og venjulega. Ó, já það máttu sko bóka, kallinn minn. Ég leysti nú bara eitt stykki verkfall, það var mér að þakka að samningar náðust. Svo þú mátt alveg þakka mér fyrir launahækkunina." Allt í einu fýkur í Tedda sem veit fullvel að Böddi kom hvergi nálægt samningaviðræðunum og hann ákveður að stinga upp í Bödda Bullshit í eitt skiptið fyrir öll.
Nú já, ég missti nú bara af þessu öllu saman því ég var að fljúga í síðustu viku." Eins og Teddi bjóst við, sperrir Böddi eyrun og græn öfundarslikja færist yfir búlduleitt andlitið þegar hann heyrir minnst á flug. Böddi er nefnilega flugskólafallisti og forfallinn áhugamaður um flug en hefur þurft að láta sér nægja að fylgjast með flugvélum á tölvuskjám í vinnunni. Ég vissi ekki að þú kynnir að fljúga," segir hann með augljósum öfundartón í röddinni. Nei, ekki ég heldur, þetta var jómfrúarflugið hjá mér." Ég ætlaði mér ekki að taka neitt frí en er rosalega ánægður að hafa beðið um að fá frí og var líka kominn með fráhvarfseinkenni því nú er komið meira en ár síðan ég yfirgaf landið síðast," heldur Teddi áfram þegar hann sér að hann hefur náð að fanga athygli Bödda. Ég fór og fékk að prófa að fljúga einni rellu og þetta er alveg fáránlega erfitt, skil ekki hvernig menn sjá hvað í andskotanum þeir eru að gera." Böddi virðist hissa en Teddi gefur honum ekki færi á að spyrja nánar út í þetta.
Við flugum frá Penang í Malasíu til Tashkent í Uzbekistan. Á leiðinni út af hótelinu hittum við royalty! Konungur Malasíu var á leið til fundar á hótelinu og heilsaði upp á mig og flugstjórann þegar hann labbaði fram hjá okkur. Innfæddir gengu að konungnum, kysstu á hönd hans og hneigðu sig djúpt. Konungurinn skiptist á nokkrum orðum við hvern og einn sem uppá hann heilsaði. Hann kom svo að okkur tveimur, þar sem við stóðum eins og fíflar í rósagarði og vissum ekki í hvorn fótinn við áttum að stíga." Og hvað heldurðu að kóngsi hafi sagt við okkur á lýtalausri ensku?" Grillaðir bananar...lostæti!" Þegar hér er komið sögu, sér Teddi að Böddi er orðinn opinmynntur af undrun og karlgreyið virðist vera orðlaus aldrei þessu vant. En þú ætlaðir annars að fara að segja mér frá því hvernig þér tókst að leysa verkfallið, Böddi minn." En Böddi virðist hafa gleymt öllu um það því hann flýtir sér að segjast þurfa að sinna verkefni áður en pásunni ljúki og með það er hann rokinn út. Teddi glottir við og dýfir kleinunni í kaffið sitt.
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Skítt með það þó maður virðist hávær og montinn ég verð bara að segja: Dulúð Jóns: Þú ert snillingur!
Netverjinn (Böddi) (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 23:42
Tek undi orð netverjans, alltaf gaman að lesa pistlana þina dulúð mín. Fái mar vikulegan skammt af ritsnilld þinni, er mar sáttur
Kisulóran (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 09:23
Þú ert snillingur í að beita pennanum
Sólveig (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 10:15
Bloggþjófurinnmikli þakkar kærlega fyrir falleg ummæli sem hann á svo sannarlega ekki skilið í þetta sinn enda ljótt að stela orðum annarra
En kæri Netverji, það var nú alls ekki ætlunin að breyta þér í Bödda Bullshit þó að hann tæki sér þessi skemmtilegu orð þín í munn!
Dulúð Jóns, 1.7.2008 kl. 19:06
Hahaha, snilldarfærsla hjá þér, hlakka til næstu færslu!! :)
Garðar (IP-tala skráð) 5.7.2008 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.