22.6.2008 | 21:40
Helgin ónýt vegna veðurs
Jæja, skynsamlega helgarplanið mitt með fullt af fögrum fyrirheitum fór í vaskinn hjá mér vegna veðurs svo ég blogga bara, fyrst helgin er ónýt hvort eð er. Þannig var mál með vexti að ég var búin að ráðgera smekkfulla helgi af ritgerðarvinnu og inniveru frá morgni til kvölds. Ekki varð mér nú að eigingjarnri ósk minni um rigningarhelgi, heldur ákváðu veðurguðirnir að refsa heimtufreku stúlku(ó)kindinni sem í byrjun helgar leit út eins og ósoðin úthafsrækja, grá og guggin, en endaði hana sem vel grilluð risarækja, rauð og þrútin.
Helgin hófst á því að mín þurfti að vinna frameftir og var því ekki komin heim til sín fyrr en um níu á föstudagskvöldið. Í stað þess að vera skynsöm stúlka og fara snemma í háttinn eftir erfiði dagsins, þurfti mín að vaka þar til þreytan bar óskynsemina yfirliði. Afleiðingin var sú að litla, rækjan lata svaf fram eftir á laugardegi í stað þess að taka daginn snemma. Þegar svo litla rækjan lata var loks búin að fæða sig og klæða, bárust henni sendiboð um símalínu þess efnis að nú skyldi haldið í labbitúr í góða veðrinu. Gallabuxnafjölskyldan (2/3 einkennisklæddir meðlimir í þetta sinn) birtist svo í göngugírnum og geystist um gettóið með rækjuna í eftirdragi.
Að göngu lokinni settist rækjan að íssnæðingi í sólinni með gestum sínum. Þegar þeir kvöddu, var kominn tími fyrir litlu lötu rækjuna til að svamla aðeins í baði, fæða sig og klæða á ný og halda í heimsókn í annað gettó. Það var svo þreytt en ánægð rækja sem skreið undir sængina sína um tvöleitið aðfaranótt hvíldardagsins. Hann var svo haldinn hátíðlegur á viðeigandi hátt, þ.e. litla rækjan lata brá sér í Guðshús að morgni dags og hvíldi sig svo. Guðinn sem þar er til húsa, bænheyrði hana ekki um rigningu, ekki frekar en veðurguðirnir. Síðdegis sama dag skall þó á haglkennt skúraveður og sjaldgæfur þrumugnýr annars staðar á Suðurlandi, svo rækjuna fór að gruna að æðri máttarvöld hefðu bara misreiknað sig örlítið og misst marks.
En þar sem svona óheppilega fór með veður, neyddist litla rækjan lata til að leggjast út í sólina og láta hana grilla sig á meðan hún grillaði marinerað svín á snilldarlega rafmagnsgrillinu úr Europris. Þegar rækjan var búin að sporðrenna svíninu þurfti hún að marinera sjálfa sig með sólarvörn og leggjast á meltuna. Eftir að hún var búin að velta sér margoft á allar hliðar til að ná fram jöfnum lit, var kominn tími til að færa sig inn enda sól farin að lækka á lofti. Ekki báru Nivea-marineringin né bylturnar tilætlaðan árangur því litla rækjan lata fer rauðflekkótt og aum í háttinn í kvöld. Hún hefði betur haldið sig innandyra eins og planið var þessa helgina.
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir göngutúrinn og veitingarnar á laugardag. Ég hefði reyndar viljað sjá innskot af steypibaðinu sem einn af gestum þínum þurfti að þola á meðan við vorum að gúffa í okkur ísnum en það verður væntanlega útlistað betur með leikrænum tilburðum næst þegar hópurinn hittist???
Ingólfur (IP-tala skráð) 22.6.2008 kl. 22:25
Það er spáð hagstæðu inniveðri næstu helgi, tekur hana bara með trompi þá Þú átt alla mína samúð, alveg ömurlegt að þurfa að vinna í ritgerð yfir sumartímann.
Sólveig (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 20:35
Er þá útilokað að samviskubit litlu rauðu rækjunnar leyfi henni að fara í göngutúr með Menngó ef veðrið verður gott í nánustu framtíð?
Aldan (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 02:16
Takk sömuleiðis fyrir göngutúrinn og samúðina. Jú, ég held að samviskan leyfi alveg annan skreppitúr í nánustu framtíð
Dulúð Jóns, 29.6.2008 kl. 22:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.