Langþráða helgar"fríið" mitt

Eftir að ég byrjaði í nýju vinnunni hef ég litlu öðru getað sinnt utan hennar, hvað þá blogginu. Héðan í frá verður því að öllum líkindum aðeins um vikulegar færslur að ræða. En það er auðvitað bara jákvætt að hafa nóg að gera og ég hef tekið eftir því að aukið annríki eykur skipulagshæfni sem er jú bara af hinu góða (sérlega gott í mínu tilfelli)! Verra er að skipulagningaræðið tekur sér ekki frí um helgar. Hér er dæmi:

Laugardagur:

  • Kl. 9:00 - 10:00 Drattast á lappir, svolgra blekað kaffi og vinna upp blaðalestur síðustu viku.
  • Kl. 10:00 - 10:15 Gera dauðaleit að pollagalla, vinnuhönskum og klóru.
  • Kl. 10:15 - 12:00 Liggja á hnjánum í moldarbeði, reyta arfa í grenjandi rigningu og hlusta á nágrannana sem fyrirskipuðu þennan hreinsunardag, rífast um hvar lóðamörkin liggja.
  • Kl. 12:00 - 12:30 Hita og sötra súpu í hádegismat sem nær þó ekki að deyfa hrollinn eftir að pollagallinn blotnaði í gegn.
  • Kl. 12:30 - 13:00 Brjóta heilann um hvort maður eigi að taka á honum stóra sínum, þurrka pollagallann með hárþurrku, klæða sig aftur í hann, troða sér í kvennahlaupsbol utanyfir og fara svo í hlaupið.
  • Kl. 13:05 Ákvörðun tekin um að halda sig heima þar sem rauði pollagallinn harmónerar skelfilega með fjólubláa bolnum.
  • Kl. 13:05 - 16:10 Þrífa íbúðina (í kvennahlaupsbolnum því það er jú annars konar kvennahreyfing. 3 tímar? Já, hún var orðin ógeðsleg!).
  • Kl. 16:10 - 17:30 Dröslast í helgarinnkaup með klesst hár og angandi af WC-hreinsi.
  • Kl. 17:30 - 19:00 Slappa af (sofnað yfir tvöföldum úrslitaþætti af Survivor).
  • Kl. 19:03 Bölva yfir að hafa dottað yfir lokaræðunum hjá svikulustu þáttakendum Survivor í áraraðir!
  • Kl. 19:03 - 19:30 Malla einfaldan supper eftir erfiði dagsins.
  • Kl. 19:30 - 20:45 Gera dauðaleit að skárra sjónvarpsefni en EM.
  • Kl. 20:45 - 21:00 Skipuleggja morgundaginn í Exel-skjali.
  • Kl. 21:00 - 22:00 Horfa á nýja, breska sápuóperu í stað þess að skrifa ritgerðina (rannsóknarvinna í fullum gangi sko!).
  • Kl. 22:00 - 22:40 Liggja í baði og mýkja harðsperrur dagsins.
  • Kl. 22:45 Stefnumót við Óla lokkaprúða-og-vöðvastælta-Lokbrá í Draumalandinu.

Sunnudagur:

  • Kl. 10:30 - 11:00 Koma sér á lappir sem enn eru með aumingjastæla eftir hnjábeygjur gærdagsins í beðunum (já, maður er víst enginn unglingur lengur).
  • 11:00 - 12:00 Bröns og uppvaskerí.
  • 12:00 - 15:00 Ritgerðast (eða a.m.k. blaðað í tveimur heimildarbókum sem ég leysti nýlega úr tollinum á meðan ég horfði á talentlausa - tríóið; Sharon Osbourne, David Hasselhoff og Pierce Morgan dæma ennþá hæfileikalausari þátttakendur í America's got talent).
  • 15:00 - 17:00 Mæta í barnaafmæli hjá Elvu vinkonu og Emelíu krúsidúllu og gúffa í sig gúmmulaði.
  • 17:00 - 18:00 Jafna sig á gúffinu og naga sig í handarbökin fyrir að hafa afþakkað labbitúr með gallabuxnafjölskyldunni.
  • 18:00 - 20:00 Horfa á leikinn (nei, ekki Þýskaland/Pólland í fúsball heldur Ísland/Makedónía í handball).
  • 18:00 - 20:00 Blogga (til að þurfa ekki að horfa á afhroðið) á meðan þulirnir þusa eitthvað um að við getum huggað okkur við að svona slæmur leikur sé afar sjaldgæfur hjá okkar mönnum.
  • 20:00 - 21:30 Fréttir, veður og Jane Eyre (rannsóknarvinnan aftur sko! Það er nefnilega hægt að rekja sápuóperur aftur til gotneskra skáldsagna á borð við þetta meistaraverk Charlotte Brontë).
  • 21:30 - 22:00 Skipuleggja næstu viku í Exel.
  • 22:00 - 23:00 Strauja skrifstofudressið fyrir morgundaginn, lesa og teygja á harðsperrileggjunum fram að háttatíma.
  • 23:15 - 7:30 Annað stefnumótið með Óla mínum Lokbrá (í nótt er ég búin að panta dinner í París, snjósleðaferð í Lapplandi, leikhús á Broadway og útsýnisferð í London Eye)!

Svo þið sjáið að ég er orðin helvíti skipulögð. Nú á bara eftir að koma í ljós hvort það sé blessun eða bölvunWink

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú misstir af þrusu góðum göngutúr. Enduðum svo reyndar á að labba nær heimabyggð en til stóð vegna áhugaleysis þeirra sem var boðið að koma með og tókum hring um Gróttu. Þú manst bara að mæta næst þegar verður blásið í göngulúðrana.

Herra Gallabuxur (IP-tala skráð) 8.6.2008 kl. 22:43

2 identicon

hvurslags hreinsunardagur er þetta.. að rífa sig á fætur eldsnemma um helgi... dónaskapurinn ;) Garðhreinsunardagurinn í minni blokk hafði verið skipulagður fimmtudaginn 22. maí kl. 19:00 til 20:00  - eða þangað til að ég benti á að á sömu stundu mundu júróbandið stíga á svið ..... sem betur fer var þeim plönum breytt - það hefði verið bölvað tillitsleysi að breyta ekki tímanum :D

Hanna (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 09:17

3 Smámynd: Dulúð Jóns

Yes, Sir Jeans! Ég skal reyna að marséra með ykkur næst þegar þið blásið í göngulúðrana. Ég mæti þá í gallahosum svo við verðum öll í stíl

Já, Hanna...sama segi ég, þetta var bölvaður dónaskapur! En hefði ég þurft að skríða úti í garði á Júróvisjónkvöldi, hefði nágrönnum mínum fækkað, hverjum á fætur öðrum á e-n óskiljanlegan hátt, næstu daga og vikur á eftir

Dulúð Jóns, 10.6.2008 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband