Slúðurkerlingunni sem ofbauð svæsnin

Við mæðgurnar fáum stöku sinnum gefins bunka af þýskum slúðurblöðum sem við lesum af áfergju til að viðhalda málfærninni, já og líka til að svala forvitninni um fræga fólkið. Ég get fúslega viðurkennt að ég hef lúmskt gaman af því og ég veit að ég er svo sannarlega ekki ein um það. En í þetta sinn blöskraði minni þó algjörlega við lesturinn! Ekki nóg með að Séð og heyrt er eins og ABC eða Æskan við hlið þýskra kollega sinna, heldur hefur svæsni þeirra og lágkúra aldrei verið jafn áberandi og nú. Ósjaldan heyrir maður kvartað og kveinað undan bresku slúðurpressunni en trúið mér, gula pressan í Germaníu er tífalt verri en sú í Brittaníu! Hér koma nokkur dæmi um það sem fór helst fyrir litla, hlutlausa blaðamennskubrjóstið mitt en dæmi nú hver fyrir sig, því kannski er ég bara of vammlaus til að skilja svona fréttaflutning.

Das Neue Blatt - 6. febrúar 2008:

Hér er grein um konu sem er þekktur grínisti í Þýskalandi og glímir við krabbamein og fyrirsögnin er: En sorglegt! Henni hrakar. Ekki skánar það svo í greininni sjálfri því þar er m.a. að finna þessa setningu; „Hin áður svo skemmtilega Gaby Köster mun ekki framkalla hlátur okkar lengi í viðbót því henni hrakar nú aftur." Smekklaust?

Á næstu opnu er svo viðtal við Uschi Glas sem er mjög þekkt leikkona í Þýskalandi sem skildi við ótrúan eiginmann sinn eftir 22 ára hjónaband. Fyrirsögnin: Þrátt fyrir nýja ást getur hún ekki fyrirgefið sínum fyrrverandi. Þegar greinin er skoðuð, kemur þetta hins vegar hvergi fram í spurningum blaðamanns né svörum hennar. Furðulegt?

Das Neue Blatt - 2. apríl 2008:

Fyrirsögn: Hvernig gat Guð leyft svona nokkru að gerast? Hér er grein um hræðilegan atburð þegar kona lést á hraðbraut eftir að e-r henti 6 kílóa trékubb ofan af brú á bíl sem hún var í ásamt manni sínum og börnum. Með greininni er birt passamynd af konunni, mynd af brúnni, blóðugum trjákubbnum og krossinum á leiði hennar þar sem lesa má fullt nafn hennar. Í greininni er svo nöfnum eiginmannsins og barnanna breytt en maður spyr sig bara til hvers þegar búið er að birta mynd og nafn fórnarlambsins. Siðlaust?   

Fyrirsögn: Getur hún fyrirgefið manni sínum feilsporið? Hér eru flennistórar myndir af Heidi Klum ofurfyrirsætu og Seal eiginmanni hennar þar sem hann er að skammast í papparössum fyrir utan veitingastað. Greinin fjallar svo um það hvaða skýringar blaðamaðurinn býr til á þessu reiðiskasti hans. Sterklega er gefið í skyn að Seal hafi haldið framhjá með því að nota orðið Ausrutscher eða feilspor í fyrirsögninni, sem getur líka þýtt bræðiskast. Tvírætt?

Fyrirsögn: Sorgin ræður ennþá lífi hennar. Hér er er rætt við ekkju þýsks leikara sem lést fyrir þremur árum. Þetta er greinilega símaviðtal þar sem ekkjan vill sem minnst segja og blaðamaðurinn þarf að fylla í eyðurnar. Nokkurn veginn svona er þetta kostulega viðtal í beinni þýðingu:

Blaðamaður: „Hvernig líður þér að lifa með minningunum?"

Ekkjan: „Æ, hvernig ætti mér að líða? Tilfinningar mínar eru mitt einkamál. Mál sem kemur aðeins mér, Haraldi (látni eiginmaðurinn) og syni mínum við."

Blaðamaður: Mál sem kemur aðeins henni og Haraldi við - hvað meinar hún með því? „Talar hún kannski við látinn eiginmann sinn?" Rödd hennar titrar þegar hún svarar. Það hljómar eins og hún reyni að róa sig niður. Hikandi kemur setningin hennar:

Ekkjan: „Ég vil helst ekki ræða um þetta við neinn. Þetta er eitthvað sem maður ræðir bara við..."

Blaðamaður: Síðan bregst tungan henni. Það hljómar eins og hún kyngi tárunum. Það eru þrjú ár síðan - en þó svo stutt.

Eftir að ekkjan hefur greinilega lagt á (eða skellt öllu heldur), heldur blaðamaðurinn áfram og rifjar upp slæmar stundir í hjónabandi þeirra og klikkir svo út með þessari málsgrein:

Blaðamaður: Þá sem nú, talar hún ekki um tilfinningar sínar. Enn í dag ber hún sorg sína ein. „Ætli hún heimsæki gröf mannsins síns?" Það kemur þögn á línuna eftir þessa spurningu, þögn sem segir allt sem segja þarf um sorg hennar. Fáránlegt?

Jæja, hvað segiði þá? Ætti ég kannski að sækja um starf hjá Das Neue Blatt?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nýblaðið myndi örugglega græða mikið á því að fá þig í sinn hóp. Spurning hvað þú myndir græða mikið á að vera í þeim hópi aftur á móti...

 P.s. Ég sé að kvartanir mínar hafa einhverju skilað - nú þarf ég bara að leggja saman þrjá og fjóra. 

Netverjinn (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 00:32

2 identicon

Slúðurpressan er oft ansi óvægin, sá að það var verið að gagnrýna eitt barnabarn Bretadrottningar fyrir að vera í bíkini þar sem hún er of feit, svo fylgdi með að stelpan notar stærð 10 þannig að hún er greinilega í kjörþyngd, bara ekki horuð!!!

Sólveig (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 11:49

3 identicon

Já þetta er nú svona einum of af hinu góða en það sorglega er að þetta er það sem selur, fólk vill velta sér upp úr einkalífi annarra og því meira krassandi því betra!! Ég verð samt að segja að mér fannst þetta bara frekar ósmekklegt og greinilegt að siðareglur þýskra blaðamanna eru ekki hátt skrifaðar!!!

 By the way, þar sem Kalli er ávallt að tala um þessi reiknidæmi þá hugsa ég að það sé rétt hjá honum að kvartanir hafa virkað, ég fékk hið skemmtilega dæmi núna 8+0!! :)

Garðar (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 23:47

4 Smámynd: Dulúð Jóns

Nákvæmlega! Svo eru þetta líka skelfilega tvíræð skilaboð fyrir ungar stúlkur því þegar farið er að setja út á stærð tíu, reyna þær öll ráð til að nálgast stærð núll og þegar því er náð eru þær aftur gagnrýndar og ásakaðar um anorexíu! Mjög sorgleg þróun, altso.

Mikið samgleðst ég ykkur, drengir mínir, að ráða við samlagningu talna undir tíu

Dulúð Jóns, 17.5.2008 kl. 18:32

5 identicon

Þetta voru svo sannarlega fáranleg, smekklaus og á tíðum siðlaus dæmi sem þú komst með. En mér sýnist þó á öllu að blaðamenn taki nú a.m.k. viðtöl við fólkið sem um er fjallað, en það gera bandarísku slúðurblöðin ekki. Oft ansi kostulegt að sjá hvernig þeir ljúga þar án þess að skammast sín eða reyna að fela það.

P.S. Ég þurfti að leggja saman 6 og 15!

Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband