6.5.2008 | 13:22
Ótti tómatsins
Nú er mín barasta búin að fara í þrjú starfsviðtöl á stuttum tíma sem gengu öll þokkalega svona miðað við að ég hef ekki þurft að standa í slíku streði sl. 7 ár. Ég fór nefnilega að gamaldags ráðleggingum múttu minnar sem stakk upp á að ég skyldi nú prófa að póstleggja skriflega umsókn í stað þess að andvarpa daglega yfir tölvupóstinum mínum sem undanfarinn mánuð hefur innihaldið nei-svör, kannski seinna, eða það sem verst er; engin svör við umsóknum mínum. Þetta virkaði semsagt (já, mæður vita víst best) og ég komst að því að það borgar sig að hugsa út fyrir boxið eða a.m.k. út fyrir outboxið!
En nú er komið BIG babb í bátinn því nú tekur biðtíminn við. Tíminn sem það tekur vinnuveitendurna að fara yfir aðrar umsóknir, vega og meta og ákveða hver sé hæfastur. Þetta getur tekið allt upp í tvær vikur eftir því sem mér er sagt og á meðan get ég varla fúnkerað fyrir stressi og var ég nú á barmi taugaáfalls fyrir! Ég hef enga eirð í mér til að setjast niður og skrifa ritgerðarkafla eins og ég ætti að vera að gera, hvað þá annað. Mér líður eins og ég sé einn af þessum tómötum hér fyrir ofan en myndin kallast einmitt því skáldlega nafni Tómatar í rökkri. Ég er viss um að einmitt svona líður tómötum sem eru innilokaðir í dimmum ísskáp. Í biðstöðu upp á von og óvon um að e-r muni nú nota þá bráðum í salsa, sósu eða salat á meðan þeir eru ferskir eða hvort þeir gleymist í grænmetisskúffunni þar til þeir eru orðnir of maukkenndir og ofþroskaðir til að nokkur vilji þá.
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mikið búið að gerast síðan ég spurði þig síðast greinilega. Bara jákvætt... Krossleggum fingur og leggjumst á bæn... ;)
Hanna (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 16:19
Vonum það besta, þú færð pottþétt vinnu, vilja allir fá svona duglega og vel gefna stúlku til liðs við sig!! Og ef ekki, þá eru þeir bara asnar sem ekki vita hvers þeir eru að fara á mis við!!
Kannski ég ætti að halda lærdómnum áfram og hætta að flakka um á bloggsíðum því annars gætum við bæði orðið atvinnulaus í sumar!!
Garðar (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 19:02
Elskan mín, þú færð þér bara nokkrar töflur af Zoloft eða Prosak og þá verðuru silkislök og fín
Sólveig (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 08:28
Kæra Hanna, þó ég sé sjálfhverf þá geri ég nú ekki kröfur um að fólk stofni bænahring fyrir mig af þessu tilefni. En takk samt!
Kæri Garðar, ég kannast ekki við þessa stúlku sem þú ert að lýsa en við skulum vona að asnarnir sjái það sama og þú! Og trúðu mér, það er engin hætta á að þú verðir atvinnulaus því fyrir utan að vera í hópi eftirsóttustu starfsstéttar landsins, ertu bæði vel gefinn og duglegur
Kæra Sólveig, ég held þú hafir hitt naglann á höfuðið! Geturðu reddað svona læknadópi fyrir mig?
Dulúð Jóns, 7.5.2008 kl. 12:45
Að leita að vinnu er ferlega leiðinlegt ferli og biðin enn verri. En ekki láta það fara með taugarnar, þetta reddast allt saman. Er þaggi? ;)
Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 20:38
Áður en ég kommenta þá verð ég að leggja fram formlega kvörtun yfir því að þurfa að fara í stærðfræðipróf í hvert sinn sem ég ætla að leggja orð í belg hér. Þetta er í lagi þegar spurt er "hver er summan af 1 og 6" en núna er ég látinn gefa upp summu af átta og 12! Til allrar guðs lukku er reiknivél hér í tölvunni!
En sumsé yfir að atvinnuviðtölum. Ég er snillingur í svoleiðis og get hér lagt fram nokkra góða punkta.
Atvinnurekandi: Ertu skipulögð? ---þetta er klassísk spurning. Í guðanna bænum ekki segja nei! Rétt svar: Já, ég er mjög skipulögð enda þó borðið mitt sé oft merki um skipulagða óreiðu, ég tek þó alltaf til á því í lok dags (gott að bæta við að það sé gert á eigin kostnað og yfirvinna ekki rukkuð). Ég er þó líka sveigjanleg þegar kemur að skipulaginu og á auðvelt með að taka að mér ný verkefni.
Atvinnurekandi: Ertu stundvís? ---þetta kann að hljóma sakleysisleg spurning og að eina rétta svarið sé "já". En það er aldeilis ekki svo! Rétt svar: Já, ég er mjög stundvís, mæti alltaf á réttum tíma í vinnu og á fundi. Ég hef þó þolinmæði með þeim sem mæta ekki alltaf á réttum tíma (skapar ekki móral á vinnustað þegar Dísa Drollari kemur alltaf of seint) og ef aðrir eru seinir á fundi lít ég á það sem tækifæri til að undirbúa mig enn betur. -Mundu áherslu á orðið ENN, þar með leggurðu áherslu á að þú sért auðvitað undirbúin undir fundinn.
Ég hef mörg fleiri dæmi en þetta er orðið svo svakalega langt komment. Bjóddu mér bara á kaffihús, ég skal segja þér fleiri yfir rótsterku kaffi. :)
Netverjinn (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 08:25
okey okey... tökum þetta út með að legjast á bæn og bara krossleggja fingur :)
Ég veit það fyrir víst að þetta mun allt saman koma í ljós og ég veit að þu ert dugnaðarmanneskja og þessum atvinnurekendum væri fengur að þér.
er einnig sammála síðata ræðumanni. hélt ég væri laus við stærðfræðina þegar ég útskrifaðist úr menntó....
Hanna (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 09:59
Já, Guðrún er þaggi bara, verður maður ekki bara að halda í vonina og slaka á taugunum? By the way, ég bíð ennþá eftir gleðipillum frá þér Sólveig!
Takk fyrir góð tips kæri Netverji en ég fékk enga af þessum spurningum og var ég þó búin að búa mig undir þær. Hafði samt ekki vit á að fara svona djúpt í sálfræðina að baki svörunum svo ef þessi viðtöl hafa klikkað hjá mér, mun ég örugglega bjóða þér í atvinnuviðtal...ööh nei, ég meina á kaffihús.
Varðandi stærðfræðina gott fólk, get ég sagt að ég er dauðslifandi fegin að eigandi þessarar síðu er aldrei beðinn um að ofreyna heilann á þennan hátt. Enda kæmist ég þá varla inn í kerfið til að kommenta!
Dulúð Jóns, 8.5.2008 kl. 23:33
Ég skal kyrja fyrir þér, ég lofa samt engu með útkomuna þar sem ég er algjör nýgræðingur. Ég vona að þú fáir ekki óvart djobb á garðyrkjubúi í Hveragerði því ég gæti óvart farið að hugsa um grænmeti í miðri kyrjun eftir allt þetta tal um tómata hér að ofan! Krossum putta!
Aldan (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 07:41
sorry ég er greinilega ekki að standa mig í stykkinu... fer í heimsókn í vinnuna í dag og ég skal kíkja hvort ég sjái eitthvað gleðilegt í lyfjaskápnum þar
Sólveig (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 10:08
Æi, takk Aldan mín, en ég er þegar búin að afþakka allar lútherskar bænir og get því ekki gert upp á milli trúarbragða svo þú skalt ekkert vera að eyða orku þinni og söngrödd í mig. Annars hefði það nú örugglega ekki skaðað að hugsa um grænmeti því starf á garðyrkjubúi er þó mun skárra en ekkert starf. Ég er reyndar alveg viss um að maður fyllist stóískri ró af því að rækta grænmeti og dýfa fingrunum í ferska mold. Kannski ætti ég bara að hætta að eltast við draumadjobbið og gerast garðyrkjubóndi!
Takk Sólveig en ég held mér nægi bara smá skammtur af þinni smitandi og glaðværu skapgerð
Dulúð Jóns, 10.5.2008 kl. 17:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.