25.3.2008 | 11:36
Loksins, loksins, stóra tækifærið mitt!
Ég hef ákveðið að gefa skít í kreppuna á Íslandi og flytjast til Bretlands þar sem stærsta tækifæri lífs míns bíður mín. Ég vissi reyndar alltaf að ég væri sérstök og að mín biði eitthvað meira og merkilegra en strögglið hérna heima en núna hef ég fengið staðfestingu á því. Í ljós hefur komið að fjarskyldur ættingi minn í Ghana, Mr. Earl Jonsdottir, hefur geispað golunni (blessuð sé minning hans) og sérlegur fjármálaráðgjafi hans, Mr. Brant Bishop var svo elskulegur að reyna að hafa upp á mér, mögulega eina eftirlifandi ættingja hans. Aumingja maðurinn hafði mikið fyrir þessu og segist m.a. hafa reynt að ná sambandi við mig með ýmsum leiðum:
"Please pardon me as I am aware that this is not a conventional way of relaying such an important massage such as this. I did try without success to locate either your contact address or fax number and as such, I resorted in contacting you via email."
En grey maðurinn gat ómögulega vitað að ég á ekki fax tæki og hvar ég bý en þetta leiðréttist auðvitað allt saman um leið og ég svara honum og gef honum allar upplýsingar um mig. Þessi kurteisi maður ætlar nefnilega að hjálpa mér að nálgast auðæfi hins látna ættingja míns sem nema um 5.3 millj. dollara (ekki það að upphæðin skipti mig neinu máli, ég er bara glöð að geta uppfyllt óskir hins heitna) og það eina sem ég þarf að gera er að svara nokkrum spurningum:
1. Are you aware of your relation born on the 2nd of February 1951, who bears your surname whose last known contact address was Accra Ghana, in Western Africa? Reyndar ekki en ég vissi alltaf innst inni að ég hefði einhverjar afrískar rætur í mér því mig langar alltaf til að dansa og hreyfa mig þegar ég heyri afríska tónlist. Mig grunaði líka alltaf að eftirnafnið Jónsdóttir hefði dýpri merkingu en bara dóttir Jóns, ég meina það hlýtur að þýða e-ð mjög merkilegt í Vestur-Afríku. Verst hvað maðurinn dó ungur, ég vona bara að það sé ekki e-ð ættgengt.
2. Are you aware of any investment of considerable value made by such a person at the Investment Banking Division of {STANDARD CHARTERED BANK GROUP}? Nei, en Guði sé lof að ættingi minn hafði betra viðskiptavit en ég. Ég ætla að reyna að halda hans góða fordæmi áfram og fjárfesta vel í framtíðinni með aðstoð Mr. Bishop.
3. Can you confirm your willingness to accept this inheritance if you are legally and legitimately appointed? Oh, yes indeed! Vona bara að það komi ekki fleiri fjarskyldir ættingjar í ljós sem gæti nú verið raunin þar sem bréfið var sent á Háskólafjölpóstinn. En það eru nú bara smávægileg mistök hjá herra Bishop sem gat auðvitað ekki vitað að Jónsdóttir er mjög algengt eftirnafn á Íslandi. En ég verð að sjálfsögðu sú fyrsta til að hafa samband og fullvissa hann um að ég sé eini, rétti erfinginn.
4. Would you agree to donate part of this inheritance to charity if you are officially approved to stand as the inheritor? Að sjálfsögðu, hver vill ekki gefa til góðgerðamála. Ég tala nú ekki um manneskju eins og mig sem á ættir að rekja til Afríku þar sem neyðin er stærst. Ég mun jafnvel borga herra Bishop aukaumboðslaun fyrir að sjá um þetta fyrir mig og fyrir alla hans vinnu í mína þágu.
Jæja, best að fara að senda svarbréfið, bóka flugmiðann, selja allar eigur mínar og senda Mr. Bishop andvirðið svo hann geti undirbúið komu mína. Sjáumst síðar þegar ég er orðin milljarðamæringur og get látið senda eftir ykkur í einkaþotunni minni sem ég ætla að skíra Bishop Earl í höfuðið á velgjörðamönnum mínum!
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég myndi fara varlega í að trúa þessu! Ég lenti einu sinni í svipuðu í vinnunni þar sem mér var tjáð með tölvupósti að ég hefði unnið í lottói einhvern 80 miljón evrur, fékk þetta sent í vinnuna og var við það að fara að segja upp þegar þeir í kringum mig fóru að tala um að þeir hefðu fengið sama póst. Fullt af fólki sem fær svona póst sem er ekkert á bak við. :)
Ingólfur (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 17:35
Hahaha, algjör snilld. Þegar ég las fyrstu línurnar óttaðist ég að þú værir alveg búin að missa vitið og farin að semja sápuóperu!
En drífðu þig nú í að senda honum notendanafnið að heimabankanum þínum. Þarf hr. Bishop ekki á því að halda?
Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 21:33
Þvílík snilld, ég bíð spennt eftir að boði í einkaþotuna, hvað segiru eigum við ekki bara að skella okkur til Mexíkó
Sólveig (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 15:42
Hvað ertu að reyna að segja mér, Ingólfur? Að ég eigi ekki að taka mark á þessu? Athugaðu að hver sem er getur unnið lottóvinning á netinu en við erum hér að tala um fólk af holdi og blóði, meira að segja mínu holdi og blóði svo þetta er allt í gúddí
Nei, Guðrún ég er ekki farin að semja eða lifa í sápuóperu þó þetta sé soldið lygilegt, ekki ennþá a.m.k. Og jú ég verð að drífa í að senda honum aðgangsorðið svo ég geti farið að fá milljónirnar mínar
Líst vel á Mexíkó, Sólveig! Pikka þig upp í Keflavík þegar ég er búin að skreppa til Ghana og skoða heimahagana
Dulúð Jóns, 26.3.2008 kl. 23:48
Count me in!! Ég er sko alveg til í að koma með þér til Ghana, Mexíkó, Bretlands og á alla þá staði sem þú þarft að fara til!! Ég get verið svona þinn einka hjúkrunarfræðinganemi og góður félagsskapur, ég get allavega farið á barinn fyrir þig!!! :)
Garðar (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 17:23
Þetta hljómar bara alltof vel til að vera satt, Garðar minn! Ertu ekki bara að reyna að koma þér í mjúkinn hjá mér af því að ég er orðin forrík?
Annars er það nýtt að frétta af Mr. Bishop vini mínum, að hann sendi mér aftur bréf. Hann hlýtur að hafa séð að ég las hitt og ákveðið að hamra járnið á meðan það er heitt! Ég er ekki búin að opna það af ótta við að hann banki bráðum upp á hjá mér eins og gerðist með Nígeríugæjann í Næturvaktinni!
Dulúð Jóns, 27.3.2008 kl. 23:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.