2.3.2008 | 19:32
VIVA LA OPERA RUSTICA ! (amatörgagnrýni)
Mín skellti sér í óperuna í þriðja skiptið á sinni ævi. Fyrsta reynsla mín af þessari tegund hámenningar var hálftímalöng barnaópera um einhverja rytjulega gervigullgæs hjá ónefndum tónlistarskóla, þvínæst var það afsláttarferð fyrir háskólanema í Íslensku óperuna á verk sem var ekki minnistæðara en svo að það eina sem ég mundi eftir var skelfilega væmið litavalið á búningunum sem gerði það að verkum að allir söngvararnir litu út eins og ítalskir kúluísar.
Fyrir barðinu á þessum sjálfskipaða, dómharða, lag- og tóneyralausa gagnrýnanda, varð í þetta og þriðja sinn; La Traviata eftir Verdi. Fyrirfram hafði mín búið sig undir að dotta yfir herlegheitunum sér í lagi vegna næturvaktarvinnu nóttina áður og líka vegna yfirvofandi leiðinda. En þar sem þetta stykki er í miklum metum og einstöku uppáhaldi hjá madre minni amata, ákvað ég að mæta með opnum huga og opnum augum a.m.k. fram að 2. þætti.
Mín varð ekki fyrir vonbrigðum með þá ákvörðun og hélt sér vakandi heilu þrjá tímana og skemmti sér konunglega allan tímann. Þess ber þó að geta, fyrir ykkur hin sem ekki hafið orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að hlýða á jafn margar óperur og ég (já, þriðja sýning gerir mig óneitanlega að viskubrunni um óperuheiminn!), að þetta er engin gamanópera. Án þess að fara nánar út í smáatriði í söguþræðinum, því ekki vil ég spilla fyrir ef e-r ætlar að sjá uppfærsluna, þá er þetta ekta tragísk, ítölsk ópera þar sem ástríðufullir elskendur fá ekki að eigast (tel mig ekki hafa spillt miklu með þessari lýsingu því þetta er jú bara normið í öllum klassískum óperum). Af því leiðir, að eitthvað annað en óperan sjálf, hélt mér vakandi og flissandi allan þennan tíma. Já, það var reyndar umgjörðin öll og hún skal nú útlistuð nánar, ykkur til fróðleiks og skemmtunar.
Eins og þið vonandi vitið, er verið að reisa tónlistarhús við hafnarbakkann í Reykjavík en meðan verið er að eyða dýrmætum tíma og peningum í hluti eins og rétta áferð á stuðlabergsglerskúlptúrinn hans Ólafs Elíassonar og fara í gegnum allar fjögurhundruðogeitthvað nafnatillögurnar sem bárust (og sem á endanum verður bara enn einn ásatrúartribjútinn, sjá vandlætingarfærslu mína 17. janúar sl.), þá verður landsliðið okkar í óperusöng + einn fyrrum idolþátttakandi, að gera sér að-hruni-komna-kompu Íslensku óperunnar að góðu. Já, sannarlega skandall að þetta skuli viðgangast...en samt skondinn skandall eins og ég mun nú loksins koma að eftir þennan langa formála
Kompa þessi er nefnilega stórmerkileg fyrir aldurssakir og að hún skuli enn vera uppistandandi hlýtur að teljast einhvers konar met. Frammi í fordyrinu er afdrep fyrir óperugesti sem með réttu gæti kallast síldartunna meðan á hléi stendur. Þar stendur nefnilega maður við mann svo þétt að þeir gætu hæglega leikið í fjölda-Ópalauglýsingu og vei þeim manni sem gerist svo djarfur að ætla sér að versla á pínu-barnum (aðeins stærri en míníbar) og ferðast með glas af rauðu eða hvítu yfir í hinn endann! Eftir slíka gestaþraut er skrambi gott að setjast niður inni í sal. En bíðum við...fljótt fer gestinn að gruna að ástæðan fyrir því að litla stelpan sem hélt á púða í fanginu frammi í fatahengi, hefði ekki verið sú að hún væri svona hrædd um að sofna yfir sýningunni og haft með sér höfuðpúða, heldur að greinilega hefði hún komið hingað áður og ákveðið að hafa með sér rasspúða til að þjást ekki í þjóhnöppunum!
En þegar inn í sjálfan salinn er komið, blasir annars fyrst við manni hversu lítill hann er og hve nálægðin við aðra gesti er þrúgandi. Vöntun á upphækkun sætaraðanna er ekki til að bæta úr skák svo útsýnið á sviðið er verulega skert af hári og sérhönnuðum tískuhárspöngum sem ósjaldan eru skreyttar hinum ýmsu risablómum úr satíni og tjulli (halló...hreinasti hroðbjóður og algjör óþarfi því þetta breytir ekki þeirri staðreynd að við búum ekki á Hawaii!). En annars er útsýnið ekki aðalvandamálið, því ef maður kann bara að segja pasta al dente og buon giorno á ítölsku, neyðist maður til að sveigja hálsinn 90° afturábak til að geta fylgst með íslenska skjátextanum uppi í rjáfri.
En burtséð frá þessum smávægilegu óþægindum, þá er önnur nálægð verri en sú við hina óperugestina og það er nálægðin við söngvarana sjálfa. Þar sem sviðið hefur enga hliðarútganga og engin leiktjöld, notast söngvararnir við allt tiltækt og þar með talda gangana milli sætaraðanna þannig að þegar þeir koma þrammandi inn eins og fílahjörð og hefja upp hraustlegar raustir sínar í þessum litla sal, hrökkva áhorfendur gjarnan í kút og sumum liggur við hjartaáfalli.
Í upphafi sýningar eru svo áhorfendur áminntir um að halda kyrru fyrir í sætum sínum í tveimur stuttum hléum inn á milli þátta. Þessi hlé eru gerð til þess, haldið ykkur nú fast..., að söngvararnir geti tekið til eftir sig og skipt um leikmynd fyrir allra augum! Já, þau leysa þetta verk reyndar ágætlega af hólmi og reyna að flétta þessu inn í tónverkið en maður veltir samt óneitanlega vöngum yfir því hvort kórinn fái borgað aukalega fyrir að proppsast á milli aría!?!
Annað sem vakti undrun mína og kátínu í sýningunni, var atriði í miðju verki þar sem tekið var upp á því að sýna svart-hvíta klámmynd uppi á miðju sviði! Það var reyndar ekki klámmynd í nútímaskilningi heldur einfaldlega kona að afklæðast úr hverri spjör í nærmynd á eggjandi hátt. Reyndar var e-ð annað að gerast á sviðinu á sama tíma, söngur og sígaunadans, en ég ábyrgist að allir þeir eiginmenn sem dregnir voru gegn vilja sínum á þessa sýningu af eiginkonum sínum, voru ekki að fylgjast með söng eða dansi þær fullmörgu mínútur sem myndbrotið var sýnt.
Hér þyrfti ég kannski að taka það fram, að þessi tiltekna sýning var ekki sett upp í hefðbundnum Verdi-búningi, heldur flutt í nýjum búningi eða nýjum tíma réttara sagt og látin gerast í "bandarísku umhverfi á 3. áratug síðustu aldar." Ég ætla ekki að tjá mig um þetta val listrænna stjórnenda sýningarinnar enda hef ég engan samanburð, en mér fannst það þó soldið skrítið að sjá þau Alfredo og Víólettu tjá hvort öðru ást sína undir ameríska þjóðfánanum. Þrátt fyrir þessa ameríkaníseringu héldu þau veislu til heiðurs nautabönum með pompi og prakt (atriði sem er mikilvægur partur í verkinu), nokkuð sem mér finnst hæpið að Kanar hafi gert á þessum tíma. En hvað um það, ég gat skemmt mér yfir því að sjá digurvaxna óperusöngvarana spígspora um í nautabanabúningum sem venjulega eru sniðnir fyrir smávaxna menn sem geta borið aðþrengdar kvartbuxur og magabelti. Þessir nautabanar litu frekar út fyrir að hafa torgað heilu nauti áður en þeir tróðu sér í búninginn.
Og ekki var allt gamanið búið enn, uppklappið var eftir, en þá fyrst fór ég nú að óttast um hvort söngvararnir væru slysatryggðir. Ekki nóg með að þeir þyrftu að tipla á milli stórhættulegra planka, sumar söngkonurnar á hælaskóm, heldur datt líka eitthvað brak úr lofti sviðsmyndarinnar í þann mund sem þau voru að hneigja sig. Sem betur fer lenti það ekki á neinum en það munaði littlu og kórsöngvaranum sem varð næstum undir brakinu var greinilega brugðið. Sjálfri stóð mér heldur ekki alveg á sama þegar fólkið í stúkunni fyrir ofan mig byrjaði að stappa á fullu í gólfið til að sýna ánægju sína með sýninguna.
Ég var hálfhrædd um að stúkan myndi ekki þola álagið, hrynja á hausinn á mér og þar með koma í veg fyrir frekari óperuferðir mínar. Ég sá jafnvel fréttafyrirsagnirnar ljóslifandi fyrir mér: Óperuunnandi lætur lífið á La Traviata, Sorglegur endir á stórkostlegri sýningu, Ítölsk tragedía á sviði - íslenskur harmleikur í sal. Og ég sem er ekki einu sinni búin að redda þolanlegri passamynd af mér fyrir minningargreinina mína!
Svona var semsagt þriðja óperusýningin mín, sem reyndist vera hið ágætasta uppistand, í smáatriðum. Efast stórlega um að hægt verði að finna fyrir sömu hughrifum í nýja glerklædda, tónlistarhúsinu og hvet því alla sem hafa ánægju af hágæðasöng og hafa húmor fyrir "rustic setting" að skella sér í Íslensku Óperuna áður en það verður um seinan.
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hahahaha, þessi lýsing fær mig svo sannarlega til að kaupa miða á Óperuna!!
Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 21:17
haha
Kisulóran (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 16:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.