Háskólahorror!

Vindurinn þýtur fyrir utan og hviðurnar skella af og til harkalega í regnvotar rúðurnar. Langdregið baulið í niðurfallsrörinu berst inn til mín í gegnum lokaðan svefnherbergisgluggann. Ég ligg andvaka í myrkrinu og hlusta. Þá finn ég allt í einu hvernig óttinn nær tökum á mér eins og ósýnileg krumla sem grípur þéttingsfast í stórutána á mér og fikrar sig fimlega upp eftir sköflunginum. Ég stirðna upp af skelfingu og get mig hvergi hrært. Krumlan læðist nú með ógnarhraða upp eftir síðunni og lömunin berst út í báða handleggi. Ég ligg stjörf sem freðin ýsa en blóðið ólgar í æðum mér eins og á humri sem skellt er í sjóðandi pott. Krumlan færist nær og nær og allt í einu nær óttinn hálstaki á mér og herðir að svo mér finnst ég vera að kafna... Ég kippist til eins og efsta loðnan í löndunarnetinu og reyni að ná andanum en svo losnar takið skyndilega og krumlan hverfur inn í skuggann. Í gegnum hóstann og dynjandi hjartsláttinn í eyrunum heyrist mér vindurinn hvæsa orðum sem fá hárin til að rísa á höfðinu á mér; Aðeins tveir mánuðir eftir...

Nokkurn veginn svona er líðanin þessa dagana. Tek það fram að þessi kvíðaröskun hefur ekkert með síðustu færslu að gera. Þetta er ekki lýsing á ótta mínum yfir því að pipra vegna þess að ég hef brotið Reglurnar. Nei, þetta er einfaldlega ofurvenjulegur námskvíði sem ásækir mig um nætur. Skiladagur lokaritgerðarinnar nálgast nú með hraðbyri, óumflýjanlegur, eins og geðsjúkur morðingi í hryllingsmynd.

Af gefnu tilefni hef ég því tekið þá óttablöndnu ákvörðun að loka mig inni og forðast umheiminn eins og ég mögulega get. Ég mun takmarka símtöl, sjónvarp og msn og loka mig af inni í litla leynibyrginu mínu. Ég veit vel að morðingjakrumlan mun finna mig á endanum og höggva mig í spað eins og í öllum góðum hrollvekjum en ég get allavega reynt að slá því á frest að hún nái að kæfa mig.

Semsagt, héreftir mun ég skera allt, sem kallast getur félagslegt samneyti, við nögl og skammta mér ákveðinn tíma utan byrgisins. Hef ákveðið að einskorða þær stundir við einn vikudag eða eitt kvöld í viku. Ég er þegar búin að bóka mig eitthvað fram í mars; júróvisjónkvöld á morgun, matarboð í næstu viku og leikhúsferð þar næstu. Þannig að, endilega pantið tímanlega ef þið viljið hitta mig um og eftir páska! Þetta er alls ekkert persónulegt, þið vitið vonandi hvað mér finnst gaman að gera e-ð skemmtó saman, þetta er einfaldlega lífróður hins fyrirfram dauðadæmda fórnarlambs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ÆÆÆÆæ greyid thu! Thu att alla mina samud ad vera fara i helvitis skilapakkann...Verd ad segja ad lysing thin a skilakvidanum i thessari færslu er otrulega god;) Thu ert snillingur og att eftir ad rulla thessu upp, I know it!! Mun reyna vera dugleg ad senda ther uppørvandi mail;) Vona eg hitti thig i næstu islandsferd (sem eg veit ekki hvenær verdur), risakram fra Odense Sigga aka Eyvinda

Sigga (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 13:44

2 identicon

Ekki láta bugast, dúllan mín. Og mundu að ég er alltaf til í að veita þér aðstoð (þó aðstoðin við að semja netprófið hafi skilað litlu )

Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 20:34

3 Smámynd: Dulúð Jóns

Takk fyrir stuðninginn, stúlkur mínar. Risakrammið frá Doktor Eyvindu og vel þegin aðstoð frá uppáhaldskennslukonunni minni, skilar mér langt áleiðis á þessari þrautagöngu. 

Dulúð Jóns, 24.2.2008 kl. 11:15

4 identicon

svona nú, þetta lagast, þetta verður búið áður en þú veist af. átt alltaf stuðning í vinunum....

Kisulóran (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband