MAJOR MEYJARMELTDOWN - Þegar Rauðsokka fer eftir Reglunum

Fyrir stuttu fékk ég bók til baka sem ég hafði lánað góðri vinkonu fyrir allnokkrum misserum síðan. Þetta var bókin Reglurnar, þýðing á amerískri sjálfshjálparbók fyrir konur í makaleit. Bók sem ég fékk allsendis óumbeðna í jólagjöf fyrir u.þ.b. 10 árum, las síðast á tvítugsaldri, hneykslaðist yfir og rakkaði niður í svaðið í kvenréttindafyrirlestri í Kvennó. Nú er ég semsagt komin hátt á þrítugsaldur og ákvað að gaman væri að glugga í hana aftur og athuga hvort álit mitt á henni hefði breyst e-ð. Og hvað gæti verið meira viðeigandi fyrir einhleypu á Valentínusardegi en að leita sér ráðlegginga um hvernig höndla eigi stefnumót, hjá tveimur hamingjusamlega giftum rithöfundum í henni ástríku Amríku?

Hér koma nokkrar reglur ásamt dæmisögum og gullkornum þeirra stallsystra sem ættu vel heima í þætti hjá Dr. Phil, já eða Agli Helga:

Regla 4 - Ekki mæta honum á miðri leið eða skipta reikningnum „Jafnræði er ágætt á vinnustað en ekki á leikvelli ástarinnar. Ástin kemur svo eðlilega þegar karlinn stígur í vænginn við konuna og borgar reikningana."

Regla 5 - Hringdu ekki í hann að fyrra bragði og sjaldan þótt hann biðji þig að hafa samband „Mundu líka að reglurnar hlífa þér við að særast og forða þér frá að vera sagt upp. Við viljum ekki að þú þurfir að þjást að óþörfu. Lífið er nógu erfitt þótt ekki bætist ástarsorg við. Þú ræður ekki hvort þú færð krabbamein eða verður fórnarlamb drukkins ökumanns en þú getur ráðið því hvort þú hringir í hann."

Regla 12 - Slíttu sambandinu ef hann gefur þér ekki rómantíska gjöf á afmælinu þínu eða á Valentínusardeginum „Engin þekkir þessa reglu betur en Susan. Á Valentínusardeginum gaf Brian henni Sergio Tacchini-íþróttagalla en þau höfðu þá verið saman í þrjá mánuði. Þegar við sögðum henni að sambandið væri að renna sitt skeið á enda mótmælti hún og benti á að gallinn væri dýr, auk þess að vera nýjasta tíska í öllum betri íþróttaklúbbum. Við vissum samt sem áður að það hefði verið betra fyrir hana að fá konfektkassa eða blómvönd. Hvers vegna? Vegna þess að þótt gjöfin frá Brian væri dýr var hún ekki rómantísk. ...Raunin varð sú að Brian sleit sambandinu við Susan nokkrum mánuðum seinna."

Regla 14 - Aðeins kossar á fyrsta stefnumótinu „Mundu að aðrar konur hafa spillt körlum með því að sofa hjá þeim strax á fyrsta stefnumóti en þú ert stúlka sem fylgir reglunum og gefur þér því nægan tíma. Gleymdu öllu því sem þú hefur heyrt um frjálsar ástir á sjöunda áratugnum."

Regla 16 - Segðu honum ekki fyrir verkum „Síðast en ekki síst skaltu ekki reyna að breyta lífsháttum hans á nokkurn hátt...Ekki þröngva áhugamálum þínum og skoðunum upp á hann... Reyndu ekki að laga hann. Með því móti bælirðu hann og hann fer að líta á þig sem ráðríkt kvenskass."

Regla 17 - Láttu hann ráða ferðinni „Mundu að láta hann ráða ferðinni. Hann á að verða fyrri til að lýsa yfir ást sinni, rétt eins og það er hann sem velur kvikmyndirnar sem þið sjáið og veitingahúsin og tónleikana sem þið farið á. Það getur verið að hann spyrji þig einhvern tíma álits og í þeim tilfellum máttu segja honum hvað þú kýst."

Og lokahnykkurinn: „Ef þér finnst þú yfir það hafin að beita reglunum skaltu spyrja þig að einu. Ertu gift? Hver er ástæðan ef svarið er neitandi? Gæti verið að þú farir ekki alveg rétt að hlutunum?"

Ókei, álit mitt hefur ekkert breyst. Reglurnar fara ennþá óendanlega í taugarnar á mér og ég get enn hneykslast yfir þessu fornaldarviðhorfi kynsystra minna í henni Amríku. Gott og vel, að því sögðu/rituðu verð ég samt að setja eftirfarandi neðanmálsklausu:

Hin afar sjálfstæða en einhleypa vinkona mín afsakaði seinlætið á skilunum með flutningum en ég hef hana sterklega grunaða um að hafa notað tímann til að leggja Reglurnar á minnið GetLost(Glætan- broskall)!

Hvað mig varðar þá er ég ansi hrædd um að eins fari fyrir mér og henni Pam „...sem vingaðist við Robert í tannlæknaskólanum með því að bjóða honum í mat. Hún átti frumkvæðið. Þótt þau yrðu síðan elskendur og byggju jafnvel saman um tíma virtist hann aldrei raunverulega ástfanginn og hún var aldrei fullkomlega örugg í sambandinu. Auðvitað ekki. Hún átti frumkvæðið. Nýlega sleit hann svo sambandinu út af einhverjum smámunum. Sannleikurinn var sá að hann elskaði hana ekki. Ef Pam hefði fylgt reglunum hefði hún aldrei ávarpað Robert að fyrra bragði eða átt frumkvæði að neinu. Ef hún hefði fylgt reglunum hefði hún ef til vill hitt einhvern annan sem elskaði hana í raun og veru. Hún hefði ekki sóað tímanum. Stúlkur sem fylgja reglunum sóa ekki tíma sínum."

En hvað skyldi valda því að sjálfstæðar nútímakonur á þrítugsaldri taka að glugga í and-femíníska bók eins og Reglurnar og fara að efast um að þær hafi haft rétt fyrir sér á tvítugsaldri? Eina skýringin mín er sú að svona fari þegar þær nálgast næsta tugsaldur og byrja að fyllast örvæntingu. Í heila þeirra og hjarta takast á róttæka hamhleypan (sem vill ekkert frekar en brenna brjóstahaldara í tíma) og rómantíska einhleypan (sem vill ekkert frekar en kúra upp við karlmann). Átökin þeirra í milli eru svo gífurleg að þau valda því að það verður MAJOR MEYJARMELTDOWN!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki nóg með það að netverjinn hafi skemmt sér hið bezta við lestur þessarar færslu heldur kumraði í honum þá einhleypan tók til við að rakka þetta niður. Einhleypan hefur greinilega ekki svarað spurningum bókarhöfunda fyrir sjálfa sig: Hversvegna, já hversvegna, er einhleypan ekki gift? Getur verið að Dulúð sé að fara rangt að hlutunum?

Netverjinn er með afbrigðum reglusamur maður - ekki nóg með það að hann fari eftir öllum reglum sem honum eru settar heldur semur hann nokkrar líka! Lagt er til að Dulúð og Netverjinn setjist niður og ræði þetta freka, hann getur lagt nokkrar lífsreglur!

...þess er svo náðarsamlega óskað að ekki sé spurt um hjúskaparstöðu hins einhleypa Netverja. Það er algert aukaatriði í þessum efnum enda eiga Reglurnar við um kvenfólk en ekki karlfólk.

Netverjinn (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 17:38

2 identicon

omg! úff. ég reyti hárin á höfði mínu af pirringi og undirgefni þessara kvensnifta í amríku. þar sem nú er hægt að komast að öllu með hjálp gúgul, hvernig væri að gúgla þessa ágætu en ofur undirgefnu höfunda?

ástin mun banka upp á þegar þu átt síst von á því- en á meðan ástin reynir að rata, njóttu þess að vera single

(væmin í tilefni  dagsins hehehehehe.. ég sem þoli ekki orðið "valentínusardagur" og hef hotað að sniðganga verslanir í dag sem auglýsa tilboð í tilefni dagsins)

Kisulóran (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 18:37

3 identicon

Hmm, ætli þetta sé ástæðan fyrir því að ég sé ekki gift... ég hef allavega þverbrotið allar þessar reglur! Verð nú að segja að mér finnst alveg sjálfsagt að taka þátt í að borga reikninga sem snúa að heimilishaldi, en þykir reyndar voða gott ef að Ingó borgar fyrir mig ef við förum út að borða... :)

Sólveig (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 23:02

4 identicon

Já, passaðu þig, Sólveig. Samkvæmt þeim stöllum sem standa að baki umræddu bókmenntastórvirki, mun sambandið ykkar ekki endast. Það er ekki fræðilegur möguleiki að Ingó elski þig þar sem þú hefur brotið svona margar reglur!!

En engar áhyggjur, þá eru til margar góðar og gildar bandarískar sjálfshjálparbækur sem munu koma þér á beinu brautina.

Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 14:10

5 Smámynd: Dulúð Jóns

Kæri Netverji: Ég skal fúslega setjast niður með þér og hlusta á góð ráð en ég get ekki hindrað að þau fari inn um eitt eyra og út um annað eins og okkar kvenna er (ó)siður.

Kæra Kisulóra: Væmni er leyfileg í hófi, svona einu sinni á ári svo þú þarft ekkert að vera með samviskubit yfir því. Þú getur ekki ímyndað þér hvað hlakkaði kvikindislega í mér þegar ég fór að þínu ráði og fann þetta með gúggli http://findarticles.com/p/articles/mi_m0BDW/is_20_42/ai_74699230

Kæra Sólveig: Samkvæmt bókinni verður maður að fara eftir öllum reglunum, maður getur ekki bara valið þær sem henta manni (eins og að láta hann borga matinn) svo þér er því miður ekki viðbjargandi skv. því sem þær segja. En ég bendi þér á að lesa ofangreinda grein (látið mig vita ef þið komist ekki inn á hana, kunni ekki alveg að setja inn linkinn) og eins var Guðrún með góðan punkt um allar sjálfshjálparbækurnar sem þú gætir lesið til að redda þér fyrir horn og jafnvel leiða þig upp að altarinu.

Kæra Guðrún: Mundu að kaldhæðni samræmist alls ekki reglunum, slíkt er mikill löstur í fari kvenna og ég verð því að hryggja þig með því að ég sé (gleymdi víst að geta þess að Dulúð er gædd mikilli spásagnargáfu) ekkert brúðkaup á Valentínusardegi í þinni nánustu framtíð

Dulúð Jóns, 17.2.2008 kl. 19:15

6 identicon

Ég held ég muni ekkert reyna að fara eftir þessum reglum fyrst þær virka ekki fyrir höfundinn... en góð tímasetning að vera að standa í skilnaði á sama tíma og maður gefur út bók um hvernig eigi að ná sér í giftingarefni!!!!

Sólveig (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband