Hin ráma rödd skynseminnar

Bílastæðaplan Háskóla Íslands 6. febrúar 2008

Syndarinn veiðir upp líkkistunagla úr pakkanum og kveikir í.

Þá birtist skyndilega dúðaður engill á sextugsaldri sem kallar til hans rámri röddu:

„Fyrirgefðu, má ég aðeins trufla þig eða ertu nokkuð að verða of sein í tíma?"

„Nei, nei, þetta er allt í lagi, get ég eitthvað aðstoðað?" segir syndarinn, blæs frá sér og hugsar með sér að nú verði hann örugglega spurður til vegar.

„Mætti ég nokkuð biðja þig að kíkja aðeins á hálsinn á mér," segir engillinn og togar þykkan trefilinn frá hálsinum svo að í ljós kemur langt og ljótt ör.

„Nú...já, einn af þessum gömlu rugludöllum sem hanga uppi á kaffistofunni í Odda, hugsar syndarinn með sér, jæja, best að gera honum þetta til geðs."

Syndarinn lítur sem snöggvast á örið og spyr svo góðlátlega (eins og alltaf þegar hann talar við veikt fólk): „Og hvernig fékkstu þetta?"

Engillinn svarar ekki, heldur biður kurteislega um að fá að sjá hálsinn á syndaranum.

Syndarinn hikar örlítið en dregur svo niður trefilinn sinn til hálfs, meðvitaður um að yfirleitt séu þessir gömlu karlar meinleysisgrey.

„Þetta er alltof fallegur háls til að fá svona ör," segir engillinn með rámu röddina, „ég fékk mitt þegar ég var skorinn upp á æð í hálsi vegna reykinga."

„Ó, þaa..annig," hikstar syndarinn og roðnar upp í hársrætur þrátt fyrir kuldann úti.

„É...ég er sko alveg að fara að hætta," stamar syndarinn.

„Já, ég vildi að ég hefði hætt nógu snemma," svarar engillinn,

„en afsakaðu annars afskiptasemina."

„Þa..þakka þér fyrir, þetta er gott framtak hjá þér," segir syndarinn og snýr sér við á eftir dúðaða englinum. En hann er horfinn sjónum inn á milli bílanna á planinu, jafn skjótt og hann hafði birst þar.

Syndarinn fær sér hugsi annan smók.

Stuttu síðar endar líkkistunaglinn, hálfkláraður, á kafi í snjónum.

 

Ég tek þessu semsagt sem tákni, ekki frá Guði, heldur sem tákni skynseminnar.

Ég er hætt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með það, gangi þér vel að hætta

Sólveig (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 21:12

2 identicon

Sko þig, nú líst mér vel á þig!!! Þá er bara að standa sig!!!!!!!! Get líka boðið þér á heimsókn á deildina sem ég er að vinna á núna og svo getum við kannski skroppið yfir á lungnadeildina líka svona ef þér myndi detta í hug að byrja aftur!!!

Garðar (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 09:19

3 identicon

 jahérna... kraftaverkin gerast enn....

 til hamingju með þessa ákvörðun. Er þá ekki málið að fá hina syndarana til að hætta með þér ;)

Hanna (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 13:12

4 identicon

og hvað á að hætta lengi í þetta skipti?

Ingólfur (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 18:41

5 Smámynd: Dulúð Jóns

Takk fyrir stuðninginn, gott fólk! Afþakka þó pent boð um heimsóknir á lungna- og líknardeildir, veit fullvel hvað þar er að sjá. Varðandi það að ég fari að frelsa aðra frá syndinni, þá er það bara þeirra mál að finna sinn tímapunkt eða sín tákn um að hætta. Kýs svo að láta síðustu spurningunni ósvarað...tíminn einn mun leiða það í ljós, fyrst er að komast yfir erfiðasta hjallann. En ég er ágætlega bjartsýn svona fyrsta sólarhringinn í fráhvörfum og er t.d. búin að byrgja mig upp af snakki, nammi og nikótíntyggjói fyrir næturvaktina! Jæja, frelsaði syndarinn kveður þá í bili því þetta komment fer að nálgast bloggfærslu að lengd

Dulúð Jóns, 8.2.2008 kl. 00:42

6 identicon

Rosalega er ég ánægð með þig! Ég ætla að vera bjartsýnni en Ingólfur og segja "ég veit þú stendur þig"!! Það er eins gott fyrir þig, því annars sendi ég fleiri fyrrverandi sjúklinga á þig! Sígarettupásurnar yrðu jafnfjölmennar eins og vinsælustu holdsveikranýlendurnar!

Aldan (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband