30.1.2008 | 15:51
Sú var tíðin að snjór var snilld (heimasætan fyrr og nú)!
Það hefur verið mikil gúrkuuppskera hér á bæ, síðustu vikurnar. Engar fréttir að segja, hvað þá skrifa um. Heimasætan hefur bara verið föst í viðjum vanans sem snýst aðallega um að sinna bæjarverkunum, sofa, borða, sækja stöku tíma og lesa femínískar, drepleiðinlegar heimildir (no pun intended - þetta er bara bláköld staðreynd!) fyrir væntanlegan sauðburð (útskrift) í vor. En þá fæðist sko lambið mitt litla (ritgerðin) eftir langa og stranga meðgöngu því rollan mín er tvílembd (þarf að bera bæði fræðilegan og verklegan hluta).
Gúrkutíðin var semsagt svo slæm orðin að heimasætan velti jafnvel fyrir sér hvort hún ætti að byrja að blogga um þjóðmálin. En hún komst að þeirri niðurstöðu að það væri algjörlega andstætt öllum reglum og gildum blogghatarans mikla að leggjast niður á hið lága plan stjórnmálaumræðunnar. Heimasætan ákvað því að fúlsa við skrifum um skítahauginn í Ráðhúsinu og Spaugstofuútreiðina, rétt eins og hún fúlsar við súrum hrútspungum og sviðakjömmum. Í staðinn ætlar hún að segja ykkur litla sögu úr æsku sem gerðist á þorranum fyrir einum 18 árum (svona sirkabát).
Einn dimman dag í janúar 1990, vaknaði heimasætan á Vífilsstöðum upp af værum svefni. Hún teygði vel úr sér og skrollaði upp hvítu plastrimlagluggatjöldunum. Hún leit út um gluggann og sá sér til mikillar gleði að skaflarnir af hvítri, þéttri mjöllinni náðu alla leið upp fyrir gluggakistuna og að snjóbreiðurnar teygðu úr sér svo langt sem augað eygði, alla sjö metrana að næsta bæ. Eftirvæntingin var svo mikil að hún mátti varla vera að því að sturta ofan í sig kókópöffsinu, heldur flýtti hún sér að klæða sig í skræpótta kuldagallann, rauðu moonbootsin og neongrænu grifflurnar. Mamma hennar stoppaði hana á leiðinni út úr dyrunum og spurði hvort hún ætlaði virkilega út svona. Svo skellti hún á hana skærbleikri húfu með mynd af Kærleiksbjörnunum, trefli í stíl og klæjandi ullarvettlingum utanyfir grifflurnar. Heimasætan andvarpaði af ánægju þegar hún kom út undir stjörnubjartan himininn og andaði að sér frostköldu vetrarloftinu. Hún öslaði snjóinn sem náði henni upp að skólatösku, full tilhlökkunar. Hún óð, móð og másandi yfir skaflana í átt að strætóstoppistöðinni. Í dag skyldu sko gerðir snjóenglar, byggðir snjókarlar og jafnvel snjóhús eftir skóla, hún gat varla beðið eftir meiri snjó!
Einn dimman dag í janúar 2008, vaknaði heimasætan í hinum enda bæjarins upp af óværum blundi. Hún teygði vel úr sér, rak sig í vegginn og bölvaði í hljóði. Hún kíkti með öðru auganu út á milli mahóní rimlanna og lokaði aftur, snjórinn huldi skrjóðinn hennar upp fyrir topp, hún bölvaði aftur. Nú þyrfti hún að skafa áður en hún legði af stað og hún mátti varla vera að því að sturta ofan í sig Kellogs K-inu, heldur flýtti hún sér að klæða sig í háu leðurstígvélin, ullarkápuna og svörtu Soniu Reikel hanskana. Mamma hennar stoppaði hana á leiðinni út úr dyrunum og spurði hvort hún ætlaði virkilega út svona. Svo dró hún fram svörtu húfuna og trefilinn í stíl við hanskana og neyddi hana til að klæða sig betur (já, sumt breytist aldrei!). Heimasætan andvarpaði af óánægju þegar hún kom út undir stjörnubjartan himininn og andaði að sér frostköldu vetrarloftinu. Hún öslaði snjóinn sem náði henni upp að hnjám, full geðvonsku. Hún óð, móð og másandi yfir skaflana í átt að bílnum. Í dag skyldi sko skafað, saltað og mokað eftir skóla, hún gat varla beðið eftir næstu rigningu!
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hehe, snilld :)
Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 22:07
ég er sammála 2008 heimasætunni og horfi raunamæddur á veðurspá næstu daga þar sem engin vætutíð er í kortunum
Ingólfur (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 22:39
Hahahaha, já skemmtilegar lýsingar þetta!! En að þú óskir eftir rigningu finnst mér nú ekki skemmtilegt að heyra!! Ég vil hafa snjóinn en ég vil ekki að það falli meira af honum svo maður þurfi ekki endalaust að vera að skafa, það er eitt það leiðinlegasta, en kalt og bjart er gott en rigningu og rok hata ég algjörlega!!!
Garðar (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 10:30
Niður með snjóinn upp með rigninguna og hana nú! Engan andsk.. kulda hér á þessu skeri. Við viljum hlýju,við viljum sól!
ps. skemmtileg færsla og góð sýn á það hvernig hlutirnir breytast með hækkandi aldri :)
Hanna (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.