Nýársheitin sem ég ætla ekki að efna

Fram til þessa hefur mér ekki auðnast að halda hvers kyns áramótaheitstrengingar út árið á enda. Guð má vita að ég hef reynt, oftar en ég hef tölu á. Oftast hafa heitin verið strengd í öðru hvoru heilahvelinu (var aldrei nógu klár í líffræði til að muna hvaða starfsemi fer fram í hægri og hvaða í vinstra) og millifærð í þartilgerðan minnisbanka. En eitthvað virðist sá heimabanki vera lokaður vegna mistalningar árið um kring hjá mér! Stundum hafa heitin verið skrásett á blöð, servíettur, jafnvel handarbökin en ekkert virðist virka. Blöð og servíettur hafa þann undarlega eiginleika að lenda "óvart" í ruslinu og handarbaksheitin mást af skinni, og þar með úr sinni, við þriðja þvott.

Þið megið kalla þessi misheppnuðu heit mín skort á sjálfsaga, einbeitingarleysi, leti, snert af ADHD eða hvað annað sem ykkur dettur í hug en ég er allavega hætt að reyna að blekkja sjálfa mig með slíkum afsökunum. Mér er bara ekki ætlað að betrumbæta mig á ársbasis, þótt ekki sé vanþörf á. Mér er nær að sættast við sjálfa mig með öllum mínum göllum, agnúum, vanköntum og akkilesarhælum. Því er mér sönn (sjálfs-)ánægja að kynna Ekki - Nýársheitin mín sem hér birtast í fyrsta sinn á rafrænu formi (já, maður var doldið lengi að taka tæknina í gagnið en maður er nú allur að koma til svona ca. tíu árum of seint).

Árið 2008 ætla ég EKKI að:

1) Taka mig á í skipulagningu (Þetta göfuga markmið var kæft í fæðingu fyrir rúmum 20 árum þegar skólaganga mín hófst og verður ekki bætt héðan af. Allra síst á síðustu námsönninni minni, krosslegg fingur fyrir þessu síðasta!)

2) Hætta að reykja (Ef það gerist á þessu ári, þá gerist það ekki í þynnkunni 1. janúar og í allra fyrsta lagi eftir taugastrekkjandi vökunæturnar fyrir skil á lokaverkefninu í maí.)

3) Fara í megrun (Hver er hræddur við Vigtpínu Úlfs? Ekki ég! Ef ég þyngist, þá það. Ef ég léttist, þá verður það afleiðing fyrrnefnds skipulagsleysis og stresshlaðinna, reykmettaðra vökunátta.)

4) Hætta að drekka kaffi (Sjá heit nr. 2)

5) Hætta að drekka áfengi (Hvernig ætti ég annars að geta drekkt sorgum mínum þegar öll mín plön um útskrift í maí fara í vaskinn?)

6) Hreyfa mig meira og stunda heilsusamlegt líferni (Búin að vera þar, búin að gera það! Veit það gengur vel hjá mér í tvær vikur þar til ég fell aftur í sukkið af tvöföldum krafti. Svo til hvers að eyða tveimur vikum til einskis?)

7) Hætta að djamma (Það er nú algjör óþarfi að gangast undir munklífi þó það renni upp nýtt ár!)

8) Hætta að eyða peningum í óþarfa (Hvað annað ætti ég svosem að eyða þeim í? Nógu lítið er það nú sem ég þéna svo það tekur því ekki að leggja þá inn!)

9) Hætta að kvarta yfir lágu laununum mínum (Ef ég held því tuði áfram, eru meiri líkur á að ég reyni að bæta úr því með því að skipta um starf.)

10) Hætta að blogga (Fyrst ég er loks orðinn þræll tækninnar, get ég eins nýtt mér hana. Einhvers staðar verð ég líka að fá útrás fyrir gleði og sorgir ársins 2008!)

Dulúð óskar dyggum lesendum sínum (en soldið lötum álitsgjöfum) gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna! Ekki ómaka ykkur við heitstrengingar og loforð um betrumbætur þessi áramótin, þið eruð fullkomlega frábær eins og þið eruð!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæra Dulúð (og systur hennar Varúð og eitthvaðannaðsemégmanekki-úð), takk fyrir frábært blogg á árinu og mér er sérstaklega vel við ekki-heit númer 10! Mér er að sama skapi fremur illa við ekki heit númer 10...

 Gleðilegt ár! Þú ert sömuleiðis frábær!

Karl Ágúst Ipsen (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 14:44

2 identicon

það er vinsælt í ár að gera "ekki-heit".

ég geri bara min heit (og ekki-heit) as i go along.

gleðilegt nýtt ár!

Kisulóran (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 14:51

3 identicon

Mikið lýst mér vel á þessi ekki heit þín og ég tek undir flest þeirra með þér ef undan er skilið heit nr. 2. Hlakka til frekari djamma á næsta ári. Gleðilegt ár og takk fyrir árið sem er að líða. Sjáumst hress fljótlega á nýju ári.

Garðar (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 18:30

4 identicon

ég er að átta mig á því að vissulega er mér ekki illa við heit númer 10, það er bæði þvæla og vitleysa. Nei, mér er illa við heit númer tvö, svossum eins og Garðari!

Karl Ágúst Ipsen (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 01:28

5 identicon

Gleðilegt ár og takk fyrir það liðna.

Ingólfur (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 13:02

6 Smámynd: Dulúð Jóns

Gleðilegt ár öll-sömul-eiðis og takk fyrir umhyggjuna (eða ætti ég að segja forsjárhyggjuna) hvað varðar heilsu mína, piltar 

Dulúð Jóns, 2.1.2008 kl. 12:49

7 identicon

Það er greinilegt að ég verð að bæta einu: EKKI heiti á listann minn. Ég ætla EKKI að fara svona sjaldan á síðuna þína. Ég gleymi því svo oft, og verð að taka mig á. Síðustu bloggfærslur skemmtilegar og magnaðar hjá þér :)

Guðrún Jóna (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband