Kaþólikkar kunna líka að hlæja

Kaþólikkar, líkt og aðrir trúflokkar, hafa fengið sinn skerf af miskómískum athugasemdum og bröndurum í gegnum tíðina. Þeir hafa líka löngum verið vændir um alvarleika og að hafa lítinn sem engan húmor. Sem gildur og gegn kaþólikki hef ég tekið mér það bessaleyfi að sýna fram á hið gagnstæða og birti því hér litla dæmisögu sem birtist í nýjasta hefti Kaþólska kirkjublaðsins:

Rómarferð

Kona nokkur fór að venju í hárgreiðslu til að fá klippingu áður en hún lagði af stað í ferðalag til Rómar ásamt eiginmanni sínum. Þegar hún sagði hárskera sínum stuttlega frá ferðaáætlun sinni svaraði hann um leið: „Róm? Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum manni í hug að fara þangað? Það úir og grúir af fólki þar og í þokkabót er allt skítugt. Það er fullkomin vitleysa hjá þér að ferðast til Rómar. En hvað um það, hvernig kemst þú þangað?"

„Við ferðumst með Continental flugfélaginu," ansaði konan. „Við fengum góðan afslátt."

„Continental?" hrópaði hárskerinn. „Það er ömurlegt flugfélag. Flugvélarnar eru gamlar og flugþjónarnir ljótir og seinkun í hverju einasta flugi. En hvað um það, hvar ætlið þið að gista í Róm?"

„Við gistum á frábærum litlum stað rétt við ána Tíber sem kallast Hótel Teste."

„Þú þarft ekki að segja meira. Ég kannast við þennan stað. Allir halda að þeir fái gistingu í sérstöku, fyrsta flokks gistihúsi en í raun og veru er þetta fremur sorphaugur, versti staður í borginni. Herbergin eru pínulítil og þjónustan er léleg og fokdýr. En hvað um það, hvað ætlið þið svo að gera í Róm?"

„Við ætlum að skoða Páfagarð og vonumst til að geta séð páfann í áheyrn á Péturstorginu."

„Því trúir þú nú ekki sjálf," sagði hárskerinn. „Þú í hópi tugþúsunda sem langar alla að sjá páfann. Hann verður eins og maur fyrir ykkur í þessari fjarlægð. En hvað um það, ég óska ykkur fararheilla fyrir þessa heimskulegu ferð. Þið þurfið á því að halda."

Eftir mánuð kom konan aftur í hárgreiðslu. Hárskerinn forvitnaðist um Rómarferðina. „Þetta var afskaplega indælt," sagði konan. „Við lögðum ekki aðeins á réttum tíma af stað í einni af nýjustu vélum Continental flugfélagsins heldur vorum við líka færð í Business Class af því að flugið var yfirbókað. Maturinn og vínið voru fyrsta flokks. Og flugþjónn sem sá um mig var fjallmyndarlegur 28 ára gamall maður. Hótelið var stórkostlegt! Þeir voru nýbúnir að gera við það fyrir meira en 5 milljónir dollara og nú er það eins og gimsteinn í borginni, allra gistihúsa glæsilegast. Vegna fjölda gistinga baðst hótelstjórinn afsökunar og bauð okkur að gista í svítu án aukagjalds."

„Jæja," muldraði hárskerinn, „þetta hljómar þokkalega, en ég veit að ykkur tókst alls ekki að sjá páfann."

„Þvert á móti, við duttum í lukkupottinn. Þegar við vorum að skoða Páfagarð kom svissneskur vörður til mín og sagði að páfann langaði að hitta nokkra ferðamenn, og hvort ég vildi ekki vera svo góð að fylgja sér og fara inn í einkaherbergi páfa og bíða þar uns hann kæmi og heilsaði mér persónulega. Og eftir fimm mínútur kom sjálfur páfi og heilsaði mér með handabandi. Ég beygði kné og hann talaði stuttlega við mig."

„Er það satt? Og hvað sagði hann?"

„Páfi sagði: Hvar í ósköpunum fékkst þú þessa lélegu hárgreiðslu?"

 

Og segiði svo að kaþólikkar hafi ekki ískaldan, rjómalagaðan húmor þó hann sé hjúpaður í dæmisöguídýfu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)

Höfundur

Dulúð Jóns
Dulúð Jóns

Bloggar af lífi og sál um sín flóknustu vandamál og leyndustu einkamál, jafnvel blómkál. Eiginlega bara um allt nema þjóðmál, heimsmál og stjórnmál!

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...100_0658

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband