30.10.2007 | 08:43
Leiðtogablús
Af því að ég er svo tom i hovedet þessa dagana ætla ég bara að henda hérna inn smá smásögu sem ég samdi fyrir hinn magnaða kúrs Skapandi textar og viðtalstækni sem kenndur er af Karli Ágústi atvinnuspaugara (hmm...ætli spaugsemin sé tengd nafninu eða hvað segir þú um það Karl Ágúst?).
Við erum sko að tala um kúrs sem er kenndur klukkan átta á mánudagsmorgnum og samt er full mæting þar! Við áttum semsagt að skrifa undir fyrirsögninni Leiðtoginn lætur af störfum en annars voru efnistök frjáls. Hið merkilega er að þetta verkefni var sett fyrir um það leyti sem leiðtogar borgarinnar voru að láta af störfum og nýir að taka við en samt valdi enginn að skrifa um það. Segir það ekki ýmislegt um hyllina sem leiðtogarnir okkar njóta eða njóta ekki, öllu heldur!?!
Leiðtoginn lætur af störfum
Það er bankað létt en ákveðið á dyrnar og áður en honum gefst færi á að rymja: vertu úti", trítlar lágvaxin kona í snjóhvítum kjól með kappa á höfðinu inn til hans. Hún er dökk á hár og hörund og virkar yngri eftir því sem hún kemur nær rúminu hans. Hann reisir sig upp við dogg og hreitir út úr sér um leið: Ég hélt ég hefði gert það fullkomlega ljóst að ég vil ekki vera truflaður í siestunni minni." Ég þarf að mæla hjá þér blóðþrýstinginn herra," segir hún og fipast ekki þrátt fyrir ólundartóninn í honum.
Nú, jæja góða fyrst þú ert hvort eð er búin að trufla mig, geturðu reddað fyrir mig einum stórum og vænum. Hlauptu út á horn og náðu í hann fyrir mig." Hann bandar henni frá sér með æðaberri hendinni sem ber þess þó engin merki að hafa tekið í ófáan gikkinn og hrist spaðann á fjölda frægra manna. Í stað þess að snúast samstundis á hæli og halda rakleiðis í átt til dyranna, fikrar hún sig óhrædd nær honum og brettir upp vinstri ermina á röndótta náttjakkanum hans. Það er stranglega bannað að reykja hérna inni og auk þess hafið þér ekki gott af því herra," svarar hún grafalvarleg en lyftir öðru munnvikinu kankvíslega.
Nú fýkur í hann og orðin frussast út um sítt skeggið: Ég hef nú bara aldrei vitað annað eins...en sú ósvífni, veistu ekki hver ég er, chica?" Jú, auðvitað herra, hver þekkir ekki leiðtoga sinn og landsföður?" segir hún ofur rólega og byrjar að pumpa. Við þetta sljákkar aðeins í honum og hann horfir forviða á þessa stúlku sem stendur svona uppi í stríðu hárinu á honum og svarar honum fullum hálsi, nokkuð sem enginn hefur vogað sér í áraraðir. Alveg síðan hann afsalaði sér nauðbeygður völdum, hefur honum fundist hann einskis nýtur og fullur vanmáttar. Vissulega tóku veikindin sinn toll líka en það að fela Raúl stjórnina var dropinn sem dró úr honum allan mátt.
Og svo kemur þessi stelpuskjáta full af þrákelkni æskunnar sem minnir hann á löngu liðna tíð og allt í einu fyllist hann eldmóði á ný. Efri mörkin eru 175 á móti 82 neðri og púlsinn 76...fullhár herra," segir hún og setur í brýrnar sem eru bleksvartar og bogadregnar. Enginn tími til að fást um það, ég ætla fram úr. Náðu í jogging-gallann minn inn í skáp, ég þarf að hringja í Chavéz og panta hjá honum óskalag fyrir þig."
Um bloggið
Blogg í blíðu og stríðu (en mest þó í blíðu)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég þurfti að hugsa lengi hvaða tíma ég væri að kenna klukkan átta á morgnanna!
Karl Ágúst Ipsen (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 10:04
Haha, grunaði það! En ef þú værir kennari er ég viss um að það væri líka full mæting hjá þér
Dulúð Jóns, 1.11.2007 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.